Flökkuvörtur/Frauðvörtur

Flökkuvörtur/Frauðvörtur  er veirusýking sem leggst á húð og lýsir sér sem litlar bleiklitar bólur á húðinni sem eru þéttar viðkomu. Þær eru oft glansandi og inni í þeim er hvítur massi.

Efnisyfirlit

Hver er orsökin?

Flökkuvörtur koma vegna sýkingar af völdum veiru sem kallast Molluscipoxvirus Molluscum contagiosum og tilheyrir hóp veira sem kallast einu nafni Poxveirur. Sýkingin veldur einungis einkennum í húð.

Hvernig sýkist einstaklingur af flökkuvörtum?

Smitleiðin er með beinni  eða óbeinni snertingu við sýktan einstakling. Því geta flökkuvörtur einnig smitast við kynmök þó það sé sjaldgæft. Einnig er hægt að smitast með óbeinum leiðum eins og ef notað er handklæði sem sýktur einstaklingur hefur áður notað. Frauðvörturnar virðast smitast auðveldar þegar húðin er rök, eins og t.d. þegar börn fara saman í sund.

Tíminn sem líður frá því að einstaklingurinn er útsettur fyrir smiti og þar til flökkuvörturnar koma fram á húðinni eru allt frá tveim vikum og upp í átta vikur. Algengast er að sjá vörturnar á handakrikum, handleggjum, fótleggjum og bol. Stundum á andliti og hálsi en getur verið hvar sem er á líkamanum nema í lófum og á iljum. Ef smitið er gegnum kynmök eru vörturnar á kynfærum, á innanverðum lærum og neðrihluta kviðar.

Flökkuvörtur er algengastar hjá börnum, þá aðallega yngri en 10 ára en sýking kemur fyrir í öllum aldurshópum. Flökkuvörtur eru hættulausar og hjaðna á nokkrum mánuðum án meðferðar og án þess að ör myndist á húðinni. Fyrir kemur að exem myndist í kringum vörtutnar og þær geta sýkst og þá verður roði í húðinni í kringum vörturnar sem annars er ekki.

Hvað er til ráða?

Leitið ráða hjá heilsugæslu. Læknir staðfestir sjúkdóminn með því að skoða húð sjúklingsins og taka sýni til að útiloka aðra sjúkdóma og ráðleggur svo hver besta meðferðin er.

Hver er meðferðin?

Það fer eftir umfangi sjúkdómsins hvaða leið er best að velja, en í flestum tilfellum gengur sjúkdómurinn yfir á nokkrum mánuðum.

Stórar flökkuvörtur og þær sem eru á svæðum þar sem þær valda sjúklingnum óþægindum er hægt að frysta af eða skafa af í staðdeyfingu. Slík meðferð getur valdið því að ör verða eftir á húðinni.

Hvernig er hægt að fyrirbyggja smit?

Með því að draga úr smiti:

  • Hreinar hendur
  • Ekki klóra í húðina
  • Látið föt þekja allar sýnilegar vörtur og notið plástra á önnur svæði
  • Henda strax notuðum plástrum eða bindum
  • Deilið ekki handklæðum eða leikföngum

Nokkur góð ráð:

  • sýnið þolinmæði, sjúkdómseinkennin ganga yfir á nokkrum mánuðum
  • þvoið ykkur reglulega eftir að hafa komist í snertingu við flökkuvörtur
  • forðist að nota handklæði sem komist hefur í snertingu við sýkta húð á ósýkt svæði
  • forðist að klóra í vörturnar það getur valdið enn frekari útbreiðslu þeirra
  • ef sjúklingur klórar í vörturnar geta bakteríur komist inn í húðina og valdið húðsýkingu – er þá mikilvægt að leita læknis.

Batahofur?

Flökkuvörtur eru góðkynja sjúkdómur sem gengur yfir án meðferðar. Algengt er þó að það taki 2-4 ár. Stundum hverfa bólurnar fyrr.

Heimildir: Húðlæknastöðin

Greinin birtist fyrst 15.nóvember 2015 en hefur verið uppfærð

Höfundur greinar