Lífsgæði sjúklinga með samfallsbrot í hrygg

Efnisyfirlit

Hvað er beinþynning:

Beinþynning (osteoporosis) er sjúkdómur í beinum, sem einkennist af minnkuðu beinmagni og breyttri uppbyggingu beinsins. Beinþynning er yfirleitt einkennalaus sjúkdómur til margra ára, þar til fylgikvillar sjúkdómsins gera vart við sig með beinbrotum.

Beinþynning er algengari meðal kvenna en karla af tveim meginástæðum, en þær eru að konur ná lægri hámarks beinþéttni (beinmagni) en karlar og að á breytingarskeiðinu tapast u.þ.b. 10-15% af beinþéttni fyrsta áratuginn eftir tíðahvörf. Mótsvarandi beintap verður ekki hjá körlum fyrr en eftir 65-70 ára.

Beinþynning er stundum kallað „þögull faraldur” þar sem beinmagnið minnkar án sjúkdómseinkenna eða aðvörunarmerkja. Þegar sjúkdómurinn stigmagnast aukast líkurnar á brotum. Eitt af algengastu brotunum eru samfallsbrot í hrygg. Aðeins hluti samfallsbrota greinast þó frá byrjun. Öll samfallsbrot, jafnvel þau sem ekki greinast frá byrjun valda þó þjáningum og skertri starfsgetu.

Í dag er unnt að greina beinþynningu tímanlega með þar til gerðum beinþéttnimælum. Annars vegar er unnt að mæla beinþéttni með einföldum hælmæli sem framkvæmd er hjá Lyfju og á Landspítalanum við Hringbraut og hinsvegar með fullkomnum beinþéttnimæli (DEXA) sem mælir beinmagn í hrygg og í lærleggshálsi. Slíkir mælar eru staðsettir á Beinþéttnimóttökunum á Landspítala í Fossvogi og við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Með virkri forvörn má draga úr brotatíðni og þannig takmarka afleiðingar sjúkdómsins og varðveita dýrmæt lífsgæði.

Tíðni beinþynningar

Talið er að þriðja hver kona og áttundi hver karl eldri en 50 ára muni verða fyrir beinþynningarbrotum. Þar sem meðalaldur eykst má gera ráð fyrir að beinþynningarbrotum fjölgi ört í framtíðinni.

Sýnt hefur verið fram á að 46% allra greindra brota eru samfallsbrot, 16% eru lærleggsbrot og önnur 16% eru framhandleggsbrot. Hér á landi má áætla að brot vegna beinþynningar séu um 1000-1200 á ári. Konur sem þegar hafa fengið samfallsbrot eru í fimmfaldri hættu á að hljóta önnur brot s.s lærleggsbrot.

Lærleggsbrot verða oft um 15 árum síðar en samfallsbrot og framhandleggsbrot og krefjast undantekningarlaust sjúkrahúsvistar. Í mörgum löndum eru beinþynningarbrot algengasta ástæða sjúkrahúsdvalar hjá konum eldri en 50 ára. Kostnaður þjóðfélagsins af þessum sjúkdóm er því mikill.

Samkvæmt mannfjöldaspánni eru Íslendingar eldri en 65 ára 32 þúsund og eldri en 85 ára um 3þúsund. Talið er að næstu 30 árin muni þessi tala tvöfaldast. Ef ekkert er að gert munu því brot vegna beinþynningar verða um 2500 á ári innan fárra ára.

Lífsgæði

Mikið hefur verið rætt og ritað um lífsgæði á undanförnum árum í kjölfar þess að kröfurnar um gæðaeftirlit og árangursmat hafa aukist. Jafnframt hafa kröfur um bættan hag langveikra kallað á lífsgæðarannsóknir.

Lífsgæði er flókið hugtak sem hefur fengið margar skilgreiningar og mörg mælitæki verið þróuð til að meta lífsgæði og tryggja réttmæti og áreiðanleika mælingarinnar. Mat á lífsgæðum er háð núverandi aðstæðum, fyrri reynslu, væntingum til framtíðarinnar ásamt áhrifum sjúkdómsins og etv. meðferðar á einstaklinginn. Lífsgæði eru ekki stöðug og geta breyst mikið.

Kröfur fólks til lífsgæða eru einnig misjafnar, einkum til hinna efnislegu þátta þeirra. Aldraðir og fatlaðir og sjúklingar með langvinna sjúkdóma hafa oft lifað með verki, vanlíðan og stundum við kröpp kjör, en meta oft lífsgæði sín betri en aðrir sem hafa ekki þurft að glíma við langvinna sjúkdóma.

Samfallsbrot

Við samfallsbrot í hrygg ganga hryggjarliðbolir saman í brjóstliðum eða lendarliðum. þetta getur gerst við lítið átak, jafnvel hósta eða því að lyfta upp hlut frá gólfi. Einkennin eru smellur eða brestur í baki ásamt skyndilegum bakverk. Afleiðingin er oft sjúkrahúsinnlögn, verkjalyfjagjöf og skert hreyfigeta. Oft er þetta lítið hrun í hryggjarliðbolunum, en orsakar eigi að síður sára verki. Fólk bjargar sér e.t.v. heima með verkjalyfjum og hvíld.

