Hvort sem þú ákveður að fara í flensusprautu eða ekki er mikilvægt að þekkja og geta nýtt sér þær leiðir sem þekktar eru til varnar því að smitast af árlegri flensu. Sértu nú þegar búin að venja þig á að hnerra í ermina, þvo hendur vandlega og að forðast margmenni þar sem mikið getur verið um vírusa ertu vissulega á réttri leið en það eru fleiri hlutir sem þarf að huga að.
Hér á eftir eru tíunduð atriði sem geta haft áhrif á smitlíkur.
Efnisyfirlit
Áhyggjur.
Með því að vera sífellt að velta fyrir sér hvort maður sé orðinn veikur getur hreinlega valdið veikindum. Það er mikilvægt að halda ró sinni í allri umræðunni og muna að langflestir þeirra sem smitast ná fullum bata.
Rannsóknir hafa hins vegar sýnt fram á að streita getur valdið eða orsakað versnun á ýmsum heilsukvillum svo sem vélindabakflæði, svefnleysi og depurð. Þannig geta of miklar áhyggjur og streita veikt ónæmiskerfið og um leið aukið líkur á smiti.
Faðmlög, kossar og handaband…
Með því að snerta smitaðan einstakling aukast smitlíkur verulega og er það ein líklegasta leiðin til að smitast. Þetta þýðir ekki að við eigum að einangra okkur félagslega allt flensutímabilið en þurfum að vera vakandi fyrir þessum smitleiðum.
Ef þú þarft að heilsa með snertingu, kossum eða faðmlagi, forðastu að snerta andlitið þitt með höndunum þar til þú ert búin að þvo þær eftir að hafa heilsað/faðmað einhvern. Mælt er með því að halda sig fjarri smituðum einstaklingum ef kostur er til að minnka líkur á smiti.
Reykingar.
Sígaretturreykurinn lamar bifhár í nösum og lungum. Þessi bifhár eru ætluð til að „gripa” eða fanga veirur og bakteríur. Þannig verður líkami þess sem er útsettur fyrir sígarettureyk ekki jafnvel varinn fyrir smiti. Flensan getur leitt til lungnasýkinga og þá sérstaklega hjá þeim sem eru á áhættu eins og til dæmis þeir sem reykja.
Líkamsrækt:
Allt er best í hófi, það er marg sannað. Þannig er það líka með hreyfingu. Með því að leggja of mikið álag á líkamann með ofurþjálfun getur haft neikvæð áhrif á ofnæmiskerfið og veikt það, sérstaklega ef þú gætir ekki að því að fá nægan svefn, nærast og drekka vel. Eins er auðvelt að smitast á líkamsræktarstöðvum þar sem margir eru að snerta sömu hlutina eins og handföng á hlaupabrettum, lóð og þess háttar.
Með þessu er ekki verið að segja að þú eigir að hætta að fara í ræktina, því holl og góð hreyfing hjálpar til við að byggja upp ónæmiskerfið. Það er hins vegar gott að venja sig á að þurrka alltaf af handföngum og snertiflötum þeirra tækja sem þú notar áður en þú snertir þau. Farðu strax í sturtu og notaðu sápu eftir líkamsrækt til að drepa alla þá sýkla sem þú gætir hafa krækt í.
Áfengi:
Það er alltaf skynsamlegt að stilla áfengisneyslu í hóf, og ekki síst á flensutíma vegna þess að þú gætir vaknað daginn eftir með eitthvað annað og verra en timburmenn. Rannsókn sem gerð var á músum nýlega sýndi fram á að ef þeim var gefið mikið magn áfengis á stuttum tíma þá veiklaðist ónæmiskerfi þeirra og þær áttu erfiðara með að verjast sýkingum í að minnsta kosti 24 klst eftir.
