Húðin er úr nokkrum mismunandi vefjum. Yst er þunnt hornlag sem er að mestu gert úr þekjuvefsfrumum.
Frumurnar eru dauðar yst á hornlaginu en dýpra eru þær lifandi og skipta sér stöðugt og endurnýja þannig ysta lagið. Húðfruma lifir að meðaltali í 20-50 daga.
Hornlagið gegnir meðal annars því hlutverki að verja undirliggjandi hluta húðarinnar gegn örverum og vatni.
Undir hornlaginu er þykk leðurhúð sem er aðallega gerð úr bandvef. Í leðurhúðinni eru einnig taugaendar, æðar, hársekkir, svita- og fitukirtlar og smágerðir vöðvar.
Húðin er stærsta líffæri líkamans. Í fullorðnum manni vegur hún um 5 kílógrömm og yfirborð hennar er um 2 fermetrar.
Grein frá Vísindavef HÍ
Höfundur greinar
Jón Gunnar Þorsteinsson, ristjóri Vísindavefsins
Allar færslur höfundar