Þetta gerir það að verkum að samfallsbrot greinast oft ekki og má því telja að tíðni þessara brota sé vanmetin. Talið er að aðeins annað hvert samfallsbrot í hrygg fái læknisfræðilega greiningu frá byrjun. Mörg þessarra brota uppgötvast oft síðar, stundum fyrir tilviljun þegar verið er að framkvæma röntgenmyndatöku af hjarta og lungum, en þá kemur brjósthryggur vel fram.

Brotið grær á sex til átta vikum en verkir verða oft viðvarandi og fimmta hver kona mun fá annað samfallsbrot í hrygg innan aðeins eins árs.

Við endurtekin brot gengur hryggurinn enn meira saman og einstaklingurinn verður hokinn og fær kryppu. Við endurtekin samfallsbrot þrengir að lungum og jafnvel meltingarfærum.

Auk líkamlegra einkenna orsaka samfallsbrot miklar andlegar þjáningar. Getan til að sinna fyrri störfum og áhugamálum minnkar og lífsgæði versna.

Hvað er til ráða?

Það er einfaldara að fyrirbyggja beinþynningu en að meðhöndla hana. Fyrirbyggjandi aðgerðir eru mismunandi eftir aldri og kyni, en eru mjög mikilvægar á öllum aldursskeiðum, sérstaklega hjá unglingsstúlkum og rosknum konum. Helstu forvarnir eru fólgnar í réttri næringu og eru D-vítamín og kalk hornsteinn í uppbyggingu beina. Rannsóknir hafa sýnt að D-vítamínbúskapur íslenskra karla og kvenna er ábótavant um miðbik vetrar. Eldra fólk tryggir sér þó frekar D-vítamin með því að taka lýsi og fjölvítamín en það yngra.

Hæfileg og regluleg hreyfing og þjálfun miðað við aldur og getu er mikilvæg. Hreyfing eykur beinþéttni og viðheldur vöðvastyrk og liðleika, auk þess sem jafnvægisskyn og samhæfing batnar. Góð líkamsþjálfun minnkar líkur á falli.

Aldrei er of seint að hefja fyrirbyggjandi aðgerðir gegn beinþynningu, jafnvel hjá þeim sem hafa fengið beinþynningarbrot.

Í þeim tilfellum þarf að grípa til sérhæfðar lyfjameðferðar, en miklar framfarir hafa orðið í lyfjaþróun hvað þetta varðar sl. áratug.

Brotin bein – brotið líf

Beinþynning er í rauninni þögull þjófur, þar sem beinmagnið minnkar án einkenna. En sjúkdómurinn tekur ekki aðeins beinmagn, því þegar brotin koma getur hann rænt einstaklinginn sjálfstæði og jafnvel lífinu, en dánartíðni þeirra er verða fyrir samfallsbrotum í hrygg og lærlegg er margfalt aukin miðað við jafnaldra sem ekki brotna.

Margir sem verða fyrir beinþynningarbrotum, lifa í stöðugri hræðslu um að næsta brot muni ræna þau enn meira sjálfstæði. Hræðslan gerir það að verkum að fólk hreyfir sig minna og þorir jafnvel ekki út úr húsi og verður því félagslega einangruð. Samfallsbrot í hrygg hefur auk þess í för með sér viðvarandi verki sem geta verið verri við hreyfingu en betri í hvíld. Svefn raskast vegna verkja og dagleg upplifun af verkjum hefur mikil áhrif á færni og getu. Hreyfingarleysið gerir það síðan að verkum að vöðvastyrkur minnkar og beinmassinn minnkar hraðar og kominn er vítahringur. Samhliða þessu eykst félagsleg einangun sem getur orsakað kvíða og síðar þunglyndi.

Flestir sjúklingar sem hafa hlotið samfallsbrot eiga auk þess í erfiðleikum með daglegt líf s.s. að klæða sig, beygja sig, versla, lyfta og bera hluti eða vinna heimilisstörf. þetta gerir það að verkum að það er ekki einungis sjúklingurinn sjálfur sem þarf að breyta lífsvenjum vegna minnkaðrar færni, heldur einnig t.d. makinn sem þarf að taka að sér ýmis störf heimilisins auk umönnunar og stundum hjúkrunar sjúklingsins. Lífið fer í annan farveg og væntingar bregðast.

Lífsgæði íslenskra kvenna með beinþynningu og áhrif samfallsbrota af völdum beinþynningar hér á landi er óþekkt. Við Beinþéttnimóttökuna við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur verið unnið að rannsókn sem á að lýsa hag þessarra kvenna. Rúmlega 300 konur á aldrinum 55-85 ára hafa fúslega tekið þátt í rannsókninni og svarað ítarlegum spurningarkverum um líf sitt og líðan. Niðurstöður úr þessarri rannsókn liggja ekki fyrir, en unnið er að úrvinnslu gagnagrunnsins.

Að lokum, munum kjörorð beinverndardagsins 20. október „Fjárfestu í beinunum þínum“.

Vefur Beinverndar

Höfundur greinar