Frjóofnæmi

Frjóofnæmi er mjög algengt vandamál. Frjóofnæmi er algengara hjá börnum, en sjaldgæft fyrir 3ja ára aldur. Tíðnin vex fram á unglingsárin en minnkar eftir það. Sjaldgæft er að einstaklingar fái einkenni frjóofnæmis í fyrsta sinn eftir fertugt.

Efnisyfirlit

Vanlíðan í góðviðri

Hér á landi er ofnæmi fyrir grasfrjókornum lang algengast. Annað frjóofnæmi eins og fyrir birki og súru, er mun sjaldgæfara. Á ensku er orðið „hay fever“ oft notað yfir þetta ástand, oft ranglega þýtt sem „heymæði“. Til er sjúkdómur sem nefnist heymæði, en hann orsakast ekki af frjóofnæmi.

Frjókornatími

Frjókornatíminn hér á landi er mjög breytilegur frá ári til árs þar sem grös frjóvgast misfljótt. Einkenni birkiofnæmis koma fram í maí-júní. Grasfrjó byrja að berast út í loftið um miðjan júní, en einkenni geta þó komið fyrr, þá í tengslum við grasvinnu, t.d. við slátt. Grasfrjó ná hámarks þéttni í lofti í seinni hluta júlí og í fyrri hluta ágúst mánaðar. Á góðum, heitum og þurrum sumrum er mun meira af frjókornum í lofti en á rigningarsumrum.

Einkenni eru mismikil frá ári til árs og eru háð frjómagni í lofti. Umhverfið hefur mikið að segja og líkur á að fá frjóofnæmi fer eftir búsetu. Frjóofnæmi er t.d. ákaflega algengt þar sem mikið graslendi er eða veðursæld, s.s. í Eyjafjarðarsveit, í nágrenni Egilsstaða og við Selfoss. Frjóofnæmi er sjaldgæft í fjörðum þar sem lítið er um undirlendi og tún, t.d. í sjávarþorpum. Hér á landi eins og annars staðar er ofnæmi fyrir dýrum einnig algengt, en þá eru ofnæmiseinkennin ekki  árstíðabundin.

Hvað er frjóofnæmi?

Ofnæmi þýðir að ónæmiskerfi líkamans fer að mynda ofgnótt af sértækum ofnæmismótefnum (IgE) gegn próteinögnum. Til þess að næming eigi sér stað þurfa þessar próteinagnir að berast margsinnis í öndunarveginn. Dæmi um próteinagnir eru frjókorn grasa. Erfðir og uppbygging ónæmiskerfisins valda því að líkaminn myndar ofnæmismótefni gegn þessum ögnum og við endurtekið áreiti getur magn þessarra mótefna orðið mjög mikið.

Ofnæmismótefnin sitja á frumum (mastfrumum) sem eru fullar af boðefnum og eru í miklu magni undir slímhúðum og húð. Þegar frjókornin setjast á mótefnin losna boðefni í slímhúðum augna, nefs og lungna úr þessum frumum og valda breytingum sem einkenna ofnæmi. Yfirleitt þarf einstaklingur að vera útsettur fyrir frjókornum í a.m.k. 2-3 árstíðir áður en líkaminn myndar ofnæmismótefni í nægu magni til að gefa ofnæmiseinkenni. Börn yngri en 3ja ára greinast því mjög sjaldan með frjóofnæmi.

Einkenni

Nef og augu
Einkenni frjóofnæmis geta verið lík því sem gerist við venjulegt kvef, enda oft kallað frjókvef eða ofnæmiskvef. Sjúklingur fær áberandi nef- og augneinkenni. Augun roðna og bólgna stundum svo mikið að það er eins og slímhimnan verði að hlaupi. Þá er oft mikill kláði í augum, nefi og gómi, ásamt nefrennsli, hnerra og nefstíflu. Sjúklingar með ofnæmi nudda gjarnan nefið upp á við, svokölluð „ofnæmiskveðja“. Við það myndast oft skora þvert yfir nefbakið, „ofnæmisskora“. (Sjá myndir). Einkenni frá kinnholum, ennisholum og miðeyrum geta verið afleiðingar af langvarandi bólgum í nefholi.

Lungu
Frjóofnæmi getur valdið astmaeinkennum með hósta, jafnvel hvæsandi/surgandi útöndun og andþyngslum. Algengt er að sjúklingar með frjóofnæmi fái svokallaðan áreynsluastma, þ.e. astmi vegna áreynslu og þá sérstaklega við hlaup. Slíkra einkenna verður oft eingöngu vart á sumrin þegar frjókornin eru í loftinu.

Greining

Greining á ofnæmisvaldi er forsenda þess að hægt sé að ráðleggja rétta meðferð. Góð saga og líkamsskoðun gefa í flestum tilfellum greiningu frjóofnæmis, en einnig er hægt að gera húð- eða blóðpróf til staðfestingar.

Meðferð

Besta meðferðin er að forðast ofnæmisvakann. Í frjóofnæmi er það ekki valkostur, þar sem gras er yfirleitt í kringum híbýli manna. Grasmagn er mismikið og fara einkenni að einhverju leyti eftir búsetu. Barn sem er að leik í hávöxnu grasi fær frjókornin nánast beit upp í vitin og fær þá mikinn skammt af frjókornum á stuttum tíma. Úr nýslegnu grasi losna einnig mikið af frjókornum sem valda oft slæmum einkennum. Sjálfsagt er að forðast slíkar aðstæður eftir því sem kostur er á.

