Kókaín
Kókaín finnst í blöðum kókaplöntunnar (Erythroxylon coca) sem vex í austurhlíðum Andesfjalla, einkum í Perú og Bólivíu og víðar. Indíánar í þessum fjallahéruðum hafa tuggið kókablöð sér til hressingar og örvunar í aldaraðir til að auka úthald sitt í súrefnissnauðu háfjallaloftinu. Þessi neysla virðist hafa valdið litlum vandræðum. Vandamál af völdum kókaíns byrjuðu fyrst að marki þegar farið var að nota það hreinsað og við aðrar aðstæður. Aðalframleiðslulönd kókaíns eru Bólivía, Ekvador, Perú, Brasilía og Kólumbía.
Kókaín er líkt og morfín svokallaður plöntubasi. Það var einangrað úr kókablöðum um miðja 19. öld. Þá komust menn að því að það hefði örvandi áhrif á miðtaugakerfið, drægi úr þreytu og matarlyst og síðar að það hefði staðdeyfandi verkun. Það var í raun fyrsta staðdeyfingarlyfið sem menn þekktu og var því mikið notað af læknum og tannlæknum. Sumum læknum þótti efnið svo áhugavert að þeir vildu nota það til þess að “kanna djúp sálarinnar“ og nota það við geðlækningar. Kókaínneysla breiddist þó nokkuð út í ákveðnum hópum, ekki síst í ýmsum hressingardrykkjum (tonik), en þekkt er að Coca-Cola innihélt kókaín fram til ársins 1903. Afleiðingar þessa urðu að kókaín var notað í allt of miklum mæli bæði til lækninga og sem vímugjafi. Fyrst skömmu fyrir upphaf fyrri heimstyrjaldar voru settar umtalsverðar takmarkanir við notkun og dreifingu kókaíns.
Lyfhrif kókaíns eru í aðalatriðum þau sömu og amfetamíns að frátaldri staðdeyfandi verkun. Verkunarháttur kókaíns og amfetamíns er þó ekki hinn sami, og verkun þess á hjarta og æðakerfi er meiri. Amfetamín losar dópamín úr skaftendum (ásamt noradrenalíni og serótóníni) svo sem á undan ræðir, en kókaín blokkar einkum endurupptöku dópamíns (blokkar dópamínferjur) og í minna mæli endurupptöku noradrenalíns, sbr. kafla 3. Kókaín verkar mun hraðar og skemur en amfetamín og ferill kókaínfíkla tekur að jafnaði fyrr enda en ferill amfetamínfíkla. Líklega myndast þol gegn ýmsum verkunum kókaíns og fráhvarfseinkenni eru velþekkt. Tilhneiging til geðveikikenndra viðbragða virðist vera meiri eftir langvarandi töku kókaíns en amfetamíns. Jafnvel er talið að næmi manna fyrir slíkum viðbrögðum aukist með áframhaldandi töku kókaíns. Kókaín er því að öllu samanlögðu hættulegra vímuefni en amfetamín. Að auki er kókaín líklegra til þess að valda krömpum ef stórir skammtar eru teknir og það virðist frekar valda dauða en amfetamín. Hér á landi er a.m.k. þekkt eitt dauðsfall af völdum kókaíns.
Notkun kókaíns er nú nær eingöngu bundin við ólöglegan fíkniefnamarkað ef undan er skilin neysla innfæddra í ræktunarlöndum á kókablöðum. Í læknisfræðilegum tilgangi er efnið næstum aðeins notað til yfirborðsdeyfingar í undantekningartilvikum. Framboð á kókaíni hefur til þessa verið fremur lítið á íslenskum fíkniefnamarkaði. Fíklar nota kókaín gjarnan í nef (“snorta“) eða til innstungu svo og til reykinga.
Höfundur greinar
Fræðslumiðstöð um forvarnir
forvarnir.is
Allar færslur höfundar