Lífsgæði og heilsa eldri borgara

Töluverð umræða hefur verið um það á hvern hátt íslenskt samfélag getur tryggt öldruðum, ef ekki áhyggjulaust ævikvöld, þá allavega það að lifa lífinu með reisn með því að efla sjálfræði og lífsgæði þeirra. Á síðustu árum hafa langvinnir sjúkdómar og hlutfallsleg fjölgun aldraðra leitt til þess að áhersla vísindamanna hefur í æ ríkara mæli beinst að því að leita leiða til að draga úr skerðingu lífsgæða vegna öldrunar eða sjúkdóma. Í því sambandi skiptir mat sjúklingsins sjálfs á skerðingu lífsgæða verulegu máli sem mælikvarði á árangur meðferðar, einkum vegna þess að líðanin skiptir meginmáli í langri og oft flókinni meðferð þar sem lækning er ekki örugg.

Hvað felst í lífsgæðum?

Auðvitað er það hvers og eins að meta hvað hann telur að gefi lífinu gildi. Það geta verið þættir af efnahagslegum, félagslegum, líkamlegum eða andlegum toga. Áhugavert er að skoða hvað rannsóknir segja um þá þætti og á hvern hátt má efla þá. Vísindamenn sem hafa rannsakað þetta svið segja að grundvallarþættir eða stoðir lífsgæða séu eftirfarandi:

  • Í fyrsta lagi það að vera, sem felst í líkamlegri, andlegri og trúarlegri upplifun hvers og eins. Það felur í sér hvernig hver og einn lítur á eigin heilsu, færni, sjálfsbjargargetu, sjálfsmynd, gildi og trú.
  • Í öðru lagi að tilheyra, sem tekur til samskipta og samfélags. Hvernig tengjumst við sjálfum okkur, samferðamönnum og samfélaginu. Í því sambandi skipta máli tengsl við okkur sjálf, vini og vandamenn. Einnig aðstæður, félagsleg úrræði og þjónusta sem stendur fólki til boða.
  • Í þriðja lagi það að verða eitthvað, en það er grundvallarþörf manneskjunnar til að ná auknum þroska í lífinu. Hver og einn hefur þörf fyrir starf, tómstundir og einhvers konar menntun, en síðast og ekki síst að vera metinn að verðleikum.

Oft á tíðum er rætt um eldra fólk eins og það sé einsleit hjörð fólks sem hefur náð ákveðum aldri en það er að sjálfsögðu langt frá veruleikanum. Hvert okkar hefur sínar langanir, þrár og metnað í lífinu sama hversu árin eru mörg. Brýnt er að samfélagið skapi þá aðstöðu að hver og einn geti nýtt sér lífið á þann hátt að hann geti vel við unað og fundist hann hafa lagt eitthvað af mörkum til þjóðfélagsins.

Til að efla lífsgæði eldra fólks og þeirra sem eiga við langvinnan heilsuvanda að stríða er nauðsynlegt að bæði fólkið sjálft láti rödd sína hljóma, en ekki síður að þeir sem vinna með því hlusti á tillögur og þarfir þess.

Dæmi um þætti sem efla lífsgæði:

  • Viðhald og efling heilsu, líkamlegrar getu og vellíðanar með heilsusamlegum lífsháttum, virkni og ráðgjöf heilbrigðisstarfsfólks þegar það á við.
  • Að leitast við að efla lífsorkuna með t.d. útivist, bóklestri eða öðrum áhugamálum.
  • Að ætíð sé hugað að því sem hefur góð áhrif á andlega heilsu og velferð.
  • Síðast en ekki síst þá skipta mannleg samskipti og það að gleðjast í góðum hóp höfuðmáli.

Stjórnvöld og þeir sem vinna að því að bæta hag og lífsgæði aldraðra þurfa að gera sér ljóst að þeir eru sundurleitur hópur og að líta verður á mannauð hvers og eins og mikilvægi hans. Þátttaka aldraðra í samfélaginu eykur lífsgæði þeirra og stuðlar að betra þjóðfélagi. Því þurfa stjórnvöld í samráði við sveitarfélög, frjáls félagasamtök og fulltrúa eldri borgara ætíð að standa vörð um að réttar aldraðra sé gætt, velferð þeirra aukin, og lagt sé mat á stefnumótun, áætlanir og þjónustu fyrir aldraða.

Fyrst birt á vef Landlæknis og birt hér með góðfúslegu leyfi.

Höfundar greinar