Lyfjameðferð

Þróun lyfjameðferðar við ofnæmi hefur fleytt fram á undanförnum árum og í flestum tilfellum er hægt að tryggja þokkalega líðan ef lyfin eru rétt notuð.

Lyf við frjókvefi. Einkenni frá augum og nefi eru meðhöndluð bæði með staðbundnum lyfjum og með lyfjum til inntöku.

Ofnæmislyf (antihistamín) til inntöku. Þessi lyf nefnast á erlendum málum „antihistamine“ og eru bæði til í fljótandi formi og sem töflur til inntöku. Þau draga úr kláða og hnerra og þurrka að einhverju leyti slímhúðirnar. Oft er hægt að taka þessi lyf eftir þörfum, en þegar einkenni eru mikil er nauðsynlegt að taka þau reglubundið. Ofnæmislyf geta valdið hjáverkunum, s.s. syfju, höfuðverk, óróa o.fl. Syfja er algeng aukaverkun eftir skammvirk ofnæmislyf. Nú eru til langvirk ofnæmislyf sem má taka einu sinni á dag og valda minni syfju.

Staðbundin lyf í augu. Við bráða einkennum í augum eru notaðir augndropar. Þeir eru notaðir eftir þörfum, en suma má einnig nota fyrirbyggjandi ef einkenni eru slæm. Séu lyf ekki við hendina getur hjálpað að skola augun úr saltvatni

Staðbundin lyf í nefhol. Nefstíflur og nefrennsli þarf oft að meðhöndla með staðbundnum lyfjum sem draga úr bjúg og bólgu í slímhúðinni. Algengast er að nota bólgueyðandi nefúða, s.s. steraúða. Hann er notaður daglega til að fyrirbyggja, en verkun stera byggist upp á nokkrum dögum.
Einnig eru til nefúðar sem hefta histamín í nefslímhúðinni og draga þannig úr kláða. Nefúðar sem draga saman æðarnar í slímhúðinni minnka nefstíflu á nokkrum mínútum, en geta við langvarandi notkun valdið bjúg og vítahring sem á ekkert skylt við ofnæmið.

Lyf við astma
Astmi af völdum frjóofnæmis er meðhöndlaður annars vegar með berkjuvíkkandi lyfjum við bráðaeinkennum og hins vegar með fyrirbyggjandi lyfjum sem eru notuð ef astmaeinkenni eru tíð eða viðvarandi. Stöðugt áreiti frjókorna í berkjum sjúklings með frjóofnæmi og astma getur valdið bólgu og viðvarandi einkennum sem þarfnast daglega lyfjaúða. Þá eru notaðir innúðasterar. Einkenni sem þegar eru til staðar eru meðhöndluð með berkjuvíkkandi lyfjum sem má taka á 3-4 klukkustundar fresti eftir þörfum. Einnig eru til langvinn berkjuvíkkandi úðalyf sem í sumum tilfellum eru gefin með innúðastera en stundum ein sér við áreynsluastma. Það er mikilvægt að sjúklingar með astma fái góðar leiðbeiningar um hvernig og hvenær á að taka lyfin. Þegar t.d. um áreynsluastma er að ræða þarf viðkomandi að taka skammvirk berkjuvíkkandi lyf 15-20 mínútum fyrir áreynslu til að koma í veg fyrir einkenni. Góð upphitun fyrir áreynslu er mjög mikilvæg.

Afnæming (ofnæmissprautur)

Þegar lyf duga ekki til að slá á ofnæmiseinkennin er hægt að framkvæma svokallaða afnæmingu (ofnæmissprautur). Meðferðin byggist á því að sprauta viðkomandi ofnæmisvaka, í þessu tilfelli próteinum úr frjókornum, undir húð á sjúklingnum. Nú er einnig til samskonar mðeferð í töfluformi. Þessi meðferð tekur yfirleitt um 4 ár og er einungis gefin hafi rétt lyfjameðferð brugðist í 2-3 ár.

Sjúkdómsgangur og batahorfur

Gangur frjóofnæmis er mjög misjafn. Vægt frjóofnæmi getur horfið af sjálfu sér, en sé það slæmt er líklegra að það verði viðvarandi vandamál. Einkennin versna oft í fyrstu og eru oft verri hjá börnum en fullorðnum, þar sem börn eru útsettari fyrir frjókornum.

Það fer líka eftir búsetu fólks hversu slæm einkenni eru. Í nágrannalöndum okkar og N-Ameríku er grasfrjókornatíminn í miklu fastari skorðum en hér á landi. Þar byrjar hann yfirleitt í enda maí, nær hámarki um mánaðarmótin júní-júlí og endar fyrir lok júlí á sama tíma og hann er í hámarki hér á landi. Fólk með frjóofnæmi verður að læra að aðlaga sig þessu vandamáli og hafa þetta í huga þegar það ráðgerir ferðir til útlanda.

Eins og fram kemur er frjóofnæmi yfirleitt nokkuð saklaus sjúkdómur sem getur valdið óbærilegri vanlíðan hjá sjúklingnum. Sagt hefur verið um frjóofnæmi að það sé ekki talið vandamál fyrr en menn þjáist af því sjálfir! Með réttri greiningu og meðferð er þó yfirleitt hægt að gera þessum einstaklingum mögulegt að njóta sumarsins þegar vel viðrar.

Grein þessi er unnin upp úr bæklingi sem gefin var út í samvinnu Astma og ofnæmisamtakanna og  GlaxoSmithKleine. Hægt er að lesa bæklinginn í heild sinni á heimasíðu Astma og ofnæmissamtakanna

 

Höfundur greinar