Innri áhættuþættir kulnunar

Kulnun er alvarlegt ástand sem hefur víðtækar afleiðingar fyrir manneskjuna og getu hennar til að takast á við eigið líf. Almennt séð er litið á kulnun sem líkamlegt og andlegt skipbrot manneskju sem komin er í þrot vegna ýmissa samverkandi þátta sem tengist starfi og ábyrgðarstöðu hennar á vinnustað. Reynsla hérlendis og í nágrannalöndum okkar hefur sýnt að fólk í ábyrgðarstöðum er í aukinni hættu að þróa með sér kulnun í starfi og sérstaklega þeir sem gæta að hagsmunum annarra. Í þessari umfjöllun verður litið á áhættuþætti kulnunar sem tengjast innri þáttum manneskjunnar og hæfni hennar eða vanhæfni til að bregðast við og takast á við síauknar kröfur þannig að vel fari. Þessa áhættuþætti má meðal annars greina og lesa úr viðhorfum manneskjunnar, lærðum viðbrögðum og bjargráðum hennar sem oftar en ekki mótast snemma á lífsleiðinni. Þá hvort sem er í uppvextinum eða sem afleiðing erfiðrar reynslu eða áfalla.

Efnisyfirlit

Hugurinn sem óskrifað blað

Heimspekingurinn John Locke (1632-1704) setti fram kenningar sínar um tabula rasa, sem fjallar um að manneskjan í bernsku sinni fæðist sem óskrifað blað. Að hugur barnsins sé eins og auður strigi málarans þar sem reynsla og skynjun af umhverfi og lífinu sjálfu, mótar þann jarðveg sem hugmyndir barnsins og síðar manneskjunnar eru sprottnar úr. Hugmyndir um eigið sjálf sprettur upp úr tengslum og samneyti við aðra, sem hvoru tveggja getur verið með jákvæðum eða neikvæðum hætti. Þannig telur John Locke að með sérhverju nýju lagi af reynslu, færist manneskjan smátt og smátt nær þeirri fullmótuðu sjálfsmynd sem á endanum segir henni hver hún er.

Grunnviðhorf og lífsreglur

Hugmyndir manneskjunnar um eigið sjálf birtist með ýmsum hætti en innan sálfræðinnar er oft fengist við tvær birtingarmyndir þeirra, grunnviðhorf og lífsreglur.  Grunnviðhorf fela í sér alhæfingu og nánast óhagganlegan sannleika um virði manneskjunnar og mótast vegna reynslu yfir tíma. Ef viðhorfin valda vanlíðan þá er ljóst að þau eru neikvæð. Grunnviðhorf fjalla að miklu leyti um að manneskjan er ekki dugandi á því formi sem hún annars ætlaði sér að vera. Dæmi um slík viðhorf eru: ,,ég er ekki nógu fær…“ , ,,ég er einskis virði… ´´ eða ,,ég er ekki að standa mig…“.  Lífsreglur eru annars eðlis. Þær mótast í þeim tilgangi að vernda sjálfsmynd manneskju gegn niðurbroti og þeim skaða sem neikvæð grunnviðhorf eru fær um að valda. Þessar reglur eru alltaf á forminu ,,ég verð…“ , ,,ég skal….“  eða ,,ég má ekki…“. Lífsreglur virðast snemma fara að hafa áhrif á bjargir manneskjunnar og með hvaða hætti hún tekst á við áskoranir og erfiðleika lífsins. Kostir við lífsreglur eru að þær virka hvetjandi, geta veitt leiðsögn og markað stefnu fram á við um tíma. Ókostirnir eru hins vegar þeir, að reglurnar eru afar ósveigjanlegar og áhrif þeirra geta verið ráðandi mun lengur en efni standa til. Lífsreglur sem upphaflega mótast sem vernd gegn erfiðri reynslu, geta farið að hamla möguleikum manneskjunnar til vaxtar og þroska. Þær verða samofnar sjálfsmynd manneskjunnar og veita mikið viðnám gagnvart breytingum.

Menning á vinnustað

Liðsheild eða liðsandi vísar til þeirrar menningar sem ríkir innan heildarinnar og þeirra óskráðu reglna sem þar finnast. Á meðan vinnustaðamenning tekur mið af áskorunum starfsins og litast af þeim ólíku einstaklingum sem finnast á hverjum vinnustað, mótast menning vinnustaðarins ekki síst af stjórnunarháttum yfirmanna og þeirra væntinga sem gerðar eru til hæfni og afkasta starfsfólks á hverjum tíma. Almennt séð gera vinnustaðir kröfur til sinna starfsmanna um að geta unnið undir álagi og hafa færni til að sinna mörgum, oft ólíkum viðfangsefnum á hverjum tíma. Það fylgir því oft sterk umbun fyrir manneskjuna og tilfinning um eigið mikilvægi,  að viðhalda gildum sem eru talin ákjósanleg og styðja við ímynd hins framsækna starfsmanns. Dæmi um þetta er að vera fórnfús, að vera bóngóður, að bregðast hratt við ákalli um vinnuframlag, að vera vinnuþjarkur og að vera fær um að halda mörgum boltum á lofti í einu. Á mörgum vinnustöðum koma álagstoppar þar sem þarfir fyrirtækisins virðast ganga fyrir þörfum starfsfólksins. Mikilvægt er að líta á slíkt ástand sem undantekningu, í stað þess að það sé ein þeirra óskráðu reglna sem menning vinnustaðarins tilgreinir.

