Hvernig hagar njálgur sér í mönnum?

Njálgur (Enterobius vermicularis) er lítill innyflaormur og er algengasta sníkjudýrið hjá börnum og fullorðnum í löndum þar sem veðurfar er svipað og hjá okkur. Í sumum nálægum löndum er talið að allt að 20% barna séu smituð.

Njálgurinn er þráðlaga, hvítleitur að lit og er kvendýrið um 10 mm að lengd en karldýrið um 3 mm. Smitun verður á þann hátt að egg berst frá smituðum einstaklingi og í munn annars. Eggin berast milli manna með fingrum, fötum, sængurfötum og leikföngum og þau geta lifað í umhverfinu í allt að þrjár vikur við venjulegan stofuhita. Eggin geta einnig svifið um í loftinu og borist þannig í öndunarfæri og síðan meltingarfæri manna.

Eggin klekjast fljótt út í meltingarfærunum og dýrin ná fullum þroska í neðri hluta þarmanna á 2 til 6 vikum. Kvendýrin skríða síðan út úr endaþarminum, oftast að næturlagi, og verpa eggjum sínum í húðfellingar og festa þau þar með límkenndu efni. Hreyfingar ormanna og límið sem þeir festa eggin með valda kláða. Ekki er með vissu vitað til þess að njálgur valdi öðrum óþægindum en kláða og margir þeirra sem ganga með njálg hafa engin einkenni.

Hægt er að greina njálg með því að finna orma eða egg umhverfis endaþarminn eða í saur. Til eru ágæt lyf við njálg en eins og ætti að sjást af þessari lýsingu er ekki alltaf einfalt mál að losna við hann. Það verður að meðhöndla alla fjölskyldumeðlimi, oftast þarf að gefa meðferðina nokkrum sinnum og gæta verður ýtrasta hreinlætis í hvívetna. Auk þess verður að þvo vandlega föt og rúmföt, við minnst 60° eða í efnalaug. Kláði í eða umhverfis endaþarm getur stafað af ýmsu öðru en njálg og þess vegna er nauðsynlegt að fara til læknis og fá hjálp við greiningu og meðferð.

Grein þessi birtist fyrst á Vísindavef HÍ

Höfundur greinar