Glímir þú við reiðivanda og hvað er til ráða?

Efnisyfirlit

Hvað er reiði?

Reiði er tilfinning alveg líkt og gleði og sorg og er svar okkar þegar okkur finnst okkur vera ógnað, við upplifum óréttlæti eða eins og sé brotið á okkar rétti. Þegar við verðum reið, verða ákveðnar breytingar í líkamanum til að mæta hættunni (árásar-eða-flótta viðbragðið): vöðvarnir spennast upp, hjartað slær hraðar, við öndum hraðar o.s.frv., við gætum hugsað um það sem gerir okkur reið og í kjölfarið brugðist við því með ákveðinni hegðun.

Jóna var búin að biðja Lísu, dóttur sína að taka til í herberginu sínu í allan dag og Lísa hélt bara áfram að segjast ætla að gera það eftir fimm mínútur eða bara aðeins seinna. Síðar um kvöldið kom Jóna að dóttur sinni sitjandi á gólfinu inn í herberginu sínu að leika sér með dúkkur. Herbergið var ennþá óþrifið. Hún sá dóttur sína líkt og hún væri vísvitandi að ögra henni segjandi „Hvað ætlar þú að gera í þessu?“

Jóna var búin að vera stressuð allan daginn fyrir yfirvofandi verkfalli í vinnunni. Þegar hún sá dóttur sína sitjandi á gólfinu, missti hún allt skopskyn, hún fann hvernig hnefarnir læstust og röddin varð hærri. Þessar breytingar gerðust á einni eða tveimur mínútum. Hún hugsaði „Hún er viljandi að ergja mig, krakkinn er algjörlega gagnslaus, hún ber enga virðingu fyrir mér“. Hún hrópaði og öskraði á dóttur sína í um 10 mínútur. Síðar meir þreif dóttirin herbergið.

Reiði er þó hvorki góð né slæm, heldur skiptir máli hvernig þú bregst við, hvernig þú tjáir reiðina. Reiði getur því haft í för með sér óæskilegar aukaverkanir og getur leitt af sér sambandserfiðleika, heilsufarsvanda, verri frammistöðu í vinnu og erfiðleika með yfirvald.

Merki um reiði

Þegar þú verður reið/ur þá gætir þú fundið fyrir einhverju af eftirtöldu:

  • Vöðvarnir spennast upp (kjálkar, hnefar, axlir)
  • Öndunin verður hraðari
  • Hnútur í maganum
  • Sjáöldur stækka til að hleypa meira ljósi inn
  • Svitamyndun
  • Erfiðleikar við að hugsa skýrt
  • Óraunveruleikakennd
  • Finnast maður vera spenntur
  • Finnast ekkert fyndið lengur
  • Röddin hækkar
  • Að hugsa annarri manneskju þegjandi þörfina
  • Sjá rautt

Hvernig bregðumst við, við reiði?

Hvernig við bregðumst við eða tjáum reiði er ekki alltaf sýnilegt en það þýðir þó ekki að reiðin sé ekki til staðar.

Nokkur dæmi um birtingarmyndir reiði:

  • Við lemjum eða sláum frá okkur
  • Öskrum á aðra
  • Hendum hlutum / eyðileggjum hluti
  • Kreppum hnefa
  • Bölvum og blótum
  • Köllum fólk öllum illum nöfnum
  • Þegjum og hunsum fólk eða erum köld við annað fólk
  • Sköðum okkur sjálf
  • Löbbum um
  • Festumst í hugsunum um það sem gerði okkur reið

Hvenær verður reiði vandamál?

 

Fólk er með misjafnar skoðanir á því hvenær reiði verður vandamál. Einföld leið til að hugsa um það hvort að reiði sé vandamál fyrir þig er að meta hvort gallarnir séu fleiri en kostirnir við þá leið sem að þú tjáir reiði.

Önnur leið til þess að líta á það er að taka eftir því hvort að aðrir segja að þú eigir við reiði vanda að stríða. Stundum setja makar eða jafnvel yfirmenn okkur ákveðin skilyrði. Til dæmis gætir þú hafa heyrt „þú þarft að vinna í skapinu þínu eða þetta er búið milli okkar“ eða „þú þarft að ná stjórn á reiðinni ef þú vilt fá að sjá krakkana aftur“ eða „ef þú nærð ekki að hafa stjórn á þér þá þarf ég því miður að láta þig fara (reka þig)“.

Reiði getur líka verið vandamal ef reiðin nær ekki fram því sem þú vilt að hún geri. T.d. ef þú verður reið/ur til þess að fólk hlusti á þig, þá er það vandamál ef fólk labbar bara í burtu þegar þú verður reið/ur. Að lokum getur reiði orðið að vandamáli ef hún varir of lengi, er of mikil eða leiðir jafnvel af sér ofbeldi.

Hvað er til ráða?

Við förum sjaldnast frá því að vera pollróleg yfir í að vera öskureið á núll-einni.

Yfirleitt förum við í gegnum nokkur þrep áður en við verðum sótill, þrátt fyrir að í hita leiksins virðist oft eins og ýtt sé á takka.

Það má líkja reiði við eldgos. Fyrst má taka eftir smá jarðhræringum á svæðinu (stig 1), sem aukast smátt og smátt. Lítill reykjarstrókur byrjar að liðast upp í skýjahvolfið (stig 2), jarðhræringarnar aukast (stig 3) og steinvölur og litlir steinar byrja að rúlla niður fjallið (stig 4). Strókurinn stækkar smá saman (stig 6), eldfjallið nötrar allt saman (stig 7) og stórgrýti rúllar niður fjallið (stig 8) og að lokum spúir fjallið út reykjarmökki, ösku og hraunkviku sem flæðir yfir allt sem í vegi þess verður (stig 9 og 10).

Eitt af lykilatriðum árangursríkrar reiðistjórnunar er að átta sig á reiðimerkjunum sínum og grípa inn í áður en þú ert orðin of reið/ur.

Spurðu sjálfa/n þig að því:

  • Hvað gerir þig reiða/n?
  • Hver eru reiðimerkin þín?
  • Hvaða merki segja þér að þú sért við það að missa stjórn á reiðinni?
  • Hvað virkar til að róa þig niður?

Stutt ráð

  1. Reyndu alltaf að segja: „Ég gerði sjálfa/n mig reiða/n“
  2. Lærðu að vita hvað er hægt að líta framhjá
  3. Áttaðu þig á því að fólk er ekki á móti þér, þau eru einfaldlega með sér
  4. Lækkaðu röddina
  5. Berðu kennsl á sársaukann eða óttann sem kemur á undan reiði
  6. Berðu kennsl á að hegðun annarra segir meira um þau og þeirra sársauka en það segir um þig
  7. Spurðu sjálfa/n þig hvort að reiðin þín sé að hjálpa þér við að leysa vandamál
  8. Forðastu að halda „skor“ (d. í samskiptum við maka)
  9. Lærðu að forðast veika bletti annarra
  10. Spurðu sjálfa/n þig hversu mikilvægt þetta verður eftir viku
  11. Forðastu að reyna að lesa hugsanir
  12. Lærðu að vera ósammála
  13. Æfðu þig í staðhæfingum til að takast á við reiði
  14. Svaraðu í stað þess að bregðast við

upplýsingar um reiðistjórnunarnámskeið getur þú nálgast hér

Höfundur greinar