Innri áhættuþættir

Eins og fram hefur komið er litið á kulnun í starfi sem flókið samspil margra þátta sem annars vegar snýr að starfsumhverfi manneskjunnar en einnig getu hennar til að takast á við auknar kröfur í síbreytilegu umhverfi vinnustaðarins. Dugmikill einstaklingur sem í gegnum tíðina hefur tekist á við aukna streitu og jafnvel mótað með sér mikla þrautseigju í lífi og starfi, gæti þekkt hjá sér innri áhættuþætti á formi lífsreglna sem varna honum að gefa eftir, deila ábyrgð og unna sér hvíldar. Hér gætu lífsreglur snúið að þemu á borð við ,,Ég verð að standa mig… „ég má ekki bregðast …“, ,,það er ekki í boði að gefa eftir…“ , ,,ég vil sanna að ég höndli ábyrgð… ´´ og fleira í þeim dúr. Það er umhugsunarvert að þetta mynstur viðhorfa og hegðunar sem stuðlar að framgangi manneskjunnar innan fyrirtækis og og styður hana við að klífa metorðastigann, getur jafnframt falið í sér alvarlega áhættuþætti streitu og kulnunar. Jákvæðir þættir sem einkenna góðan, framtakssaman, ábyrgan starfsmann, getur auðveldlega snúist upp í andhverfu sína ef viðkomandi gætir ekki að sér og áttar sig ekki á því hvar eigin mörk liggja. Hvenær nauðsyn reynist að hægja ferðina, forgangsraða áskorunum og huga að eigin heilsu og þörfum.

Manneskjan í breytingaferli

Ef manneskja er komin í þrot og upplifir niðurbrot og kulnun í lífi og starfi, má segja að hún standi á ákveðnum krossgötum. Hún er nauðbeygð til að bregðast við ástandinu með einum eða öðrum hætti, hvort sem hún gerir það á eigin forsendum eða með aðstoð og undir leiðsögn fagaðila. Það er erfitt fyrir sjálfsmynd einstaklings að upplifa ástand kulnunar og þá örmögnun sem því fylgir og það er að sama skapi erfitt fyrir einstaklinginn að standa andspænis þáttum í eigin fari sem með einhverjum hætti hefur leitt hann í þær ógöngur. Hugmyndir manneskjunnar um eigið sjálf, sem eins og fyrr segir birtist meðal annars á formi grunnviðhorfa og lífsreglna, er furðu ósveigjanlegt fyrirbæri sem veitir oft mikið viðnám þegar breytingar eru yfirvofandi. Helsta ástæða þess er að líklega sú að þessar hugmyndir eru samofnar sjálfsmynd manneskjunnar, hluti af sögu hennar og reynslu sem í svo langan tíma hefur staðfest fyrir manneskjunni hver hún er í eigin augum og annarra. Til að hægt sé að breyta þeim grunnviðhorfum og lífsreglum sem hafa varðað veginn fram á við, þarf manneskjan að endurskoða margt og taka þá áhættu sem felst í því að sleppa tökum á sjálfsmynd sem hefur veitt henni ákveðið öryggi en einnig valdið skaða að einhverju marki. Ef við lítum til John Locke og kenningar hans um hugann sem auðan striga í upphafi lífs,  þá má segja að manneskja í breytingarferli sé eins og málverk í sköpun. Málarinn nálgast auðan strigann sjaldnast með fullmótaða hugmynd um endanlega útkomu verksins en er fús til að skapa eitthvað nýtt úr þeim efnivið sem hann hefur í höndunum. Það sama á við um manneskju í breytingarferli.

Áskorun breytinga

Það felur í sér áskorun að sleppa tökum á gömlum venjun og áskapa sér nýjar og slíkt gerist ekki á einni nóttu. Það krefur einstaklinginn um úthald, traust og þá von að þegar upp er staðið verði útkoman eitthvað annað og líklega betra en þegar af stað var farið. Sjálfsmyndin er í mótun svo lengi sem við lifum. Það er engin ástæða til annars en að nýta þá erfiðu reynslu sem niðurbrot og kulnun hefur í för með sér, til að skapa heilbrigðari sjálfsmynd. Manneskja með heilbrigða sjálfsmynd upplifir eigin verðleika óháð frammistöðu. Hún þekkir sína styrkleika, er í góðum tengslum við eigin þarfir og er fær um að setja hegðun annarra mörk, stangist það á við tíma hennar eða getu til að verða við þeim. Manneskja með heilbrigða sjálfsmynd er fær um að líta yfir farinn veg og nýta sérhverja reynslu sér til góðs, jafnvel þá sem reyndist henni hvað erfiðust á lífsleiðinni.

Höfundur greinar