Handþvottur

Flestir gera sér grein fyrir mikilvægi þess að þvo sér vel um hendurnar en samt sem áður er handþvotti oft ábótant. Rannsóknir hafa sýnt að með því að þvo sér vel og reglulega um hendurnar er hægt að draga verulega úr líkum á smiti og þannig minnka líkur á að veikjast sjálfur. Rannsóknir hafa líka sýnt það tekur ekki nema 30 mínútur fyrir sýkla  að dreifast frá símtóli  og hurðahúnum yfir á lyklaborð, penna, hendur og andlit fólks. Þetta gerist þegar fólk snertir sýkt svæði ( eins og hurðahún) og bera sýklana  með sér á höndunum áfram á næsta hlut sem þeir snerta.  Með handþvotti er hægt að rjúfa þessa smitleið og þess vegna  er handþvottur viðurkenndur sem mikilvægasta sýkingarvörnin sem hægt er að viðhafa. Þeir staðir þar sem mestar líkur eru að mikið sé af sýklum  eru staðir sem margir snerta eins og:

  • Afgreiðsluborð
  • Lyftuhnappar og handrið í rúllustigum
  • Handföng á innkaupakerrum
  • Leiksvæði barna ( inni)
  • Líkamsræktartæki
  • Posar

og margir fleiri…

Hvernig á að þvo hendur:

Bleyta þær fyrst með volgu vatni   Sápa vel í 10-15 sekúndur og muna að hreinsa vel milli fingra og undir nöglum. Þumalfingur og handarbök verða gjarnan útundan Skola sápuna vel af með volgu vatni og þurrka vel.

Ítarlegar leiðbeiningar er hægt að sjá á síðu Landlæknis

Mælt er með því að nota bréfþurrkur eða blásara til að þurrka hendur á almenningsalernum. Gott er að nota bréfþurrkuna til að skrúfa fyrir kranann til að hendurnar mengist ekki  á ný. Æskilegast er að hver heimilismaður hafi sér handklæði til þess að þurrka hendur. Ef það er ekki  mögulegt þarf að gæta vel að því að skipta reglulega um sameiginleg handklæði, sérstaklega ef það er orðið rakt.

Munum svo að við erum fyrirmyndir barnanna okkar og það þarf að kenna þeim að þvo sér um hendur líka.

Greinin birtist fyrst 21.mars 2019 en hefur verið uppfærð

Höfundur greinar