Hvaða áhrif hefur það á líkamann að fasta?

Það kallast fasta þegar valið er að sneiða hjá mat í lengri eða skemmri tíma. Áhrif föstu á mannslíkamann fara eftir því hve lengi samfelld fasta varir. Átta klukkutímum frá því að síðustu máltíðar er neytt hefur líkaminn lokið meltingu fæðunnar og upptöku næringarefna úr henni. Þá er hann kominn í föstuástand.

Undir venjulegum kringumstæðum, sem sagt þegar við fáum nóg að borða, er einsykran glúkósi helsti orkugjafi líkamans. Hann fæst úr ýmsum matvælum eftir að við höfum melt þau, einkum ávöxtum og kornvörum. Að meltingu lokinni er glúkósinn tekinn upp í gegnum smáþarmavegginn út í blóðið og berst með því um allan líkamann sem blóðsykur sem allar frumur líkamans nýta sem orkugjafa. Þegar nokkuð er liðið frá síðustu máltíð lækkar blóðsykurinn fljótt og líkaminn verður að snúa sér að öðrum orkugjafa. Sá fyrsti sem hann nýtir er glýkógen sem er fjölsykra úr glúkósaeiningum, sem sagt geymsluform glúkósa.

Í líkamanum eru geymd um 500 grömm af glýkógeni, aðallega í lifur og vöðvum. Glýkógenbirgðir líkamans klárast á einum til tveimur sólarhringum og þá byrjar hann að brenna vöðvaprótíni og umbreyta amínósýrum í glúkósa fyrir heila, taugakerfi og rauð blóðkorn. Fita er þá líka brennd sem orkugjafi fyrir aðrar frumur líkamans. Þegar fasta hefur staðið í þrjá til fjóra sólarhringa fer líkaminn að spara vöðvana og umbreyta fitu í ketóna sem heili, taugakerfi og rauð blóðkorn nýta. Þá er komið ástand sem kallast ketósa en það getur þróast í ketóneitrun með súrnun blóðs og einkennum eins og andremmu, þreytu og fleiru óskemmtilegu. Ef þetta ástand varir lengi leiðir það til skaða á nýrum og lifur. Ef fasta stendur í meira en viku fer líkaminn aftur að nota meira vöðvaprótín til að ná sér í glúkósa. Það fæst með því að brjóta niður vöðva líkamans og er þá komið hættulegt ástand sem nefnt er svelti (e. starvation).

Mismunandi hugmyndir

Það er mikill munur á áhrifum þess að hafa diskinn tómann í skemmri tíma, til dæmis í sólahring, eða fasta í lengri tíma þannig að líkaminn fer að ganga á vöðva.

Forfeður okkar voru veiðimenn og safnarar og mannslíkaminn hefur þróast í samræmi við það þau 200.000 ár sem „hinn viti borni maður“ hefur lifað hér á jörðu, þannig að hann þolir vel tímabil þar sem hann fær engan mat. Sumir vísindamenn telja að DNA okkar sé jafnvel kóðað þannig að það hafi sína kosti að fasta. Föstutímabil flýta fyrir losun úrgangs úr líkamanum sem skaddaðar og dauðar frumur skilja eftir í líkamanum. Þetta ferli kallast sjálfsát frumna (e. autophagy). Sumir vísindamenn telja að það geti verið ein meginorsök þrálátra sjúkdóma sem tengjast öldrun þegar sjálfsát frumna okkar nær ekki að halda í við uppsafnaðan frumuúrgang.

Fasta endrum og eins virðist örva starfsemi og vöxt sumra frumugerða, einkum taugafrumna. Þetta er rökrétt út frá þróunarlegum forsendum. Þegar fæðuskortur var hefði verið æskilegt að hafa gott minni til að muna hvar fæða hefur fundist áður og góða rökhugsun til að átta sig á hvernig hægt væri að nálgast hana aftur. Náttúruval hefði stuðlað að slíkum eiginleikum í tegundinni.

