Öruggir svefnstaðir ungbarna

Foreldrar velja svefnstaði fyrir ungbörn sín og því þarf að huga vel að því hvaða svefnstaðir eru öruggir fyrir þau. Eitt helsta ágreiningarefni varðandi svefn ungbarna tengist ákvörðun foreldra um svefnstað þeirra. Helstu ákvörðunarþættir foreldra í tengslum við svefnstaði ungbarna eru öryggi, þægindi, svefngæði og almenn vellíðan fjölskyldu.

Hvaða svefnstaðir eru æskilegir?

Öruggasti svefnstaður ungbarns samkvæmt ráðleggingum Embættis landlæknis og bandaríska barnalæknafélagsins er talinn vera í eigin vöggu og liggjandi á bakinu. Ráðlagt er að ungbarnið sofi í sama herbergi og foreldrar að lágmarki fyrstu 6 mánuðina en það tengist minni áhættu á vöggudauða. Ekki er mælt með að ungbarn liggi á hliðinni þar sem líkamsbygging þess ýtir undir að barnið snúi sér frá hliðinni yfir á kviðinn. Þegar börnin eru vakandi undir eftirliti foreldra geta þau legið á kviðnum til að þróa viðeigandi vöðvastyrk til þess að byrja að skríða. Ef hugga þarf ungbarn eða gefa því brjóst á nóttunni er í lagi að gera það í rúmi foreldra en síðan er æskilegt að leggja það aftur í eigin vöggu að brjóstagjöf lokinni.

Rúm og undirlag

Börn undir 1 árs eiga að sofa á stinnu undirlagi, án kodda og með eigin sæng. Huga þarf að því að sæng geti ekki farið fyrir vit ungbarnsins og að herbergishiti sé ekki of hár en æskilegur herbergishiti er frá 21,9°C til 23,3°C. Laus rúmföt eins og lök og teppi þurfa að vera vel skorðuð undir dýnunni í vöggunni til að hindra að þau fari fyrir vit ungbarnsins. Náttgallar sem líta út eins og svefnpokar eru gagnlegir til að hylja ungbarnið án hættunnar að hylja vit barnsins. Stuðkantar og ungbarnahreiður eru ekki talin örugg hjá ungbörnum sem eru ekki búin að þróa eiginleikann að geta snúið sér sjálf þar sem hætta er á að barnið liggi með andlit við mjúka kanta og andi að sér sama lofti og það hefur andað frá sér. Að auki er ráðlagt frá því að setja mjúka hluti undir sofandi ungbarnið eins og púða, bútasaumsteppi eða sauðagæru.

Útisvefn

Ef foreldrar kjósa að láta barnið sofa úti er mælt með að bíða með það þar til barnið er orðið 3 vikna eða a.m.k 3 kg á sumrin og fjögurra vikna eða a.m.k 4 kg á veturna. Ekki er mælt með því að börn sofi úti í frosti eða roki og fylgjast þarf með að svifryksmengun fari ekki yfir heilsuverndarmörk, þ.e. yfir 50 míkrógrömm/rúmmetra. Mikilvægt er að hafa vagninn í skugga og barnið léttklætt á dögum þegar mikil sól er. Nota á viðeigandi hlífðarnet yfir vagninn en ekki má nota þykk teppi eða flíkur yfir vagnopið þar sem það getur hindrað að nægt súrefni berist til barnsins.

Samsvefn

Embætti landlæknis ráðleggur foreldrum að deila ekki rúmi með ungbörnum sínum fyrstu vikurnar. Það getur aukið hættuna á að eitthvað hylji vit ungbarnsins, að það andi að sér sama lofti og það hefur andað frá sér og ofhitnun. Ekki á að deila rúmi með ungbarni ef það er vaxtarskert eða léttburi. Eldri systkini sem ekki skilja hættuna eða gæludýr ættu aldrei að vera í sama rúmi og ungbarnið. Ungbarn ætti aldrei að deila rúmi með foreldrum ef að einhver í rúminu reykir, hefur neytt áfengis eða annarra róandi lyfja þar sem það getur aukið líkur á vöggudauða.

Ef foreldrar ákveða að deila rúmi með ungbarni er mikilvægt að útiloka þá áhættuþætti sem hafa verið teknir fram hér að ofan og gæta vel að svefnöryggi barnsins. Ungbarnið á að vera liggjandi á bakinu og gæta þarf þess að leggja ungbarnið aftur á bakið að brjóstagjöf lokinni. Öruggast er að setja dýnu á gólfið í mitt herbergi, fjarri veggjum og öðrum húsgögnum. Fjarlægja á höfuðgafl, fótagafl og hliðargafla þar sem algengustu slysin verða þegar ungbörnin festast á milli dýnunnar og gafls/ veggjar eða á milli dýnunnar og annarra húsgagna. Dýnan á að vera með laki sem er vel skorðað og strekkt, hafa létta sæng og stífa kodda. Aðrir lausamunir eða tuskudýr ættu ekki að vera í rúminu. Ákveðin hætta er á að fullorðinn einstaklingur leggist ofan á ungbarnið og hættan eykst ef margir eru í sama rúmi. Því er talið öruggara að móðirin deili aðeins rúmi með ungbarninu ef hægt er.

Heimildir

Auður Hávarsdóttir og Laufey Rún Ingólfsdóttir. (2019). Svefn og svefnstaðir ungbarna og áhrif á líðan foreldra [BS ritgerð, Háskóli Íslands]. Skemman.

Click to access Svefn%20og%20svefnsta%c3%b0ir%20ungbarna%20og%20a%cc%81hrif%20a%cc%81%20li%cc%81%c3%b0an%20foreldra.pdf

Embætti Landlæknis. (2016). Fræðsla og stuðningur í heimavitjun. Sótt af

https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item29833/Fr%C3%A6dsla%20og%20studningur%2 0%C3%AD%20heimavitjun.pdf

McKenna, J.J. (2007). Sleeping with Your Baby: A Parent’s Guide to Cosleeping. Platypus Media.

Slysavarnarfélagið Landsbjörg. (e.d.). Ungbarn lagt til svefns. Sótt af

https://gamli.landsbjorg.is/slysavarnadeildir/born/ungbarn-lagt-til-svefns

Höfundur greinar