Hvað er ristilspeglun?
Ristilspeglun er rannsókn á ristli til skoðunar á útliti og ástandi hans að innan, um leið er hægt að taka sýni úr slímhúð og fjarlægja sepa ef þeir finnast. Rannsóknin er framkvæmd með löngu sveigjanlegu speglunartæki sem sett er upp í endaþarm og síðan þrætt upp í ristilinn.
Mjög mikilvægt er að undirbúningur sé góður og ávallt skal fara eftir fyrirmælum í því efni.
Rannsóknin tekur frá 15-60 mín. allt eftir því hve greiðlega rannsóknin sjálf gengur fyrir sig og hvort og hve mikið af sepum eru fjarlægðir.
Hvaða gagn er að ristilspeglun?
Hún gerir kleift að skoða slímhúðina alla leið gegnum ristilinn, legu æða, sáramyndun, sepa, hnúða og æxli. Einnig er hægt að taka sepa og sýni úr slímhúðinni gegnum sjána, ef þörf er á til sjúkdómsgreiningar.
Hvernig er ristilspeglun framkvæmd?
Legið er á vinstri hlið og speglunartækið sett upp um endaþarm og síðan þrætt upp í ristilinn sem oft er langur og bugðóttur. Til að koma tækinu þessa erfiðu leið getur þurft að dæla inn lofti. Þetta veldur samdráttarverkjum og þrýstingi sem hægt er að ráða bót á sé lækni sagt frá því.
Þegar speglunin er gerð þarf oftast að setja upp nál í handarbakið og og gefa róandi lyf og verkjalyf. Ef róandi lyf eru gefin má ekki aka ökutæki í 12-24 klst eftir að þau hafa verið gefin.
Eftir rannsóknina er nauðsynlegt að hvílast í smá stund en venjulega er hægt að ljúka við að jafna sig heima við. Ef slímhúðarsepar eru fjarlægðir þarf aðgát vegna blæðingarhættu.
Höfundur greinar
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar