Höfuðlús

Nú á dögum fer lúsin ekki í manngreiningarálit og geta allir smitast. Á hverju ári koma upp lúsafaraldrar í hinum ýmsu skólum landsins. Það er afar mikilvægt að skólayfirvöld séu látin vita strax ef lús finnst í skólabarni því mikilvægt er að uppræta smit sem fyrst. Til þess að það sé hægt þarf að finna og lækna alla sem hafa smitast, í fjölskyldunni, skólanum og á vinnustaðnum. Höfuðlúsin smitast aðallega við það að höfuð snertast nógu lengi til þess að lúsin komist á milli, skipst er á höfuðfötum, hárburstum, koddum eða öðru slíku, en hafa skal í huga að lús getur lifað utan líkamans í allt að 20 klukkustundir, hún verður þó fljótt veikburða.

Höfuðlúsin er örlítið en þó sjáanlegt skordýr, 2-4mm að stærð og yfirleitt gráleit. Það getur verið erfitt að koma auga á lúsina þar sem hún er oft samlit hörundinu, snör í snúningum og forðast ljós. Þegar lýsnar eru fullvaxnar um 8 – 10 daga gamlar verpa þær eggjum sem kallast nit, en nitin líma sig föst við hárið niðri við hársvörðinn. Nitin sést oft betur en lúsin sjálf er um 1mm að stærð, finnst helst í hnakka, hnakkagróf eða bak við eyru. Hún sést þá sem silfraður hnúður á hárinu.
Höfuðlúsin heldur sig gjarnan í hárinu aftan við eyrun og í hnakkanum. Einkennin eru kláði sem kemur eftir að lúsin hefur sogið blóð. Þegar lúsin sýgur notar hún deyfiefni sem gerir það að verkum að ekkert finnst, óþægindin koma síðar. Það eru þó alls ekki allir sem finna fyrir kláða af völdum lúsarinnar, talið að einungis einn af hverjum þremur finni kláða og kláðinn komi fyrst og fremst vegna ofnæmis. Þess vegna getur lúsin oft leynst í höfðinu í langan tíma án þess að nokkurn gruni neitt.

Meðferðin er ekki alltaf einföld, sérstaklega ef ekki er nægjanlega vandað til hennar í upphafi og oft þarf að meðhöndla aðra í fjölskyldunni eða nánasta umhverfi þess smitaða. Það er ekki nóg að hella lúsameðali í hárið og halda að þar með sé vandinn úr sögunni. Meðalið þarf að nota samkvæmt meðfylgjandi leiðbeiningum og mikilvægt er að fylgja þeim í hvívetna. Að því loknu þarf að kemba hárið með lúsakambi annanhvern dag í viku til 10 daga.10 Þá fyrst kemur í ljós hvort enn eru lifandi lýs í hárinu og eitthvað af niti er hægt að fjarlægja á þennan hátt. Venjulega er rétt að endurtaka meðferðina með lúsameðali viku til 10 dögum síðar, en það er sá tími sem það tekur eggin að klekjast út. Meðferðin með Aromaclear er þó öðruvísi.

Hér á landi eru á markaði þrjár tegundir lúsameðala sem innihalda ólík efni sem einnig eru notuð við garðaúðun til að drepa blaðlús og trjámaðk. Flest þessi lúsameðul (utan aromaclear) geta valdið húðertingu og fleiri aukaverkunum og varast þarf að þau berist í augu, nef eða munn.

Quellada (inniheldur virka efnið lindan) er elsta lyfið, sterkt skordýraeitur og eru margir á móti notkun þessa efnis vegna umhverfismengunar sem það veldur auk þess sem það getur haft slæmar aukaverkanir. Prioderm (inniheldur malatíon) er það lúsameðal sem af mörgum er talið einna öruggast, hjá börnum getur það valdið vægri ógleði og höfuðverk og það er ekki heppilegt fyrir smábörn eða ófrískar konur. Nix (inniheldur permetrín) er nýjasta lúsameðalið, það hefur ágæta verkun, er tiltölulega hættulaust fyrir smábörn og sennilega einnig á meðgöngu.

Að lokum er svo á markaðnum náttúrulegt efni Aromaclear.

Öll þessi lúsameðul má fá í apóteki án lyfseðils.

Jórunn Frímannsdóttir
Hjúkrunarfræðingur
Ritstjóri www.Doktor.is

Höfundur greinar