Hamfarir að bresta á!

Umræðan sem á sér stað núna í fjölmiðlum landsins er að Íslendingar læri að búa sig undir hamfarir og hefur Rauði Krossinn auglýst þetta verkefni sem „3 dagar“ og vill með því undirstrika  mikilvægi þess að einstaklingar og fjölskyldur geti verið sjálfum sér nægar í þrjá daga, s.s. í mat og öðru, ef hamfarir ríði yfir, s.s. vegir lokast, rafmagn fari af og svo framvegis. Lífið er núna er slagorð sem hefur borist okkur til eyrna frá Krabbameinsfélaginu og svo sannarlega gott slagorð. Höfum það í huga og munum að njóta lífsins sem best. Mikilvægt er þó fyrir lífið og gæði þess að undirbúa okkur líkamlega og andlega fyrir komandi ár. Það er góð upplifun að finna það að lífið er núna og jafnframt ennþá betri upplifun að undirbúa komandi ár með góðum lífsstíl.

Efnisyfirlit

Að undirbúa okkur fyrir framtíðina

Þessi ógn sem ég er að impra á er lífsstílsvandamál sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir okkur hér á klakanum. Þegar ég las um þessa snilldar auglýsingaherferð Rauða Krossins, opnaðist þessi löngun að benda á mikilvægi þess að taka ábyrgð á öllum þáttum lífssins. Ábyrgð til að auðga lífið og bæta góðu lífi við árin. Það skiptir máli hvernig lífi við lifum, ekki bara að stæra okkur af því að við verðum með elsta fólki í heimi.

Staðreyndir

Lífsstílsvandamál hafa alvarlegar afleiðingar á Íslandi og á heimsvísu með auknum líkum á langvinnum sjúkdómum. Með langvinnum sjúkdómum er átt við hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki af tegund 2, offitu, lungnasjúkdóma, beinþynningu, Alzheimer og sumar tegundir  krabbameins. Þessir sjúkdómar eru tengdir við heilsuhegðun einstaklinga s.s. mataræði, hreyfingarleysi, áfengis- og tóbakneyslu.

50 ára lífsgæði

Öll árin skipta máli en heilsufarslega fer lífsstíllinn að segja til sín eftir 40 ára aldur. Ef hann er ekki góður þá aukast líkur á að við fáum lífsstílstengda sjúkdóma sem taldir eru upp hér að ofan. Ef við erum um 45-55 ára í dag þá getum við sagt að það sé hálfleikur, þá er gott að skoða heilsuhegðunina vel og endurskipuleggja næsta leik. Hvernig við gerum það er undir okkur sjálfum komið. Hvað næringu snertir þá er góðar ráðleggingar að finna hjá embætti Landlæknis gætu þær hjálpað okkur að bæta matartengda hegðun.  Þessar ráðleggingar eru:

  • Drekkum vatn sem svalardrykk
  • Borðum 5 skammta af grænmeti og ávöxtum á dag
  • Fiskur 2x í viku og feitur fiskur 1x í viku
  • Ekki meira en 500 grömm af rauðu kjöti
  • Trefjaríkar korntegundir
  • D vítamín
  • Minna af salti
  • Minna af (eða sleppa) sætindum.

Ráðleggingar sem tengjast hreyfingu eru  eftirfarandi:

Hreyfum okkur 30 mínútur á dag þannig að hjartað fái aðeins að pústa. Það virkar þannig að ef við erum á göngu þá þurfum við að vera móð (ekki samt lafmóð).

Verum skynsöm þegar við breytum um lífsstíl eða bætum góðum vana við daglegt líf okkar. Á Íslandi er hægt að leita sér aðstoðar til að auka möguleikana á að eldast vel og þar með minnka líkur á að fá lífsstílstengda sjúkdóma. Aldur hefur áhrif á heilbrigði og aukast líkur á heilsuleysi með aldrinum. Eftir 65 ára aldur fjölgar tilfellum þar sem fólk þarf að leita til heilbrigðisstofnana, kostnaður vegna heilbrigðisþjónusta margfaldast og ef þessi þróun heldur áfram mun hagkerfið okkar sligast. Við getum gert betur hér á Íslandi. Hver og einn einstaklingur þarf að taka ábyrgð. Þetta á ekki að snúast allt um útlit og kjörþyngd heldur fyrirbyggja sjúkdóma með skynsemi og aðgerðaáætlunum sem hljómar eins og gott plan.

Það er bara svo erfitt

Jebb, veit það vel, en þess virði. Mig langar að segja eitt sem ráðgjafi, það að breyta vana og heilsuhegðun er illmögulegt fyrir flesta og mörgum reynist það erfitt. Nú finnst mér eins og ég sé að segja að það sé ekki sjéns að geta bætt líf sitt. Jú, jú og enn eitt jú, það er hægt, með vilja, þekkingu og ráðgjöf er allt hægt.  Þar koma góðir ráðgjafar til sögunnar með góðri fagmennsku og kunnáttu í heilsuhegðun. Þættir eins og  heilsulæsi skiptir máli en það er að geta lesið og skilið upplýsingar sem berast okkur um t.d. mataræði og af hverju við ættum að fylgja ráðleggingum. Oft geta þessar upplýsngar virkað flóknar og óyfirstíganlegar og ná ekki inn í daglegt plan og markmið einstaklinga. Leitum ráða og finnum lausnir. Að fá sjúkdóma af því bara, er ekki ásættanlegt og við sem vinnum við heilbrigðisgeirann ættum að gera betur með aðgengilegum upplýsingum.

Lífið er núna og um ókomna tíð

Tökum ábyrgð saman og fyrirbyggjum skert lífsgæði með því að sporna við sjúkdómum með því að gera allt sem í okkar valdi stendur að lifa vel, við getum byrjað á okkur sjálfum. Borðum holla fæðu og hreyfum okkur á hverjum degi. Gott ráð – eitt markmið í einu. Gerum svo aðeins meira og betur. Þetta er okkar líf og við þurfum að lifa því með ábyrgð og með bættum lífsgæðum, þá ætti það að verða nokkuð gott og allir græða.

 

 

 

Höfundur greinar