Hjá nútímamanninum, að minnsta kosti á Vesturlöndum, virðast ríkja nokkrar skrítnar hugmyndir um mat miðað við uppruna hans og þróun. Til dæmis er sú skoðun almenn að komast eigi hjá hungri hvað sem það kostar. Síðan 1980 virðist það einnig vera algengt viðhorf að við ættum að fá fimm til sex litlar máltíðir á dag í stað þriggja sem var algengast fyrir þann tíma. Hjá mörgum þýðir það að þeir eru nánast alltaf borðandi. Þessar tvær ríkjandi skoðanir gætu átt þátt í því að offita fór að aukast mjög á Vesturlöndum upp úr 1980. Til þess að verða ekki svangt er fólk sínartandi og þá oftast ekki í heimatilbúna hollustu úr ferskmeti heldur fjöldaframleiddar, unnar, orkuríkar matvörur. Mörgum finnst kominn tími til að fara að hugsa þetta allt saman upp á nýtt. Að leyfa sér að vera svangur af og til er hollt ef þess er gætt að inntaka hitaeininga sé nægileg til að viðhalda heilsusamlegri líkamsþyngd.

Niðurstöður úr sífellt vaxandi fjölda rannsókna benda til að stutt fasta annað slagið geti haft góð áhrif bæði á líkamlega og andlega heilsu. Sumar rannsóknir hafa verið gerðar á mönnum en flestar þó á dýrum, einkum nagdýrum. Í yfirlitsgrein frá 2007 drógu rannsakendur þá ályktun að ef fastað var annan hvern dag og borðað eðlilega hinn daginn gæti fasta minnkað hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameinsáhættu og sykursýki, en bætt vitsmunastarfsemi og verndað gegn sumum áhrifum Alzheimer- og Parkinsons-sjúkdóma.

Fasta sem hluti af lífsstíl

Á undanförnum árum hefur komið fram tískubylgja þar sem fasta er gerð að reglulegum þætti í nýjum lífsstíl. Sumir fasta annan hvern dag, aðrir einn dag í mánuði eða viku, en það sem virðist hafa náð mestri útbreiðslu er svokallað 5:2 föstumataræði eða föstumegrun (e. 5:2 fastdiet). Þá er gert ráð fyrir að borða það sem manni sýnist, en þó helst hollan mat, fimm daga vikunnar. Þá á að innbyrða þann hitaeiningafjölda sem hentar hverjum og einum miðað við kyn hans, hæð og þyngd og líkamlegri virkni en hægt er að reikna út hve mikið það er. Hina tvo dagana á aðeins að innbyrða fjórðung af þeim hitaeiningum sem innbyrðar eru hina dagana. Ef gert er ráð fyrir að konur þurfi 2000 hitaeiningar en karlar 2400 hitaeiningar á venjulegum dögum að meðaltali er fjórðungur af þessu 500 hitaeiningar fyrir konur en 600 fyrir karla. Hér er því ekki um eiginlega föstu að ræða. Ef farið er eftir ráðleggingum sem fylgja þessari aðferð og fólk missir sig ekki í ruslfæði dagana sem ekki er fastað ætti kona að missa um hálft kíló á viku og karl aðeins meira. Höfundar þessarar aðferðar telja þó það ekki vera aðalávinninginn af aðferðinni, heldur aðeins aukakost með öllum góðu áhrifunum á heilsuna.

Tekið skal fram að ekki liggja fyrir vísindalegar rannsóknir á hvaða áhrif þessi aðferð hefur á heilsuna til lengri tíma. Einnig er rétt að hafa í huga að það er misjafnt eftir einstaklingum hvernig þeir bregðast við því að fasta og ætti ávalt að hlusta á líkamann. Loks skal ítrekað að það er mikill munur á því að sleppa því að borða einn og einn dag og því að fasta í lengri tíma þannig að það fari að ganga á líkamann.

Greinin er fengin af Vísindavefnum  og birt með með góðfúslegu leyfi ritstjóra

 

Höfundur greinar