Heilsufarsmælingar- hvers vegna og fyrir hvern?

Efnisyfirlit

Inngangur

Einkenni þess að blóðþrýstingur, kólesteról eða blóðsykur eru ekki að mælast eðlileg eru oft lítil eða engin og getur því langur tími liðið þar til það uppgötvast nema með markvissu eftirliti og skimun. Þess vegna ættu sem flestir að láta mæla þessa áhættuþætti með reglulegu millibili og að minnsta kosti árlega eftir því sem árunum fjölgar. í rannsókn sem Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og doktor í heilbrigðisvísindum og Kristinn Tómasson dr. med. geð- og embættislæknir og yfirlæknir hjá Vinnueftirliti ríkisins gerðu komust þau meðal annars að þeirri niðurstöðu að atvinnurekendur ættu að vera vakandi fyrir því að hvetja starfsmenn sína til heilsusamlegra lífshátta og skapa þeim aðstæður til þess á vinnustað.

Heilsuvernd er fyrirtæki sem hefur sinnt þessum mælingum fyrir atvinnurekendur undanfarin ár með góðum árangri. Hjúkrunarfræðingar Heilsuverndar koma á vinnustaði og bjóða starfsmönnum upp á stutt heilsufarsviðtal, mælingar heilsufarsþátta og veita viðeigandi ráðgjöf og tilvísun út frá niðurstöðum. Sérstök áhersla er lögð á lífsstílstengda áhættuþætti. Hár blóðþrýstingur, kólesteról og blóðsykur ásamt offitu eru með stærstu áhættuþáttum heilbrigðis á okkar tímum. Þeir tengjast  sterklega lífsstíl okkar – mataræði, hreyfingu og athöfnum.

Blóðþrýstingur

Blóðþrýstingur er sá þrýstingur sem myndast við að hjartað dæli blóði út í blóðrásina. Blóðþrýstingur er skráður með tveimur gildum: efri mörkum (slagbilsþrýsting) sem mælist þegar hjartað dregst saman og dælir blóði út í æðarnar og neðri mörkum (hlébilsþrýsting) sem mælist þegar hjartað slakar á og fyllist af blóði að nýju. Æskileg mörk blóðþrýstings eru innan  við 140/90 mmHg. Athuga ber að fleiri en eina mælingu þarf til að greina háþrýsting hjá einstaklingum, því blóðþrýstingur getur verið aðstæðubundinn, verið breytilegur frá degi til dags og á mismunandi tímum dagsins. Langvarandi háþrýstingur hefur skaðleg áhrif á hjarta- og æðakerfi.

Líkamsþyngdarstuðull

Líkamsþyngdarstuðull – BMI er kvarði sem notaður er til að meta heilsufarsáhættu út frá hlutfalli hæðar og þyngdar (kg/ m2 ). Hann miðast við fullorðna einstaklinga og gerir ekki greinarmun á konum og körlum. Kjörþyngd miðast við BMI 18.5-25, yfirþyngd 25-30, offita 30-40 og mikil offita yfir 40. Ef BMI er undir 18.5 telst það vannæring. Offita er verulegur áhættuþáttur margra sjúkdóma, s.s. hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki,  krabbameina, svefntruflana og stoðkerfissjúkdóma.

Kólesteról

Kólesteról er ein tegund blóðfitu og gegnir mikilvægu hlutverki í frumum líkamans. Það myndast í lifrinni en við fáum það jafnframt í fæðunni. Talað er um “góða” kólesterólið og “vonda” kólesterólið eftir því hvort það er bundið eðlisþungu (HDL) eða eðlisléttu  (LDL) fitupróteini. Venjulega er heildarmagn kólesteróls mælt í blóði ásamt því hlutfalli sem bundið er HDL. Viðmiðunargildi heildarkólesteróls í blóði eru eftirfarandi: mjög hátt > 8; hátt 6-8; æskilegt < 6 mmól/l (<5 ef æðaþrengsli/-kölkun er til staðar).  Heilsusamlegt mataræði og lítil neysla á harðri fitu ásamt reglulegri hreyfingu hafa jákvæð áhrif á kólesteról.

Blóðsykur

Til þess að sykur nýtist til brennslu í líkamanum þarf tilkomu insúlíns, en það er efni sem framleitt er í briskirtlinum. Við s.k. “fullorðinssykursýki” (tegund 2; insúlínóháð sykursýki) nýtist ekki insúlínið sem skyldi og of mikill sykur verður í blóðinu. Ef blóðsykurhækkun er langvarandi veldur hún m.a. skemmdum á æðum og taugum t.d. í nýrum, hjarta, augum og víðar. Sykurmagn í blóði er mismikið m.a. eftir því hve langt er liðið frá síðustu máltíð, en viðmiðunargildi  fastandi blóðsykurs er < 6.1 mmol/l. Offita eykur verulega áhættu á þessari tegund  sykursýki.

Heilsufarsskoðun

Mörg fyrirtæki hafa tekið upp þann góða sið að bjóða starfsmönnum upp á slíkar mælingar og er það vel. Það er svo undir okkur sjálfum komið að bregðast við og koma í veg fyrir að við verðum fyrir heilsutjóni sem hægt er að koma í veg fyrir með því að huga að mataræði, hreyfingu og að sjálfsögðu að forðast reykingar.

 

Höfundur greinar