Meðferð við tognun – hvenær á að kæla og hvenær á að hita?

Algengt er að fólk lendi í meiðslum, fái mar, bólgu og verki. Tognun á ökkla er mjög algeng, þó svo að það sé ekki alvarlegt og almennt hægt að meðhöndla heima, getur það valdið sársauka og hreyfingarskerðingu, auk bólgu og tilheyrandi litabreytingum.

Hvað er tognun ?

Tognun verður þegar liðband verður fyrir skaða (vefir sem tengja tvö bein saman). Oftast gerist þetta þegar þú teygir of mikið á því, t.d. misstígur þig. Meðan á tognuninni stendur springa litlu æðarnar í kring sem veldur því að blóð fer í nærliggjandi vefi, það ber með sér bólgu og litabreytingar.

Kælimeðferð

Það getur verið sársaukafullt að togna. Fyrst skal notast við kælimeðferð fyrstu sólahringanna, eða þangað til að bólgan er farin að hjaðna verulega og sársauki er minni.
Í heild sinni dregur kælimeðferðin úr bólgu og flýtir fyrir batanum. En kælimeðferðin felst í að:

  • Hvíla
  • Kæla svæðið reglulega, ekki of lengi í einu.
  • Halda fæti uppi, (t.d. þegar þú situr á stól að hvíla fótinn upp á öðrum stól). Það kemur í veg fyrir vökvasöfnun á meidda svæðinu.
  • Einnig er gott að fá stuðning frá t.d. teygjusokk, en það dregur úr bólgumyndun.
  • Hægt er að taka inn bólgueyðandi lyf eins og íbúfen til þess að flýta fyrir batanum.

 

Hitameðferð

Hitameðferð skal nota eftir að þú ert búin að nota kælimeðferðina, þú finnur að slasaða svæðið er að lagast og bólgan er farin. Hitameðferð eykur blóðflæðið aftur til slasaða svæðisins og flýtir fyrir bata. Venjulega er þetta notað þegar þú ert hættur að hvíla og farin/nn að hreyfa þig aftur. EKKI nota hitameðferð meðan að svæðið er ennþá bólgið og marið, það getur aukið bólgu og sársauka.  Hitameðferðin felst í:

  • Byrjaðu hægt og rólega!
  • Áfram að halda fæti uppi.
  • Styrktaræfingar. Að hitta sjúkraþjálfara getur reynst vel sem að hjálpar til við að styrkja slasaða svæðið.
  • Hita svæðið. Hægt að nota hitakrem sem fæst í apóteki eða setja hitapoka á svæðið. Ekki hita í meira en 30 mínútur. Með því að hita svæðið kemur þú í veg fyrir frekari meiðsl og sársauka.

Höfundur greinar