Ristruflun

Ristruflun er algengt vandamál en á sama tíma mjög viðkvæmt og eiga margir karlmenn erfitt með að opna sig og leita sér hjálpar. Ristruflun getur haft gríðarleg áhrif á sálarlíf og jafnvel lífsgæði þess sem af henni þjáist, en auk þess getur hún haft mikil áhrif á samband og samskipti við maka sem sannarlega finnur yfirleitt einnig vel fyrir þessum vanda.

Ristruflun getur lýst sér með ólíkum hætti á milli manna, en talað er um ristruflun ef erfiðleikar eru við að ná stinningu eða viðhalda stinningu háir viðkomandi í kynlífi með eða án maka.

Það að ná og viðhalda stinningu lims er háð flóknu samspili taugakerfis, hormóna, sálarlífs og æðakerfis. Ef truflun verður á einu eða fleiri af þessum kerfum getur það valdið stinningarvanda og getur það í sumum tilfellum verið fyrsta vísbending um undirliggjandi sjúkdóm, s.s. hjartasjúkdóm eða sykursýki. Orsökum ristruflana er gjarnan skipt í tvo flokka eftir því hvort um sé að ræða truflun vegna líkamlegra þátta eða vegna sálrænna/umhverfistengdra áhrifa. Oft á tíðum spilar þetta þó saman og getur ristruflun af líkamlegum orsökum til að mynda valdið kvíða fyrir kynlífi tengda ristrufluninni og þar með aukið á vandann. Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir algengar orsakir ristruflana

Orsakir ristruflana

Sálrænar/umhverfistengdar orsakir

  • Streita
  • Þunglyndi
  • Kvíði
  • Samskiptavandi við maka
  • Áfengisneysla
  • Reykingar
  • Ofþreyta
  • Lyfjanotkun
  • Óhófleg klámnotkun

Líkamlegar orsakir

  • Hjartasjúkdómur
  • Meðferð við blöðruhálskrabbameini
  • Sykursýki
  • Ofþyngd
  • Skaði á kynfærum
  • Taugaskaðieða sjúkdómur
  • Lækkun testosteróns í blóði
  • Brenglun á hormónastarfsemi
  • Hækkað kólesteról
  • Hækkaður blóðþrýstingur
  • Æðakölkun
  • Peyronie´s sjúkdómur/limskekkja
  • Einkenni tengd góðkynja stækkun á Blöðruhálskirtli
  • Aukaverkun lyfja

Algengi ristruflana

Rannsóknir hafa sýnt að um 40% karlmanna yfir 40 ára upplifa ristruflanir af einhverjum toga og eykst tíðnin með um 10% fyrir hvern áratug þar eftir og verður þannig 50% við fimmtugt og svo koll af kolli. Einungis um 5% 40 ára karlmanna glíma þó við algert getuleysi (complete erectile dysfunction), 10% karlmanna á sjötugsaldri og 15% á áttræðisaldri. Ástæðan fyrir aukinni tíðni ristruflanna eftir aldri er fjölþætt og skýrist að mestu leyti af eðlilegum líffræðilegum breytingum, minnkaðri framleiðslu karlhormóna, aukinni tíðni kvilla/sjúkdóma með sterk tengsl við stinningarvanda (s.s. hækkaður blóðþrýstingur eða kólesteról) og aukaverkanir frá lyfjum vegna þessa.

Forvarnir

Eitt besta ráðið þegar kemur að barátttunni við stinningarvanda er að huga vel að fyrirbyggjandi aðgerðum. Hér má finna helstu ráð til þess að draga úr ristruflunum:

  • Stunda heilbrigt líferni
  • Hætta að reykja
  • Hreyfa sig
  • Borða holla og fjölbreytta fæðu
  • Gæta vel að andlegri líðan
  • Draga úr streitu/kvíða
  • Minnka áfengisneyslu
  • Reglulegt eftirlit/heilsufarsskoðanir

Meðferðir

Viss vitundarvakning um stinningarvanda hefur átt sér stað síðustu ár og því er blessunarlega að aukast að karlmenn leiti sér aðstoðar. Nauðsynlegt er að ræða við maka opinskátt og skoða vilja og væntingar beggja aðila til áframhaldandi kynlífs.

Meðferð við ristruflun fer eftir því hver undirliggjandi orsök vandans er og því er það mikilvægt skref að leita sér hjálpar. Yfirleitt er heilsugæslan fyrsti viðkomustaður þegar hjálpar er leitað og getur þá heimilislæknir veitt ráðgjöf og lyfjameðferð eigi það við, auk þess sem hann getur sent tilvísun áfram til sérfræðings sé þess þörf (s.s. þvagfæraskurðlæknis eða sálfræðings).

Það eru nokkrar mismunandi tegundir meðferða í boði; sumar einfaldar en aðrar flóknari og kostnaðarsamari.

  • Lyfjameðferð: um munn (Viagra/Sildenafil), Prostaglandín sprautur (gefið í reður) eða þvagrásastílar
  • Kynlífsráðgjöf
  • Hormónameðferð: Testósterón er ýmist gefið með sprautu í vöðva, um munn eða um húð með geli eða sérstökum lyfjaplástrum (þarf að skipta um daglega)
  • Risdælur með loftæmingu (vacuum)
  • Prótesur

Af þessu sést að truflanir við stinningu lims er í raun mjög algengt vandamál og er það eitthvað sem flestir karlmenn upplifa á einhverjum tímapunkti lífsins, með hækkandi tíðni eftir aldri.

Þetta þýðir þó alls ekki það að ristruflanir séu sjálfsagður hluti af því að eldast og óumflýjanlegt ástand, heldur eru fjölmargar leiðir til þess að leysa þennan vanda, bæta stinningu og þar með bæði kynlíf og sjálfsmynd. Ef þú eða maki þinn hefur upplifað ristruflun er upplagt að leita til heimilislæknis og fá ráðgjöf.

Höfundur greinar