Góð ráð við hálsbólgu

Haustið er að skella á okkur með öllum sínum kostum og göllum. Gróðurinn skartar haustlitunum og tími kertaljósa og kósýheita er að renna upp. En haustinu fylgja gjarnan kvef og víruspestir með tilheyrandi hálsbólgu. Til eru ýmis ráð sem hægt er að grípa í til þess að bæta líðan og um að gera að prufa sig áfram og skoða hvað virkar best fyrir hvern og einn.

  • Bólgueyðandi lyf. Vírusar valda gjarnan bólgum og þeim fylgja verkir. Með því að nota bólgueyðandi lyf er hægt að draga úr þessum einkennum og bæta líðan.
  • Háls. Að skola hálsinn reglulega með volgri saltvatnslausn getur dregið úr bólgum, losað um slim og hjálpað þannig til við að skola út ertandi efnum, vírusum og bakteríum.
  • Hóstamixtúra, spray eða hálstöflur. Hálsbólgu fylgir gjarnan kláði eða erting sem erfitt getur verið að eiga við. Hálsspray, hóstamixturur eða hálsmolar hafa mýkjandi áhrif og geta þannig dregið úr þessum einkennum
  • Drekka vel af vatni. Einfallt ráð en afar árangursríkt. Með því að drekka nægan vökva þornar hálsinn síður og ertingin verður minni. Vökvinn þynnir líka slímið svo það verður auðveldara að losa sig við það.
  • Te. Vatnið getur orðið leiðigjarnt til lengdar og þá getur heitur bolli af jurtate verið góður kostur. Te er líka talið innihalda afoxunarefni sem margir telja að efli ónæmiskerfið
  • Tær súpa. Kjúklinga eða núðlusúpa inniheldur venjulega sölt og önnur næringarefni sem eru okkur nauðsynleg fyrir bata. Um leið getur saltið í súpunni haft bólgueyðandi áhrif.
  • Sykurpúðar! Já sykurpúðar. Sykurpúðar eru upprunnir úr plöntu og laufin og rætur plöntunnar hafa í aldanna rás verið notaðar við meðhöndlun á hálsbólgu og hósta. Nútíma útgáfan af sælgætinu inniheldur gelatín sem hjúpar og róar hálsinn svo það ætti að vera í lagi að leyfa sér einn og einn munnbita og sjá hvort það hjálpar
  • Hvíld. Næg hvíld þar sem líkaminn fær tækifæri til þess að hlaða sig og uppfæra varnir ónæmiskerfisins er aldrei ofmetin.
  • Hunang. Teskeið af hunangi getur myndað hjúp í hálsinum og róar bólgur og ertingu auk þess sem vísbendingar eru til um að hunang búi yfir sóttverjandi eiginleikum.
  • Frostpinnar. Kuldinn dregur úr bólgum og þar með talið ertingu. Til eru alls konar uppskriftir af heilsusamlegum frostpinnum sem auðvelt er að útbúa og eiga tilbúna í frystinum. Þá slær maður tvær flugur í einu höggi, líkaminn fær holla næringu sem hjálpar honum að berast gegn sýkingum og verkjastilling með betri líðan.

Höfundur greinar