Hóstarkirtill

Hóstarkirtill eða týmus (e. thymus) eins og hann er einnig kallaður, tilheyrir ónæmiskerfi líkamans. Hóstarkirtill er í raun ekki réttnefni þar sem hann er ekki kirtill heldur bleikgráleitt, tvíblaða líffæri úr eitil- og þekjuvef og verður því heitið týmus notað í þessum texta.

Týmusinn er að hluta til staðsettur í brjóstholinu og að hluta neðst í hálsinum í dæld sem kallast hóst (þar af leiðandi nafnið hóstarkirtill). Hann nær frá fjórða millirifjabrjóski og teygir sig upp að neðri mörkum skjaldkirtils. Neðri hluti hans hvílir á gollurshúsi hjartans og er afmarkaður frá ósæðarboga og öðrum stórum æðum með fellilagi.

Týmusinn er líffæri sem gegnir tímabundnu hlutverki. Ef hann er fjarlægður úr fullorðnum spendýrum hefur það lítil sem engin áhrif. Ef hann er aftur á móti fjarlægður við fæðingu verða afleiðingarnar afdrifaríkar því án týmuss hrynur ónæmiskerfi nýbura og hann deyr.

Týmusinn nær hámarksstærð á unglingsárunum, en þá hættir hann að vaxa, hrörnar síðan smám saman og er að mestu horfinn á efri árum. Við fæðingu vegur hann um 15 grömm en er orðinn um 35 grömm við kynþroska. Hann hefur hrörnað í 25 grömm við 25 ára aldur, er orðinn léttari en 15 grömm við sextugt og aðeins um 6 grömm við sjötugt.

Týmus þroskast úr innlagi fósturs. Á meðan á þroskun hans stendur flytjast margar frumur til hans, þó aðallega eitilfrumur. Týmus skiptist í tvö afmörkuð hólf – börk að utan og merg að innan. Bæði hólfin innihalda mikið af eitilfrumum sem kallast týmusfrumur (e. thymocytes) á meðan þær eru staðsettar þar. Flestar frumur barkarins eru óþroskaðar og geta ekki sinnt ónæmisstörfum. Í mergnum er aftur á móti meira af þroskuðum, ónæmishæfum frumum.

Í týmusnum þroskast óþroskaðar T-frumur í ónæmishæfar T-frumur og er það megin hlutverk hans. Þetta ferli hefst á myndun forvera T-frumna (e. pre-T cells) í blóðmerg beina og flutningi þeirra þaðan með blóði til týmuss þar sem þær eru teknar inn í börkinn. Þar fara fram miklar breytingar á sameindum frumnanna sem gerir þeim kleift að greina og þekkja tiltekna vaka (e.antigens). Sumar frumurnar greina efni sem tilheyra líkamanum sjálfum, svokallaða sjálfsvaka, en þær eru flokkaðar frá (neikvætt val). Þær frumur sem ekki standast flokkun deyja en þær sem valdar eru lifa og berast í merg týmussins. Þær enda síðan að lokum í blóðinu þar sem þær mynda svokallað frumubundið ónæmi líkamans.

Þessi grein birtist á Vísindavefnum www.visindavefur.hi.is

 

Höfundur greinar