Tíminn líður, enn er kominn desember og því styttist óneytanlega í jólin. Margir eru eflaust farnir að huga að jólamatnum og sumir jafnvel komnir með vatn í munninn yfir öllum kræsingunum sem ætlunin er að borða um hátíðarnar. Þar sem jólahátíðin, og í raun allur desembermánuður hjá sumum, er mikil matarhátíð er miklvægt fyrir okkur að huga að því hvernig við getum gert jólahátíðina og matinn sem henni fylgir heilsusamlegri.
Ef litið er á hátíðamatinn þá er vel hægt að gera smáar breytingar á matreiðslu í átt til hollustu án þess að það þurfi að hafa mikil áhrif á bragð matarins, enda er flestum mikilvægt að jólasteikin bragðist eins og jólasteik. Þættir eins og að nota fituminni rjóma í sósuna og sýrðan rjóma í staðinn fyrir majones í salatið geta gert jólamatinn aðeins léttari og getur haft nokkuð að segja þegar litið er á að flestir borða nokkrar jólamáltíðir yfir hátíðarnar.
Meðlætið er einnig mikilvægt, borðum vel af grænmeti með matnum, rauðkál, salat og kartöflur er eitthvað sem flestir bjóða upp á með jólasteikinni og er um að gera að borða meira af því og jafnvel þá minna af steikinni og sósunni. Svo er auðvelt að bjóða upp á girnilega ávexti í eftirrétt eða a.m.k. með eftirréttinum.
Vatn með reykta matnum
Við skulum heldur ekki gleyma því að vatn er ágætis drykkur með matnum um jól eins og aðra dag, allavega er allt í lagi að hafa vatnsglas til hliðar við aðra drykki. Þetta á ekki síst við þegar við erum að borða saltan og reyktan mat sem mörg okkar borða talsvert af um hátíðarnar. Eins og flestir vita þá er slíkur matur ekki sá hollasti sem við veljum okkur og því um að gera að neita slíks matar í hófi jafnt um hátíðarnar sem og í annan tíma.
Það er svo um að gera að borða hægt, njóta matarins og hætta að borða þegar líkaminn er búinn að fá nóg.
Léttur matur milli veisluhalda
Fyrir utan það að reyna að borða hollara þegar við setjumst niður við jólamatinn, heima hjá okkur eða þeim jólaboðum sem flest okkar fara í, er ýmislegt fleira sem við getum gert til að huga að heilsunni um hátíðarnar. Þetta eru þættir eins og að gleyma ekki morgunmatnum, borða léttari mat dagana á milli veisluhalda og baka hæfilegt magn af smákökum og borða þær í hófi. Einnig er um að gera að velja ávexti fram yfir sætindi í millibita þar sem ávextirnir eru margir hverjir einstaklega góðir á þessum tíma, hver kannast ekki við girnilegu jólaeplin og mandarínurnar, sem margir nota sem borðskraut um hátíðarnar og eru ekki síður góð til að borða.
Svo er auðvita að nota tíman sem gefst til að hreyfa sig, fara út að ganga, í líkamsrækt eða út að leika með börnunum.
Höfundur greinar
Ragnheiður Ásta Guðnadóttir, næringarfræðingur
Allar færslur höfundar