Önnur afleiðing áfengisdrykkju er sú að neysla þess veldur ofþornun og það hefur aftur áhrif á slímhúðirnar í nefi og hálsi og getu þeirra til að „fanga “ og losa sig við sýkla.
Handspritt:
Gakktu úr skugga um að handsprittið sem þú notar innihaldi 60%-95% alkohól, sem er nauðsynlegt til þess að það virki sem skyldi. Handspritt á aldrei að koma í staðinn fyrir handþvott nema engin aðstaða til handþvottar sé fyrir hendi. Handþvottur með vatni og venjulegri sápu er alltaf besta leiðin til að hreinsa sýkla af höndum, sé handþvotturinn rétt framkvæmdur á annað borð.
Handþvottur:
Þrátt fyrir mikla fræðslu um mikilvægi handþvottar þá er talsvert um það að fólk þvoi sér ekki nægilega vel. Tíður handþvottur, allt að 10 sinnum á dag, er það sem talið er að veiti besta vörn gegn útbreiðslu flensusmits en þó sýna tölur frá Bandaríkjunum að 39% svarenda þvoi hendur sjaldan eða aldrei eftir hósta eða hnerra, og næstum helmingur þeirra þvo sér um hendur í 15 sekúndur eða skemur en mælt er með að handþvottur taki ekki skemmri tíma en 20 sekúndur.
Gott er að gefa sér tíma til að sápa allt yfirborð handa og milli fingra, og jafnvel hægt að flauta eða syngja gamla Nóa tvisvar sinnum á meðan (það má gera það í huganum líka). Muna að skrúfa fyrir krana og opna baðherbergisdyr eftir handþvott með pappírsklút til að hendurnar haldist hreinar.
Andlitsmaskar/andlitsgrímur:
Ekki hefur verið mælt með því að venjulegt fólk sé að nota andlitsmaska til að verjast smiti. Þó eru alltaf einhverjir sem velja að nota þá, sérstaklega þeir sem eru í áhættuhópi eða umgangast smitaða einstaklinga.
Það er hins vegar afar mikilvægt að nota maska rétt séu þeir notaðir á annað borð því annars gagnast þeir ekkert. Gæta þarf að því að maskinn komi ekki við munn eða nef þegar hann er fjarlægður, hendið honum strax eftir notkun og þvoið hendur vandlega á eftir. Notið böndin eða teygjurnar til að taka maskann af og aldrei á að snerta maskan að framan þar sem þar er svæðið sem er mest mengað.
Veirulyf:
Mikilvægt er að veirulyf eins og Tamiflu eða Relenza séu ekki notuð að nauðsynjalausu og því eru þau eingöngu gefin samkæmt læknisráði hér á Íslandi. Þetta er meðal annars gert til að sporna við því að veirurnar myndi ónæmi fyrir lyfinu. Sé hins vegar um flensusmit að ræða þarf að gefa lyfið á fyrstu 48 stundum eftir að einkenna verður vart til að ná fram sem bestu virkni.
Kæruleysi:
Þetta getur virst vera mótsögn við umfjöllunina hér að ofan en það er hins vegar þannig að besta leiðin til að takast á við flensutímabilið er að vera mitt á milli þess að fá kvíðakast eða sýna kæruleysi.
Margir telja sig of unga eða heilsuhrausta til að þurfa að hafa áhyggjur af flensunni og það er örugglega að mörgu leyti rétt en hins vegar hefur þetta breyst svolítið.
Þeir sem eru í áhættuhópi vegna árlegu flensunnar hafa hingað til verið þeir sem eru eldri en 65 ára, undir 2 ára, þungaðar konur og þeir sem hafa undirliggjadi sjúkdóma.
Kjarni málsins er þessi: aldur og heilsufar gerir þig ekki ónæman og allir þurfa að taka þátt í forvörnum gegn útbreiðslu flensunnar til að árangur náist.
Greinin birtist fyrst 27.apríl 2015 en hefur verið uppfærð
Höfundur greinar
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar