Meðgönguþunglyndi eða fæðingarþunglyndi

Efnisyfirlit

Hvað er þunglyndi?

Skilgreining á fæðingarþunglyndi er þannig að um sé að ræða þunglyndiseinkenni sem koma fram innan 4 vikna frá fæðingu. Fæðingarþunglyndi er þó tekið alvarlega eftir tvær vikur ef um er að ræða þunga líðan sem er nær stöðug. Einkenni geta verið frá því að vera væg til þess að vera mikil vanlíðan. Væg einkenni þunglyndis og geðbrigða eru algeng og ber að vinna úr þeim með stuðningi, góðri hreyfingu, fjölbreyttu fæði og hvíld. Þegar verið er að tala um fæðingarþunglyndi er ekki verið að tala um þungbæra líðan í einhverja stund eða jafnvel nokkra daga.

Þunglyndi og önnur geðbrigði geta auðveldlega komið fram á meðgöngunni sjálfri og líka eftir fæðingu. Geðbrigði eins og geðhvarfasýki jafnvel einkenni geðklofa geta líka komið fram í sumum tilfellum en afar sjaldan.

Allt að 13% kvenna geta fundið fyrir fæðingarþunglyndi (O´Hara & Swain, 1996) og samkvæmt danskri rannsókn á 5252 konum kom í ljós að 5,5% kvennana sýndi merki um fæðingarþunglyndi 4 mánuðum eftir burð (Forman og fl. 2000).

Hvernig er hægt að sjá hvort um sé að ræða fæðingarþunglyndi?

Þunglyndiseinkenni þurfa að vera viðvarandi í tvær vikur og þá fleiri en eitt (helst amk. fimm). Helstu einkenni fæðingarþunglyndis eru svipuð og þunglyndiseinkenni eru almennt:

 • Óeirð og skapsveiflur
 • Leiði, vonleysi og yfirþyrmandi líðan
 • Mikill grátur
 • Orkuleysi og lítil hvatning til verka
 • Þyngdarbreytingar og breytt matarlöngun
 • Svefnraskanir. Of mikill svefn eða of lítill.
 • Einbeitingarskortur, tvístígandi og óákveðin
 • Gleymni
 • Lágt sjálfsmat og lítið sjálfstraust.
 • Ánægjusnauð tilvera
 • Einangrun
 • Hausverkir, magaverkir og aðrir óskilgreindir verkir langvarandi
 • Hægar hreyfingar og mikil deyfð
 • Hugsanir um dauða og sjálfskaðandi hugsanir.

Læknar og aðrir meðferðaraðilar eru þjálfuð í að meta alvarleika slíkra einkenna. Það er varasamt að sjúkdómsgreina sig sjálfur, því það er oft erfitt að gera sér grein fyrir einkennunum en afar mikilvægt að leita sér strax aðstoðar ef minnsti grunur vaknar. Það er líka áríðandi að gera greinarmun á þunglyndi eða depurð sem talið er að 70% kvenna finni fyrir eftir barnsburð (DSM-IV-TR, 2000). Leitið því fljótt til læknis eða meðferðaraðila ef einkenni eru viðvarandi í tvær vikur eða lengur. Ekki síst ef viðkomandi á í erfiðleikum með að sinna barninu eða sjálfum sér og enn frekar ef viðkomandi finnur fyrir þörf fyrir því að skaða sjálfan sig og fær þrálátar hugsanir um dauðann.

Orsakir fæðingarþunglyndis

Almennar orsakir þunglyndis eru ekki taldar vera af einni ástæðu frekar en annarri, heldur samspil erfða og umhverfis. Þó er talið að þunglyndi komi frekar ef það er um það fjöldskyldusaga. Mikið er horft til taugasálfræði og mögulegra breytinga á heilaboðum. Streita og áföll eru talin geta aukið líkur á þunglyndi.

Helstu vísbendingar samkvæmt rannsóknum um áhættu fyrir fæðingarþunglyndi

 • Ef konan hefur fundið fyrir geðsjúkdómum áður og fundið fyrir geðbrigðum á meðgöngutímanum, slæm samskipti í sambúð og lélegur félagslegur stuðningur ásamt miklu álagi eða áföllum í lífinu. Einnig er talið að bágar félagslegar aðstæður geti verið þáttur í því að meðgönguþunglyndi komi frekar upp (O´Hara & Swain, 1996) (Forman og fl. 2000).
 • Það hefur einnig komið fram að lélegt sjálfstraust, streita vegna barns og uppeldis og  meðgöngukvíði eru þættir sem gefa vísbendingu um og geta verið orsakavaldar í meðgönguþunglyndi (Beck & Tatano, 2001).
 • Það er ekki talið að erfiðleikar í fæðingu sé áhrifavaldur að fæðingarþunglyndi.
 • Íslenskar rannsóknir sýna að við megum búast við því að áhrifavaldar séu þeir sömu hér heima (Karlsdóttir og fl. 2007), (Lýðsdóttir og fl., 2008), en þar kemur fram að áfengisneysla á heimili getur líka verið áhrifavaldur.

Hórmónabreytingar eru líka taldar vera áhættuþáttur þar sem þunglyndi á það til að koma frekar fram á gelgjuskeiði stúlkna, á blæðingum og á breytingarskeiði og svo á meðgöngu og eftir fæðingu. Það er talið að breytingar á estrógen og  progesterone hórmónum eigi hér hlut að máli, en á meðgöngunni er mikil aukning á þessum hórmónum. Framleiðsla skjaldkirtilshormóna dettur niður hjá konum eftir barnsfæðingu og það getur verið ein ástæða þess að matarlyst og matarlöngun breytist og bæði valdið þyngdarbreytingum og kallað fram þunglyndiseinkenni. Einföld blóðprufa getur sýnt fram á hvort slíkt sé í gangi og þá eru til við því lyf.

