Hvernig er kynlífslöngun mismunandi hjá kynjunum?

Hvað er átt við með kynlífslöngun?

Með kynlífslöngun er átt við þá viðleitni mannsskepnunnar að leita eftir og hafa hafa kynmök. Við notum ýmis orð yfir fyrirbærið svo sem kynhvöt, kynlífslöngun eða bara kynlöngun eða kynlífsáhugi. Þessi áhugi eða löngun felur bæði í sér líkamlegar og sálrænar hliðar. Þannig getur við fundið fyrir líkamlegri ,,greddu” og huglægri þrá til að njóta kynferðislega með þeim sem við elskum.

Með tímanum minnkar augljós munur á kynhegðun karla og kvenna

Fáir efast um að á undanförnum fimmtíu árum eða svo hafi konum vegnað betur í jafnræðisátt á flestum sviðum samfélagsins, og eru kynferðismálin ekki undanskilinn. Þegar ýmis samfélagsleg höft sem snerta kynferðismál kvenna, hefur verið aflétt,  virðist þróunin vera sú að æ minni munur verði á kynhegðun karla og kvenna. Hvort það sé gott, rétt eða æskilegt er svo önnur saga og ekki viðfangsefni þessa pistils en æri verðugt rannsóknarefni,  að mínu mati.

Einfalda myndin

Sumir telja kynlöngun einfalt mál – að það snúist um að langa eða langa ekki í kynmök. En það er, því miður vil ég segja, eilítið flóknara en það. Lítum samt fyrst á einföldu myndina um þekktan mun á kynlífslöngun karla og kvenna. Þessi vitneskja hefur komið fram,  hvað eftir annað,  í hinum ýmsu stúdíum og rannsóknum sem gerðar hafa verið á kynhegðun fólks.

Fleiri karlar en konur hugsa um kynlíf á hverjum degi. Karlar í meira mæli en konur segjast líka hugsa kynferðislegar hugsanir og örvast oftar kynferðislega dags daglega.

Í flestum samböndum vilja karlar hafa oftar kynmök en konur og virðist þetta vera raunin, sama hvort sambandið sé nýtt eða ef parið er búið að vera saman í mörg ár. Það kemur því ekki á óvart að karlar hafi líka vinninginn þegar litið er til þess hvort kynið hefur oftar frumkvæði að ástarleikjum. Hvað snertir aðra kynhegðun svo sem áhugi á fjölbreytni eða ,,kryddi” í kynlífi, sjálfsfróun eða fjölda rekkjunauta – þá virðist kynhegðunin vera bæði algengari og meira áberandi hjá körlum en konum. Konur eru viljugri eða eiga auðveldara með að vera án kynlífs yfir lengri tímabil en karlar og tíðni kynlífsvanda af ýmsu tagi er algengari hjá kvenþjóðinni. Að minnsta kosti kvarta mun fleiri konur en karlar yfir því sem nefnt er ,,áhugaleysi í kynlífi”. Margt fleira mætti tína til sem styður vissulega þá staðreynd að það finnist töluverður munur á kynlífslöngun karla og kvenna. Tilgangurinn með greininni er ekki að vera tæmandi úttekt heldur fyrst og fremst sá að benda á að til er einföld hlið á birtingu kynlöngunar og sú flókna.

Flókna myndin

Í störfum mínum við kynlífsráðgjöf tek ég eftir að margir einblína á einföldu hliðina hvað snertir áðurnefndan mun á kynlífslöngun karla og kvenna. En flókna myndin á fullt eins rétt á að henni sé veitt athygli. Sé kynreynslu kvenna veitt meiri gaumur kemur vitneskja upp á yfirborðið sem gerir myndina fyllri, bitastæðari nú eða flóknari, allt eftir hvernig við kjósum að nýta okkur þessa vitneskju. Tökum nokkur dæmi. Konur upplifa ekki eins jafna kynlöngun og karlar ef við lítum t.d. á hvernig kynlöngun birtist yfir mánuðinn. Kynlífslöngun kvenna kemur meira í bylgjum, kannski með smá topp á miðju tíðatímabilinu. Karlar, á hinn bóginn, hafa frekar jafna eða stöðuga kynlífslöngun frá mánuði til mánaðar. Kynlífslöngun kvenna er blæbrigðaríkari og meira háð aðstæðum – því sem er að gerast í hennar ytra umhverfi hverju sinni.

Þessu er ekki svona farið hjá körlum, þeirra kynlífslöngun ræðst meira af innri hvöt sem er, eins og áður sagði, frekar jöfn og stöðug – eins og einn karlmaður orðaði það eitt sinn í kynlífsráðgjöf: ,,Hjá mér eru alltaf tíu kynstig!” Og þótt það sé staðreynd að karlar horfi meira á kynferðislega opinskátt efni, leiði hugann frekar að kynórum og vilji meiri fjölbreytni í kynlífi – þá vaknar kynlöngun kvenna meira við að heyra lostavekjandi orð, finna létta munúðarfulla snertingu yfir allann líkamann og við að taka eftir áhugaverðum eiginleikum í skapgerð eða persónuleika makans. Til að gera langa sögu stutta má því segja að ef kynlífslöngun væri skilgreind minna út frá beinni snertingu kynfæra og meira út frá nautn eða munúð, þá hefðu konur meiri eða sterkari kynlífslöngun en karlar. Fyrir konur skiptir tilfinningahliðin eða sálrænu hliðar kynlöngunar afgerandi meira máli en bein snerting kynfæra í að ,,virkja” kynlöngunina.

Hvaða rullu spila kynhormónarnir í birtingu kynlífslöngunar?

Kynhormón, bæði estrogen og testosterón, hafa áhrif á kynlöngun með því að hafa áhrif á heila og kynfæri. Testosterón er einn helsti kynlöngunarvakinn bæði hjá konum og körlum. Þótt karlar hafi tíu til tólf sinnum meira af svonefndu ,,fríu” testosteróni flæðandi um í blóðrásinni hjá sér en konur segir það ekki nærri því alla söguna. Þrátt fyrir að testosterón geti að einhverju leyti kveikt ástarbrímann eru það tilfinningalegir þættir og ytra umhverfi sem ákvarða hversu heitur logi kynlífslöngunarinnar er og að hverju löngunin beinist hverju sinni. Kynhormónar á borð við testosterón valda því ekki ákveðinni hegðun heldur auka líkur á að einhver tiltekin hegðun geti gerst. Ef maður skoðar á hvaða vikudögum fólk hefur helst kynmök kemur í ljós að helgardagarnir, laugardagar og sunnudagar, eru vinsælli dagar en vikudagarnir. Helgardagarnir eru ekki vinsælli til kynmaka af því kynhormónin eru á meira blússi þá daga, heldur af því að dagarnir eru heppilegri, meiri líkur eru á að fólk sé úthvílt, ekki upptekið í vinnu og hefur kannski daginn fyrir sér. Og síðan en ekki síst, kynhormónar ráða ekki yfir hegðun einstaklinga heldur er það einstaklingurinn sem ræður yfir þeim!

Við gerð þessa pistils var stuðst við eftirfarandi grein í tímaritinu Sexual and Relationship Therapy eftir Söndru R. Leiblum: “Reconsidering gender differences in sexual desire: an update”, Vol. 17, No. 1, 2002, bls. 57-68.

Höfundur greinar