Hvert er hlutverk skjaldkirtilsins?

Skjaldkirtillinn er innkirtill og myndar tvö hormón í tveimur megin frumugerðum sínum. Önnur frumugerðin myndar skjaldkirtilshormón en það er til í tveimur mismunandi myndum, T4 (þýroxín) og T3 (þríjoðóþýrónín). Tölurnar gefa til kynna hversu margar joðjónir eru í sameindunum en til að mynda skjaldkirtilshormón er nauðsynlegt að fá nóg af steinefninu joði í fæðunni. Hitt hormónið sem skjaldkirtillinn myndar heitir kalsítónín. Skjaldkirtilshormón og kalsítónín eru bæði mjög mikilvæg.

Skjaldkirtilshormón stjórnar efnaskiptum líkamans, vexti og þroskun og enn fremur virkni taugakerfisins. Hormónið hefur margvísleg áhrif á efnaskiptin. Það örvar nýmyndun prótína, örvar niðurbrot fitu, kólesterólþveiti og notkun þrúgusykurs (glúkósa) til myndunar ATP. Ásamt vaxtarhormóni frá heiladingli og insúlíni flýtir skjaldkirtilshormón líkamsvexti, einkum vexti taugavefja. Ef skjaldkirtilshormón skortir á fósturskeiði er hætta á færri og smærri taugungum, gallaðri mýlingu taugasíma og andlegri þroskaheftingu. Á fyrstu æviárunum veldur skortur á skjaldkirtilshormóni dvergvexti og vanþroskun tiltekinna líkamshluta, einkum heila og kynfæra. Slíkt ástand heitir kretínismi og börnin kallast kretíndvergar.

Magni skjaldkirtilshormóns er stjórnað með neikvæðri afturverkun. Ef magn þess í blóði lækkar niður fyrir eðlileg mörk eða hægir á efnaskiptahraða, er það greint í sérstökum efnanemum í undirstúku heilans. Hún bregst við með því að gefa frá sér losunarþátt sem berst til framhluta heiladinguls og örvar hann til að seyta stýrihormóni skjaldkirtils (e. TSH) út í blóðið. Þegar þetta hormón berst til skjaldkirtilsins örvast hann og seytir skjaldkirtilshormóni þar til efnaskiptahraðinn er aftur kominn í eðlilegt horf. Skjaldkirtilshormón hamlar seyti losunarþáttar og stýrihormónsins þannig að þegar eðlilegu ástandi hefur verið náð er seyti stýrihormónsins hætt eða minnkað á ný.

Skilyrði sem auka þörf líkamans fyrir orku, til dæmis kuldi, mikil hæð yfir sjó og meðganga, auka seyti skjaldkirtilshormóns. Ýmsir þættir geta hamlað virkni skjaldkirtils. Þegar magn sumra kynhormóna í blóði er mikið dregur úr seyti skjaldkirtilsstýrihormóns. Öldrun hægir á virkni flestra kirtla og getur myndun skjaldkirtilshormóns því minnkað með aldrinum. Þetta er einn orsakaþáttur þess að fólk þyngist þegar það eldist.

Hér að ofan er þess getið hvaða áhrif það hefur á þroskun barns ef skjaldkirtilshormón vantar snemma á æviskeiði. Vanseyti skjaldkirtilshormóns á fullorðinsaldri leiðir til ástands sem kallast sveppbjúgur og einkennist af þrota í andlitsvefjum af völdum bjúgs, þreytu og fitusöfnun. Ein orsök vanseytis skjaldkirtilshormóns er svokölluð Hashimoto-veiki. Hér er um að ræða sjálfsofnæmi þar sem ónæmiskerfið ræðst á skjaldkirtilinn og skemmir hann þannig að hann myndar ekki nóg af skjaldkirtilshormóni. Þetta ástand getur komið fram fljótlega eftir barnsfæðingu en oftast jafnar það sig aftur þegar frá líður. Þegar um vanseyti er að ræða þarf einstaklingurinn að taka hormónatöflur.

Skjaldkirtilsauki getur verið einkenni joðskorts.

Ofvirkni skjaldkirtils leiðir til hraðari efnaskipta, aukinnar varmamyndunar og fæðuinntöku. Einkenni sem þessu fylgja eru hitaóþol, aukin svitamyndun, megrun þrátt fyrir góða matarlyst, svefnleysi og taugaveiklun. Helsta orsök ofurseytis á skjaldkirtilshormóni er sjálfsofnæmissjúkdómur sem er kallaður Graves-veiki. Snemmkomið einkenni hans er bólginn skjaldkirtill sem sést sem þykknun framan á hálsinum eða skjaldkirtilsauki (e. goiter). Skjaldkirtilsauki kemur líka fyrir í öðrum skjaldkirtilssjúkdómum og einnig ef joð skortir í fæðuna. Annað einkenni Graves-veiki er útstandandi augu vegna bjúgs á bak við þau. Ofurseyti skjaldkirtilshormóns krefst meðferðar með geislum eða skurðaðgerð.

Hin megin frumugerðin í skjaldkirtlinum myndar hormónið kalsítónín sem stjórnar kalk- og fosfatbúskap líkamans ásamt öðru hormóni sem fjórir litlir kalkkirtlar aftan á skjaldkirtli mynda. Kalsítónín og kalkkirtlahormón hafa mótverkandi áhrif. Kalsítóníni er seytt þegar kalk- og fosfat í blóði eykst. Það örvar upptöku þessara jóna úr blóði í beinin og hamlar niðurbroti beina en niðurbrot eykur losun jónanna í blóð. Þessi áhrif stuðla að lækkun kalks og fosfats í blóði þannig að það komist í eðlilegt horf.

Kalkkirtlahormón tekur aftur á móti í taumana ef magn kalks og fosfats í blóði lækkar. Þá örvar kalkkirtlahormón beinniðurbrot og losun kalks og fosfats þaðan, hamlar upptöku kalks og fosfats úr blóði í bein og virkjar D-vítamín þannig að meira kalk er sogað upp úr meltingarveginum. Greinilegt er af þessari lýsingu að líkaminn stjórnar kalkmagni blóðs nákvæmlega með þátttöku þessara tveggja mótvirkandi hormóna. Hér er ekki um nein stýrihormón að ræða, heldur fylgjast frumurnar sem mynda hormónin sjálfar með ástandi blóðsins og bregðast við með því að auka seyti síns hormóns þegar magn kalks í blóði ýmist hækkar (kalsítónín) eða lækkar (kalkkirtlahormón).

Grein þessi birtist fyrst á Vísindavef HÍ

Höfundur greinar