Leitar þú aukinnar lífsorku og jafnvægis í lífi þínu, leik og starfi? Taktu þér þá sæti orkumálaráðherra. Hlutverk þitt sem slíkur er að bera fulla ábyrgð á orkubúskapnum þínum; að vernda og efla lífsorku þína til skemmri tíma og langframa.
Þú hefur allt val og vald til að verða æðsti yfirmaður orkumála í þínu lífi. Ó, jú. Víst! Ef ekki þú, hver þá?
Byrjaðu á að spyrja þig: Hvað gefur mér orku? Hvað rænir mig orku? Hvernig líður mér á skalanum 1-10, andlega, líkamlega og félagslega? Vitirðu svarið hefur þú aukin lífsgæði í hendi þér. Lífsorka er lífsgæði.
Lífsorka þín ræður úrslitum um streitustig þitt sem og hvernig þér líður og vegnar í lífinu. Með skynsamlegri orkustjórnun er tiltölulega einfalt og ódýrt að stýra streitunni ef við tileinkum okkur ýmis gagnleg streituráð. En forsenda þess að þau virki er að við virkjum ,,S-in 4“: Sjálfsþekkingu, sjónsköpun, skipulag og sjálfsaga.
Sjálfsþekking
Árangursrík streitustjórnun hefst á innri stefnumótunarvinnu þar sem þú kortleggur fyrst orkustig A í dag og svo orkustig B sem þú sækist eftir. Sem orkumálaráðherra ber þér að þekkja þína helstu orkuþjófa/streituvalda og orkugjafa/streituvarnir. Streituvaldar hækka streituhormónið kortisól en orkugjafarnir vinna gegn neikvæðum áhrifum þess og stuðla að vellíðan. Vellíðan er verðmæti, hún er forsenda velgengni og sáttar á hvaða sviði lífsins sem er.
Meðal helstu orkuþjófa fólks eru streita, svefnleysi, ójafnvægi, lágt sjálfsmat, álag, áföll, kvíði, erfið samskipti, niðurrif, pirringur, neikvæðni, hörmungarhyggja, samviskubit, frestunarárátta, fullkomnunarárátta, ábyrgðarkennd, óraunhæfur samanburður, afbrýðisemi, meðvirkni, einmanaleiki, veikindi, samfélagsmiðlar, fjárhagur og skortur á tíma, skilningi og hlustun.
Helstu orkugjafar eru ,,H-in 4“: Hugarfar, hvíld, hreyfing og hamingjustundir. Gættu hugsana þinna. Þegar þú hugsar ertu um leið að hlusta, vandaðu því viðhorf þitt og vertu bjartsýnn orkumálaráðherra sem trúir á eigin getu. Nýttu orkuna í það sem þú raunverulega getur haft áhrif á og slepptu takinu á því sem þú stjórnar ekki. Tryggðu næga hvíld með góðum nætursvefni, daghvíld og síðast en ekki síst heilahvíld þar sem þú kúplar þig út úr dagsins amstri og gerir eitthvað sem þér finnst gefandi. Hófleg hreyfing er allra meina bót en athugaðu að þegar álag er mikið er ekki rétti tíminn til þess að stunda líkamsrækt með hámarksákefð því að það viðheldur háu streitustigi. Andaðu frekar að þér stórfengleika líðandi stundar í náttúrunni. Skapaðu nægt rými fyrir hamingjustundir með sjálfsumhyggju, tjáningu tilfinninga þinna, þakklæti, stuðningi og tengslum við annað fólk þar sem virðing, traust og vinsemd er í forgrunni.
Þitt líf – þín leið
Sem orkumálaráðherra metur þú daglega stöðuna á orkubúskapnum. Listaðu upp tvo dálka og skráðu orkugjafa þína plúsmegin og orkuþjófana mínusmegin. Skoðaðu svo hvaða orkugjöfum þú getur gefið meira vægi og hvaða mínusum þú getur fækkað. Kappkostaðu að takmarka þær aðstæður, samskipti og verkefni sem draga úr þér orku. Skapaðu frekar umhverfi þar sem þú getur stækkað þig og blómstrað.
Sjónsköpun – óskastaða um jafnvægi
Í upphafi skyldi endinn skoða. Gerðu þér skýrt í hugarlund hver óskastaða þín (B) um jafnvægi er og af hverju þú vilt komast þangað. Þegar tilgangurinn er skýr er auðveldara að ná tilskildu markmiði um farsæla orkustjórnun. Lokaðu augunum og notaðu sjónsköpun til að sjá þig skýrt fyrir þér í hinu nýja óskahlutverki, eins og það sé raunveruleikinn. Hvernig lítur líf þitt út þegar þú ert í jafnvægi? Stækkaðu þá mynd.
En hvernig kemstu frá A til B?
Skipulag
Með skipulagi getur þú raungert draumsýn þína um betri líðan. Forsenda farsælla breytinga er að þú breytir venjum þínum og viðhorfum. Sérhvern dag hefurðu tækifæri til að útbúa þína eigin einstaklingsbundnu ,,streituvarnaráætlun“. Þar skráir þú árangursríkari leiðir til þess að bregðast við álagi framvegis. Það er misjafnt hvað hentar hverjum og einum en þú þekkir þig best sjálfur. Gerðu stundaskrá fyrir vikuna þar sem streituvarnirnar/orkugjafarnir eru í forgangi.
Sjálfsagi
Sjálfsagi ræður úrslitum um hvort þú náir árangri við orkustjórnunina en hér reynir jafnframt mest á þig. Segjum sem svo að þú hafir ákveðið að fara snemma að sofa en áhugaverð mynd í sjónvarpinu freisti. Þá minnir þú þig á upphaflega tilganginn og breytir samkvæmt því.
Lögmálið um lífsorku og lífsgæði
Vissulega koma álagstarnir í lífi orkumálaráðherra og þú þarft að vinna yfirvinnu. Það er í góðu lagi svo framarlega sem um undantekningu sé að ræða og að þú náir að vinna upp álagstímabilið með aukinni orkuhleðslu. Hin fullkomnasta orrustuflugvél á áætlun frá Íslandi til Afríku kæmist ekki nema til Færeyja á 3% tanki rétt eins og við mannfólkið kæmumst varla fram úr rúminu. Það er ástæða fyrir því að rúm og sængurföt eru framleidd.
Kæri tilvonandi orkumálaráðherra!
Launin fyrir það að bera virðingu fyrir lífsorku þinni og sólunda henni ekki eru ómetanleg – aukin lífsgæði fyrir þig, þá sem þú elskar og elska þig.
Orkmálaráðherra (þú) lengi lifi! Húrra!
Styttri útgáfa af greininni birtist líka á mbl.is þann 27.11.2020
Höfundur greinar
Aldís Arna Tryggvadóttir, ACC markþjálfi og streituráðgjafi
Allar færslur höfundar