Líkaminn getur reynt að koma í veg fyrir hitahækkunina með því að auka blóðflæði til húðar og útlima, en við það tapast varmi úr líkamanum, og/eða auka svitamyndunina eða bleyta húðina á einhvern annan hátt þannig að meira gufi upp frá okkur og varmi tapist.
Sólstingur eða hitaslag er skyndileg örmögnun vegna þess að líkamshitinn er orðinn of hár. Orsökin getur til dæmis verið sterkt sólskin eða hár lofthiti. Þá verður truflun í kælikerfi líkamans sem nær ekki að kæla sig með því að svitna. Húðin er því oftast heit og þurr og við svitnum ekki lengur. Í sumum tilvikum getur húðin þó virst nokkuð svöl vegna þess að æðar rétt undir húðinni dragast saman og of heitt blóð líkamans berst ekki til yfirborðsins. Afleiðingin er hækkandi líkamshiti sem hefur í för með sér að heilafrumur deyja en það getur leitt til krampa, meðvitundarleysis og jafnvel dauða.
Stundum er gerður greinarmunur á sólsting og hitaslagi. Einkenni og afleiðingar eru þær sömu en aðstæður sem leiða til þeirra svolítið ólíkar. Yfirleitt er talað um sólsting þegar höfuðið er óvarið fyrir sterkum geislum sólar. Þeir eða varminn frá þeim komast að heilanum inn um augun og í gegnum höfuðkúpuna og því er mikilvægt að verja sig gegn sterkri sólargeislun með því að bera ljóst höfuðfat og sólgleraugu.
Oftast er talað um hitaslag frekar en sólsting þegar lofthiti er hár og raki mikill. Þá nær svitinn ekki að gufa upp af húðinni, okkur tekst ekki að kæla okkur og líkamshitinn hækkar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Af þessum sökum getur verið hættulegt að reyna mikið á sig líkamlega í mjög heitu og röku loftslagi.
Komi einkenni hitaslags fram er mikilvægt að að kæla viðkomandi eins fljótt og kostur er, til dæmis með því að koma honum á svalan, skuggsælan stað og setja kalt vatn eða jafnvel ísvatn á húðina.
Grein þessi birtist fyrst á Vísindavef HÍ
Höfundur greinar
Þuríður Þorbjarnardóttir, líffræðingur
Allar færslur höfundar