Aðrar orsakir eins og þreyta eftir burð, svefnleysi og svefntruflanir vegna barns, kvíði vegna barnsins, lítið sjálfstraust til móðurhlutverksins, félagsleg einangrun frá vinnufélögum og einvera heima, fullkomnunarárátta, töpuð sjálfsmynd, finna sig ekki eins aðlaðandi og ekki síst tímaskortur til þess að sinna sér sjálfri. En allt þetta í einni eða annarri mynd getur valdið vanlíðan og vonleysi sem er erfitt að sjá fram úr.

Rugl í lyfjagjöf. Það er oft sem konur hætta lyfjameðferð eða breyta mikið til með ýmis fæðubótaefni. Það er best að fara yfir alla slíkar meðferðir með sínum lækni, því breytingar á lyfjameðferð eða í neyslu á fæðubótaefnum getur framkallað breytingar á líðan. Þótt eitt henti sumum stundum er ekki víst að það henti öllum alltaf. Ég mæli samt alltaf með Lýsi eða Omega3.

Nokkur góð ráð, en ekki tæmandi listi

 • Hvíldu þig eins mikið og hægt er og eins oft og hægt er. Sofðu þegar barnið sefur.
 • Ekki reyna of mikið á fullkomnunaráráttuna
 • Vertu dugleg að sækja aðstoð, maka fjölskyldu, vina og vinnufélaga.
 • Reyndu að finna tíma til þess að fara út og vera á meðal fólks.
 • Ræddu þína líðan og tilfinningar við maka, fjölskyldu og vini.
 • Ræddu við aðrar mæður um þín vandamál, t.d. á netinu.
 • Sæktu stuðningsfundi með öðrum mæðrum t.d. í kirkjunni þinni.
 • Forðastu miklar ákvarðanatökur á meðan meðgöngu stendur eða stuttu eftir burð, til að forðast álag vegna fyrirhugaðra breytinga.
 • Ef breytinga er þörf, reyndu að fá alla þá aðstoð sem hægt er í þá vinnu.

 

Meðferðaleiðir

Samtalsmeðferð hjá sálfræðingi eða félagsráðgjafa eða öðrum meðferðaraðilum t.d. hjá félagsmálayfirvöldum.

Lyfjagöf er gott að byrja að skoða með sínum heimilislækni. Ef einkenni eru sterk og blönduð öðrum geðbrigðum eins og geðhvarfasýki eða geðklofa er best að ráðfæra sig við geðlækni.

Blönduð meðferð þessarra tveggja aðferða hafa oft sýnt sig gefa bestu útkomu á því að meðhöndla þunglyndi.

Óhefðbundnar leiðir eins og jóga, nudd, ilmolíumeðferðir eða leikfimi geta gert kraftaverk. Aðalatriðið er að koma sér í að gera það sem okkur finnst skemmtilegt og gefur okkur smám saman sátt og trú á framtíðina með nýfædda barninu. Það má vera að mæðrum finnist að sumt sé ekki eins og var ætlað, en þú ert þarna og barnið er þarna og á þeim punkti má alltaf byrja.

Þunglyndi er ekki feimnismál og  það er engin þörf á  að skammast sín fyrir sína vanlíðan. Það þarf ekki að bæta þeim bitra bikar við það sem fyrir er. Þetta er því miður algengt eins og fram hefur komið og nýmæður eiga alla samúð og rétt á aðstoð við að komast yfir sína vanlíðan, sem eftir allt er oftast tilfallandi og rætist úr hjá flestum, fyrr ef þær fá faglega aðstoð og viðeigandi meðferð. Ef meðferð dregst geta einkenni magnast og kallað fram önnur og verri. Leitið því aðstoðar fagfólks sem fyrst. Takið ykkur sem fyrst í sátt, þrátt fyrir vanlíðan og einhvern bömmer.

 

Heimildir

Beck, Tatano, C. (2001). Predictors of Postpartum Depression: An Update. Nursing Research: September/Octóber 2001, bindi 50, nr. 5, bls. 275-285.

http://journals.lww.com/nursingresearchonline/Abstract/2001/09000/Predictors_of_Postpartum_Depression__An_Update.4.aspx

DSM-IV-TR (2000). American Psychiatric Association

Forman, N., Videbech, P., Hedegaard, M., Salvig, D. J., & Secher, NJ. (2000). Postpartum depression: identification of women at risk. Pubmed.gov. 2000 Octóber107(10): bls.1210-7. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/sites/entrez/11028570?dopt=Abstract&holding=f1000,f1000m,isrctn

Karlsdóttir, Sigfríður I., Freysteinsson, H., Jónsdóttir, S. S. & Guðjónsdóttir, M. (2007). Tengsl þunglyndiseinkenna og foreldrastreitu við þriggja mánaða aldur barns við heilsufar, f&e acute;lagslegra stöðu og líðan kvenna á meðgöngu. Ljósmæðrablaðið, Júní nr.: 85(1): bls17-27

http://lsh.openrepository.com/lsh/handle/2336/13982

Lýðsdóttir, L. B., Ólafsdóttir, H., & Sigurðsson, J. F. (2008). Fæðingarþunglyndi : algengi, afleiðingar og helstu áhættuþættir.

http://en.scientificcommons.org/49043685

O’Hara, Michael, W. & Swain, Anette M. (1996). Rates and risk of postpartum depression—a meta-analysis. International Review of Psychiatry . Bindi 8, No. 1, bls. 37-54

http://informahealthcare.com/doi/abs/10.3109/09540269609037816

 

Höfundur greinar