Þessi setning er okkur öllum vel kunn en hvað merkir hún?
Það að gæta að persónubundnum smitvörnum þýðir í raun að verja sjálfan sig með þeim hætti að koma í veg fyrir mögulegt smit. Þetta er hægt að gera með einföldum aðgerðum sem við eigum flest að þekkja orðið vel.
Þvoðu hendur þínar reglulega og vandlega með vatni og sápu í minnst 20 sekúndur í hvert sinn. Með því þværðu af höndunum möguleg smitefni sem þú gætir hafa fengið á hendurnar frá einhverjum öðrum af sameiginlegum snertiflötum eins og hurðahúnum, kaffivél eða öðru slíku. Þú ert um leið að þvo af þínum höndum möguleg smitefni frá sjálfum þér sem hafa borist á hendurnar þegar þú snertir andlitið þitt. Rannsóknir hafa sýnt fram á að við snertum andlitið okkar ómeðvitað ótal sinnum á dag og erum þannig mögulega sjálf að bera smitefni til annarra. Við getum reynt að draga úr því að snerta andlitið en getum aldrei komið að fullu í veg fyrir það.
Ef vatn og sápa eru ekki til taks þá er handspritt næsti kostur, sérstaklega þegar þarf að snerta fleti sem margir snerta t.d. afgreiðslukassa í verslunum, hurðahúna, posavélar og slíkt. Skynsamlegt er að sameiginlegir snertifletir séu þrifnir oftar en venjulega.
Þurfir þú að hósta eða hnerra er mikilvægt að gera það í olnbogabótina eða einnota klút sem er hent og hendur þvegnar á eftir. Það er til þess að smitefnið sem annars bærist mögulega frá þér dreifist síður út í andrúmsloftið. Með réttri notkun á andlitsgrímu dregur úr líkum á að úði frá öndunarfærum berist út í andrúmsloftið og til annarra. Að sama skapi dregur úr magni smitefnis sem við öndum að okkur. Grímurnar grípa þó aldrei allt smitefni og veita þess vegna ekki fullkomna vörn auk þess sem það að setja á og taka grímur af sér kallar á að við snertum á okkur andlitið sem aftur getur orðið til þess að við fáum smitefni á hendurnar og berum áfram.
Með því að takmarka líkamlega snertingu eða nánd við aðra dregur þú úr líkum á að smitefni berist ykkar á milli. Þess vegna er verið að setja upp eins eða tveggja metra regluna.
Það er því að mörgu að hyggja en upplýsingarnar eru til og um að gera að kynna sér þær vel t.d. á COVID.IS.
Höfundur greinar
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar