Hvað er áfallastreituröskun?
Það er eðlilegt að alvarlegir atburðir hreyfi við okkur og það taki einhvern tíma að jafna sig. Þegar við stöndum frammi fyrir ógn eða hættu, upplifum við oft mikla hræðslu, og jafnvel skelfingu, hrylling eða vanmátt. Fara þá í gang ferli í líkamanum sem miða að því að verjast eða forðast ógnina. Um er að ræða frumviðbrögð sem hvetja okkur annað hvort til að berjast eða flýja. Sterk tilfinningaviðbrögð eru því eðlileg eftir alvarlega atburði en þau einkenni eiga smám saman að minnka.
Þó flestir jafni sig fljótt eftir alvarlega atburði, er alltaf einhver hópur fólks, mismunandi eftir atburðum, sem þróar með sér áfallastreitueinkenni sem valdið geta verulegri vanlíðan og ef einkennin eru mikil þá nær fólk greiningarviðmiðum um Áfallastreituröskun “post traumatic stress disorder”. Meira en mánuður þarf að líða frá atburði þar til greiningu um Áfallastreituröskun er varpað fram. Það kemur einnig fyrir að einkenni séu lítil í kjölfar atburðar og byrji ekki fyrr en árum síðar og þá stundum í tengslum við streituvaldandi aðstæður. Það hefur þó sýnt sig að ekki allir sem þróa röskunina með sér hafa upplifað hættulegan atburð heldur frekar atburð sem ógnar öryggi okkar eða vellíðan á einhvern hátt. Skyndilegur dauði ættingja getur, sem dæmi má gefa, einnig valdið Áfallastreituröskun.
Þróun áfallastreituröskunar
Röskunin þróast á mismunandi hátt og margir ná bata innan fárra mánaða á meðan aðrir eru að fást við þetta árum saman. Margir sem lent hafa í áföllum fara í felur með þá líðan sem fylgt getur í kjölfarið og finna jafnvel til skammar yfir því að “jafna sig ekki” eins fljótt og margir aðrir. Samansafn einkenna í hegðun, hugsun eða tilfinningalífi okkar ræður úrslitum um hvort hægt er að greina Áfallastreituröskun. Það eru einkenni eins og ágengar minningar, martraðir, endurupplifun af atburðinum og sterkar tilfinningar og/eða líkamleg viðbrögð þegar eitthvað minnir okkur á atburðinn.
Við höfum tilhneygingu til að forðast að hugsa og tala um, eða upplifa, tilfinningar eða mæta aðstæðum og/eða fólki sem minna á atburðinn. Forðunin leiðir jafnvel til breytinga á venjum okkar eða hegðun svo sem að vilja helst ekki setjast undir stýri eftir bílslys þrátt fyrir að hafa alltaf viljað vera ökumaðurinn fyrir slysið. Vangeta til að muna mikilvægar upplýsingar um atburðinn getur verið til staðar, rangtúlkun á því sem gerðist eða afleiðingum þess sem leiðir oft til sjálfsásökunar eða ásökunar í garð annarra. Einnig getur borið á áhugaleysi fyrir því sem áður var skemmtilegt, sumir fjarlægjast eða detta úr tengslum við fólk og tala um vangetu til að upplifa jákvæðar tilfinningar eða tilfinningadofa. Reiði og pirringur er algengur, óábyrg eða sjálfseyðandi hegðun getur verið til staðar, við erum stöðugt á varðbergi og okkur bregður auðveldlega. Einbeitingarörðugleikar og svefntruflanir eru líka algengar. Þessi einkenni, sérstaklega reiði og pirringur, geta orðið til þess að okkur finnist erfitt að vera í kringum aðra eða aðrir forðast að vera í kringum okkur, sem verður oft til þess að félagslegur stuðningur minnkar. Áfallastreituröskun verður því oft félagslegur sjúkdómur sem áhrif getur haft á nærumhverfi og fjölskyldu.
Eins og áður sagði reyna margir að fela einkennin eða finna til skammar yfir líðan sinni á meðan margir þættir spila inn í hvort einstaklingur þrói með sér áfallastreituröskun eða ekki. Að greinast með Áfallastreituröskun þýðir ekki að við séum á einhvern hátt ekki jafn seig og aðrir. Það skiptir til dæmis máli hvort lífshætta var upplifuð, hvort um líkamleg meiðsli hafi verið að ræða, hvort við höfum góðan félagslegan stuðning af nánasta umhverfi eða hvort aðrir erfiðir atburðir eru að gerast á sama tíma s.s. alvarleg veikindi í fjölskyldu og hvort saga sé um fleiri alvarleg áföll.
Meðferð
Sálfræðingar hafa náð góðum árangri í meðhöndlun Áfallastreituröskunar og eru ákveðnar tegundir Hugrænnar atferlismeðferðar og þá sérstaklega Hugræn úrvinnslumeðferð mjög árangursríkar. Einnig hefur EMDR (Eye Movement Desensitization Reprocessing) reynst vel. Að leita sér sálfræðimeðferðar sem fyrst, þegar ljóst er að einkenni minnka ekki þegar frá líður, hefur sýnt sig að dregur úr líkum á að þróa með sér langvarandi Áfallastreituröskun. Auk þess hjálpar góð meðferð fólki að snúa fyrr til góðrar virkni og/eða vinnu og dregur jafnvel úr líkamlegum einkennum s.s. krónískum verkjum. Þegar Áfallastreituröskun er látin ómeðhöndluð getur hún haldið áfram að leiða af sér mikla vanlíðan, þunglyndi, félagslega einangrun, samskipta og tengslavanda og jafnvel misnotkun á vímugjöfum.
Ef þú hefur lent í alvarlegum atburði og kannast við þessa líðan er gott að leita sér aðstoðar sem fyrst til að vinna gegn þeim áhrifum sem einkennin eða röskunin getur haft á þig og þá sem standa þér næst.
Höfundur er doktor í Áfallasálfræði
Höfundur greinar
Dr. Sigríður Björk Þormar Sálfræðingur
Allar færslur höfundar