Það er margsannað og flestum ljóst að við þurfum að hreyfa okkur með reglubundnum hætti til þess að draga úr líkum á því að fá ýmsa langvinna sjúkdóma en ekki síður til þess að auka andlegan og líkamlegan styrk til þess að takast á við dagleg verkefni heima og að heiman. Þrátt fyrir það hefur ýmislegt stuðlað að því að við hreyfum okkur sífellt minna í daglegu lífi. Þar má telja til sökudólga eins og bílinn, sjónvarpið, tölvuna og símann en líka er um að ræða ýmsar tæknilegar framfarir á vinnustöðum sem verða til þess að við þurfum að hreyfa okkur minna en áður var. Þessar breytingar eru að sjálfssögðu framfaraskref en um leið áskorun til okkar að bregðast við svo að það verði ekki til þess að með því að leysa eitt vandamál búum við til annað, sem sé versnandi heilsu okkar sjálfra.
Almennar hreyfiráðleggingar miðast við að fullorðnir hreyfi sig rösklega á hverjum degi í að minnsta kosti 30 mínútur samtals. Hreyfing til heilsubótar þarf þannig ekki að vera tímafrek en eftir sem áður er tímaskortur algengasta afsökunin sem við bregðum fyrir okkur.
Sú hreyfing sem við fáum í vinnu dags daglega er afar mismunandi og ræðst fyrst og fremst af eðli starfa. Sum okkar sitja allann daginn við lyklaborð og tölvuskjá, aðrir ganga mörg þúsund skref. Sumir sitja í bíl í umferðarálagi meiri hluta dags en aðrir moka skurð eða skúra gólf. Þess vegna er hreyfiþörfin ólík. Að sama skapi er sú hreyfing sem við fáum í vinnu yfirleitt einhæf vegna þess að við erum að endurtaka sömu verkin aftur og aftur og mikilvægt að hver og einn meti eftir eigin aðstæðum hvaða hreyfing honum kæmi mest að gagni.
Líkaminn er hannaður til fjölbreyttrar hreyfingar og okkar hlutverk er að sinna því vel og hreyfa okkur á sem margbreytilegastan hátt en um leið að ofgera engu.
Leiðir til þess að stuðla að meiri hreyfingu á vinnustað:
- Skipuleggja umhverfið þannig að það hvetji til hreyfingar
- Hafa sturtu á staðnum fyrir þá sem ganga, hlaupa eða hjóla til vinnu eða í hádeginu
- Bjóða upp á teygjuæfingar á staðnum eða benda á tölvuforrit um teygjuhlé
- Skipuleggja æfingahópa
- Bjóða heilsuræktarstyrki
Höfundur greinar
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar