Nálastungumeðferð hefur áhrif á fleira en sársauka

Nálastungumeðferð (akúpúnktúr) er árþúsunda gömul kínversk lækningaaðferð þar sem nálum er stungið gegnum húð á vissum stöðum, þær hreyfðar á ákveðinn hátt og látnar vera kyrrar í tiltekinn tíma. Þessi aðferð hefur verið notuð í Austurlöndum fjær, einkum í Kína, Kóreu og Japan, bæði til þess að greina sjúkdóma og fyrirbyggja þá eða lækna. Fyrstu ritaðar heimildir um nálastungulækningar í Evrópu eru frá því um miðja sautjándu öld. Snemma á nítjándu öld var farið að kenna þær við háskólasjúkrahús í París en Frakkland var á þessum tíma nýlenduveldi (m.a. í Indókína). Á seinni hluta nítjándu aldar var skrifuð doktorsritgerð um nálastungumeðferð við háskólann í Uppsölum í Svíþjóð.

Í Kína var nálastungulækningum lítið beitt í heila öld en aðferðin var hafin til virðingar á ný um miðja þessa öld með kínversku menningarbyltingunni. Á síðustu tveimur áratugum hafa augu lækna og vísindamanna á Vesturlöndum verið að opnast fyrir þessari aðferð. Í Svíþjóð heimiliðu heilbrigðisyfirvöld nálastungur árið 1982 sem lið í lækningum við sársauka en nýjungar í lífeðlisfræði sársauka höfðu rennt vísindalegum stoðum undir gildi þessarar aðferðar sem virðist hafa áhrif á taugaboðefni í miðtaugakerfinu og m.a. örva myndun endorfína (1,2). Nálastungulækningar urðu viðurkennd meðferð við sársauka þó svo að hefðbundin kínversk læknisfræði mæli með notkun meðferðarinnar gegn fleiru en sársauka (3).

Dauðsföll hafa orðið í kjölfar nálastungumeðferðar í höndum leikmanna á Vesturlöndum. Stungið hefur verið í innri líffæri og einnig eru dæmi um blóðsýkingu sem leitt hefur mikið veikt fólk til dauða. Einnig hafa aðrar misalvarlegar afleiðingar rangrar meðferðar eða rangra ábendinga verið skráðar. Því hefur verið lögð á það rík áhersla að þeir sem stunda nálastungumeðferð hafi grunnþekkingu í líffærafræði, smitvörnum og sjúkdómsgreiningu svo forðast megi alvarleg óhöpp. Sá sem stundar nálastungur verður að vita vel um takmarkanir meðferðarinnar og hafa þekkingu til að greina milli sjúkdóma sem geta gefið svipuð einkenni. Hann má heldur ekki gleyma öðrum lækningaaðferðum sem kunna að eiga betur við eða geta jafnvel skipt sköpum fyrir hinn sjúka. Af þessum ástæðum hafa heilbrigðisyfirvöld mælt með því að nálastungur séu einungis stundaðar af læknum (og tannlæknum) sem hafa aflað sér sérþekkingar á þessu sviði. Í sumum löndum, m.a. í Svíþjóð, hefur í einstaka tilvikum verið veitt undanþága til hjúkrunarfræðinga og sjúkraþjálfara til að beita þessari lækningaaðferð eftir sérstakt nám, enda starfi þessir aðilar þá í náinni samvinnu við lækni.

Á ráðstefnu um óhefðbundnar lækningar sem haldin var í Róm í október 1990 rakti fulltrúi Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) stefnu stofnunarinnar varðandi nálastungumeðferð (4). Í máli hans kom fram að stofnunin viðurkennir nálastungumeðferð og hvetur til frekari rannsókna á áhrifum hennar. Á ráðstefnunni kom fram að í Evrópu legðu 88.000 einstaklingar stund á nálastungumeðferð, þar af væru 70% með læknismenntun. Var niðurstaða ráðstefnunar sú að nálastungulækningar gætu ekki lengur kallast óhefðbundnar.

Hér verður ekki fjallað almennt um nálastungumeðferð sem lækningaaðferð við sársauka, enda hefur það verið gert áður á þessum vettvangi (sjá Heilbrigðismál 1/1988 (5)), heldur sagt frá úttekt á áhrifum nálastungumeðferðar við astma og síðan sagt frá rannsóknum sem gerðar hafa verið í Svíþjóð á síðustu árum á áhrifum nálastungumeðferðar á sjúklinga með kransæðasjúkdóm annars vegar og hins vegar á sjúklinga sem fengið hafa heilablóðfall (slag).

Ekki gott við astma?

Því hefur lengi verið haldið fram að nálastungumeðferð hjálpi sumum sjúklingum með astma. Fyrir rúmum tveimur árum birtist grein í tímaritinu Thorax þar sem farið var yfir þrettán rannsóknir sem birst höfðu um áhrif nálastungumeðferðar á sjúklinga með astma (6). Leitast var við að meta rannsóknirnar á gagnrýninn hátt eftir ströngum fræðilegum forsendum. Niðurstöður þeirra rannsókna sem skástar þóttu stönguðust á. Samkvæmt sumum þeirra gagnast nálastungumeðferð við astma en samkvæmt öðrum ekki. Höfundar draga þá ályktun að ekki sé nægilega traustur vísindalegur grunnur fyrir þeirri fullyrðingu að nálastungumeðferð hafi áhrif á astma.

Hagstæð áhrif á hjartaöng

Fyrir þremur árum birtist grein í European Heart Journal um niðurstöður rannsóknar sem gerð var í Gautaborg í Svíþjóð á áhrifum nálastungu á brjóstverki vegna kransæðasjúkdóms (hjartaöng) (7). Til rannsóknarinnar var valinn 21 sjúklingur með stöðuga hjartaöng við áreynslu, a.m.k. fimm köst á viku síðustu sex mánuði fyrir rannsókn, þrátt fyrir mikla lyfjameðferð. Nálastungumeðferð var veitt þrisvar í viku í fjórar vikur hjá helmingi sjúklinganna, hinn helmingurinn fékk lyfleysu (placebo). Síðan liðu tvær vikur án meðferðar. Þá fengu þeir sem áður fengu lyfleysu nálastungu og öfugt í fjórar vikur. Notuð var hefðbundin kínversk nálastungutækni án raförvunar.

Fjórtán sjúklinganna fengu færri köst af hjartaöng meðan á nálastungumeðferð stóð miðað við þá sem voru á lyfleysumeðferð. Hjá sjö sjúklingum var fjöldi hjartakasta sá sami. Meðalfjölda brjóstverkjakasta á viku hverri meðan á nálastungumeðferð stóð fækkaði um 50% en þeim fækkaði aðeins um 12% meðan á lyfleysumeðferð stóð. Enginn munur var á líkamsþreki sjúklinga á álagsprófi eftir nálastungu, borið saman við lyfleysu, en hins vegar þoldu þeir sem fengu nálastungumeðferð mun meira álag en lyfleysusjúklingarnir áður en þeir fundu til brjóstverkja. Þá komu einnig fram breytingar á hjartalínuriti við hámarksálag nálastungu. Mun fleiri sjúklingar sem höfðu fengið nálastungumeðferð höfðu útskrifast og gátu farið heim þremur mánuðum eftir heilaáfallið, samanborið við viðmiðunarhópinn.

Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til að sjúklingar sem fá nálastungumeðferð nái fyrr árangri hvað varðar hreyfanleika, jafnvægi og athafnir daglegs lífs og öðlist auk þess meiri lífsgæði.

Höfundar velta því fyrir sér hvaða áhrif nálastungumeðferðarinnar það eru sem leiða til aukinnar starfshæfni sjúklinganna. Örvar hún til betri og hraðari afturbata skemmdra (en ekki dauðra) taugafrumna á svæðinu milli heiladrepsins og heilbrigðs heilavefs? Bent er á að nálastungur eru ein tegund skyntaugaörvunar og þar sem raförvun var einnig beitt er líklegt að stór svæði hafi örvast. Þekkt er að skyntaugaörvun virkjar margar útboðstaugabrautir sem geta valdið breyttri virkni í miðtaugakerfinu. Þá benda höfundar á að frekari rannsókna sé þörf á áhrifum nálastungna og annarra tegunda skyntaugaörvunar á starfrænan „sveigjanleika heilans, áður en hægt sé að mæla með nálastungu sem meðferð hjá lömuðum eftir heilablóðfall.

Einu ári eftir að hafa fengið heilablóðfall bjuggu 25 af 28 lifandi sjúklingum sem fengu nálastungumeðferð á heimilum sínum. Í viðmiðunarhópnum bjó 21 af 32 eftirlifandi sjúklingum heima. Minni þörf fyrir langvistun og endurhæfingu hjá nálastunguhópnum leiðir til minni kostnaðar og hafa höfundar reiknað út að sparnaðurinn nemi 1,9 milljón króna á hvern sjúkling.

Helstu heimildir:

1. S. Andersson: Physiological principles of acupuncture: Í: Petti F, ed. Proceedings of the forum on non-conventional medicines and the acupuncture European workshop. Rome:Edizioni Paracelso 1991: 103-108.

2. S. Andersson og C-A. Carlsson: Utredning: Akupunktur bör endast få utövas av sjukvårdspersonal. Läkartidningen 1982; 79: 4384-4389.

3. N. Lynöe og L. O. Bygren: Akupunktur vid sjukdomstillstånd bör prövas. Läkartidningen 1989;86: 3662-3670.

4. O. Akerele: The role of acupuncture in the WHO traditional medicine programme. Í: Petti F, ed. Proceedings of the forum on non-conventional medicines and the acupuncture European workshop. Rome: Edizioni Paracelso, 1991: 157-161.

5. Magnús Ólason: Nálastungur. Viðurkennd sársaukameðferð. Heilbrigðismál 1988; 36 (1): 12-16.

6. J. Kleijnen, G. ter Riet og P. Knipschild: Acupuncture and asthma: A review of controlled trials. Thorax 1991; 46: 799-802.

7. A. Richter, J. Herlitz og Å. Hjalmarson: Effect of acupuncture in patients with angina pectoris. European Heart Journal 1991; 12:175-178.

8. K. Johansson og fleiri: Akupuntkurbehandling vid slaganfall. Läkartidningen 1993;90:2597-2600.

9. K. Johansson og fleiri: Can sensory stimulation improve the functional outcome in stroke patients? Neurology 1993;43: 2189-2192.

Heilbrigðismál nr. 1 1994
Höfundur: Magnús Ólason

Höfundur greinar