Fjöltaugaskemmd

Fjöltaugaskemmd eða fjöltaugakvilli (polyneuropathy) getur lýst sér á marga vegu og getur átt sér fjölmargar orsakir. Fjöltaugakvilli er truflun á starfsemi margra tauga í senn sem oft byrjar í fótum og getur breiðst út til annarra líkamshluta. Stundum gerist þetta skyndilega en einkenni geta líka komið hægt og sígandi á löngum tíma. Bráður fjöltaugakvilli sem kemur skyndilega getur m.a. stafað af sýkingu, sjálfsnæmissjúkdómi, eitrunum af ýmsum toga eins og þungmálmum (blý, kvikasilfur), kolsýrlingi og sumum lyfjum. Langvinnur fjöltaugakvilli getur stafað af sykursýki, langvarandi ofneyslu áfengis, skorti á B12-vítamíni, vanstarfsemi skjaldkirtils, nýrna- eða lifrarbilun, sumum tegundum krabbameina eða ofneyslu B6-vítamíns (pýridoxíns).

Ekki er alltaf hægt að greina orsökina og í sumum tilvikum virðist fjöltaugakvilli vera arfgengur. Einkennin geta verið með ýmsu móti en algengast er að sjúklingurinn þjáist af máttleysi, náladofa eða verkjum í fótum og höndum. Stundum leggst sjúkdómurinn einnig á ósjálfráða taugakerfið með einkennum eins og hægðatregðu, stjórnleysi á þvaglátum, truflun á starfsemi kynfæra, sveiflum í blóðþrýstingi og minnkaðri svitamyndun. Mikilvægt er að reynt sé að finna orsök sjúkdómsins, þó það takist ekki alltaf, og meðhöndla sjúklinginn samkvæmt því. Meðferðin getur falist í því að lækna sýkingu, meðhöndla eitrun, hætta notkun lyfs, gefa B12-vítamín eða hætta ofnotkun B6-vítamíns. Hún getur líka falist í því að draga úr áfengisneyslu eða meðhöndla illkynja sjúkdóm.

Ýmsar aðrar sjaldgæfari orsakir og viðeigandi meðferð koma einnig til greina. Ef bréfritari hefur ekki farið til læknis ætti hann að gera það án tafar til að fá sjúkdómsgreiningu sem byggist að verulegu leyti á sögu sjúkdómsins, hver voru fyrstu einkennin og hvernig sjúkdómsferlið hefur verið síðan. Einnig þarf að rifja upp aðra sjúkdóma, lyfjanotkun, snertingu við eiturefni og annað sem kann að skipta máli.

Þegar sjúkdómsgreining liggur fyrir er hægt að gera sér grein fyrir meðferðarmöguleikum og horfum. Þetta allt þarf sjúklingur að ræða vandlega við lækninn.

Umfjöllun þessi birtist fyrst á Mbl.

Höfundur greinar