Ferðaveiki

Ferðaveiki er samheiti yfir bílveiki, sjóveiki og flugveiki þar sem ástæðan er sú sama í öllum tilfellum. Hún orsakast af árekstrum milli skynfæra. Til dæmis þegar ferðast er í bíl þá segja vöðvarnir þér að þú sért kyrr en augun sjá hreyfingu og það sama má segja um innra eyrað sem aðstoðar okkur við jafnvægisskynið.

Í innra eyranu er meðal annars svokallaður kuðungur og í honum eru göng með vökva sem færist til eftir því sem höfuðið hreyfist og gefur heilanum þannig skilaboð um hreyfingu. Heilinn lendir svo í vandræðum með að vinna úr þessum ólíku skilaboðum sem veldur sumum vanlíðan, svima og ógleði.

Allir geta fundið fyrir einkennum um ferðaveiki en það er algengara hjá börnum og þunguðum konum.

Einkenni:

Einkennin geta komið mjög skyndilega og flestir verða kaldsveittir og óglatt. Önnur einkenni eru:

  • Svimi
  • Aukin munnvatnsframleiðsla
  • Lystarleysi
  • Fölvi

Að auki kvarta sumir undan höfuðverk, þreytu og öndun verður ör og grunn. Í verstu tilfellum af ferðaveiki kasta einstaklingar upp.

Úrræði

Einkennin ganga yfirleitt yfir þegar farartækið stöðvast eða viðkomandi aðlagast og heilinn nær tökum á að vinna úr skilaboðunum en það eru til ýmis ráð sem gott getur verið að nýta sér ef ástandið ætlar ekki að ganga yfir af sjálfu sér:

  • Slökun. Finndu eitthvað sem þú getur einbeitt þér að til dæmis að anda djúpt og rólega eða telja afturábak frá 100.
  • Lokaðu augunum, þannig útilokar þú eitt skilningarvitið.
  • Horfðu á hlut sem er kyrr til dæmis sjóndeildarhringinn ef þú ert um borð í bát eða á fjall/hús eða annað kyrrstætt sem þú kemur auga á út um bílglugga og flugvélavæng ef þú ert í flugi.
  • Forðastu áfengi og borðaðu létta máltíð fyrir brottför en alls ekki sleppa því að borða.
  • Andaðu að þér fersku lofti ef mögulegt er og ekki reykja eða vera í kringum sígarettureyk.
  • Forðastu allann lestur. Það á líka við um tölvur og síma.

Gott getur verið að velja sæti yfir væng ef þú ert að fljúga, vera úti við eða ofan þilja þegar þú ert á siglingu og í framsæti á bíl í ökuferð ef þú átt þess kost.

Ýmsar lausnir eru til við svæsnustu tilfellum í formi náttúrulyfja sem innihalda þá ýmist engifer eða mintu. Sumir hafa gagn af nálastungumeðferð og í allra verstu tilfellum er hægt að fá lyf hjá lækni. Þau hafa öll aukaverkanir  eins og syfju og sljóleika.

Höfundur greinar