Settu rafhlöðurnar í hleðslu áður en þær verða tómar!

Öll viljum við koma vel fyrir í vinnunni og gefa af okkur þá ímynd að við séum góðir og duglegir starfsmenn. Þessi löngun okkar getur hinsvegar haft það í för með sér að við gefum af okkur meira en við í raun og veru getum.

Þrautseig viðvera (e. presenteeism – ég þigg gjarnan betri þýðingu) felur í sér að mæta til vinnu þrátt fyrir veikindi eða vinna fleiri tíma en nauðsyn er. Mörgum gæti þótt það ákveðin hollusta við vinnustaðinn að starfsmaður sé tilbúinn til þess að leggja þetta á sig en í raun og veru þýðir þetta að starfsmaðurinn geti verið óöruggur um starf sitt og sína frammistöðu.

Ýmsar rannsóknir benda til þess að tengsl séu milli þrautseigrar viðveru og kulnunar (e. burnout). Sjá nánar um kulnun hér: https://doktor.is/grein/kulnun-eda-throt-burnout

Starfskröfur

Auknar starfskröfur auka sömuleiðis þrautseiga viðveru. Þegar starfsmenn upplifa örmögnun, þá reyna þeir að bæta fyrir það með ýmsum hætti – t.d. með því að vera lengur í vinnunni, eyða lengri tíma í verkefni og jafnvel taka vinnuna með sér heim, sem á endanum eykur örmögnun þeirra. Gagnkvæm tengsl virðast vera milli örmögnunar og þrautseigrar viðveru; þ.e.a.s. þrautseig viðvera leiðir af sér aukna örmögnun og örmögnun leiðir til þess að fólk eykur viðveru sína til að bæta upp fyrir það, ákveðinn vítahringur!

Rannsóknir hafa sýnt fram á að lengri vinnutími skilar sér í verri framleiðni og hefur neikvæð áhrif á starfsfólk. Sömuleiðis hafa aðrar rannsóknir sýnt fram á jákvæð áhrif þess að stytta vinnuvikuna. Sænsk rannsókn frá 2016, þar sem vinnuvikan var stytt um 25% niður í 30 klukkustundir sýndi fram á jákvæð áhrif þess á svefn, þreytu og streitu bæði í vinnu og utan vinnu, borið saman við samanburðarhóp.

Dæmisaga

Ímyndum okkur nú að það sé mánudagsmorgun, vekjaraklukkan hringir. Þú teygir út handlegginn og ýtir á blunda takkann Þú liggur í rúminu í nokkrar mínútur og íhugar tilgang lífsins. Vekjaraklukkan hringir aftur, þú nuddar stírurnar úr augunum og stígur úr rúminu.

Um leið og þú stendur upp finnur þú hvernig höfuðið ætlar að klofna í tvennt. Þú staulast inn á baðherbergi og finnur tvær verkjatöflur sem þú skellir í þig. Þegar töflurnar renna niður finnurðu hvað hálsinn er aumur og stokkbólginn. Mest af öllu langar þig bara að skríða aftur upp í rúm.

En þú hugsar með þér: „Ég get ekki hringt mig inn veika/n á mánudegi. Það eiga allir eftir að halda að ég sé bara þunn/ur og geti ekki mætt út af því“

eða

„Æ, ég er nú ekki svo veik/ur, þýðir ekki að vera með einhvern aumingjaskap.“

eða

„Það er svo mikið að gera og ég vil ekki leggja það á aðra.“

Þú hendir þér í föt og finnur trefilinn sem þú fékkst í jólagjöf fyrir þremur árum, herðir hann vel að hálsinum og heldur af stað til vinnu.

Í vinnunni situr þú við skrifborðið og pikkar á lyklaborðið milli þess sem þú bryður hálsbrjóstsykur og reynir að slá nýtt met í hve lengi þú getur notað eitt snýtubréf.

Dagurinn líður og senn er vinnudagurinn búinn. Þú heldur heim á leið, örmagna og uppgefin/n. Vikan líður og þú heldur þér gangandi með kaffi og verkjalyfjum. Ruslatunnan er uppfull af snýtubréfum og þér er farið að líða eins og styrktaraðila fyrir Kleenex.

Þú ert búin/n að vera um klukkustund lengur á hverjum degi til að ná að klára allt.

Á föstudegi, í lok vikunnar, tekurðu eftir því að það tveir samstarfsmenn þínir eru fjarverandi og höfðu hringt sig inn veika.

Hvað er til ráða?

Þegar þú ert veik/ur þá minnka afköstin, gæði vinnunnar hrakar og líkurnar á mistökum aukast. Við könnumst líklega flest öll við það að notast við raftæki sem notast við rafhlöður, líkt og hleðsluborvélar, rakvélar eða rafmagnstannburstar. Með illa hlaðnar rafhlöður þá virkar borvélin kannski en krafturinn er miklu minni og maður er mun lengur að koma skrúfunni í vegginn og þú getur gleymt því að bora í múrvegg ef rafhlaðan er að verða tóm.

Ný vika hefst, það er aftur kominn mánudagur og þú ert loksins farin/n að ná þér. Merkilegt nokk þá eru samstarfsfélagar þínir mættir til vinnu líka og virðast mun sprækari en þú.

Þú ert mun fljótari að hlaða rafhlöðurnar ef þær eru ekki að verða tómar þegar þú setur þær í hleðslu!

Þegar þér byrjar að líða illa líkamlega, þá eru allar líkur á því að þér fari að líða illa andlega líka, sem getur svo haft áhrif á skap þitt, hvernig þú kemur fram við samstarfsmenn og viðhorf þitt til vinnustaðarins. Samstarfsmenn og fólk sem þú umgengst er einnig í aukinni hættu á að smitast af sömu veikindum og þú sem veldur að lokum meiri kostnaði fyrir vinnuveitandann en ef þú hefðir tekið þér nokkra daga í veikindafrí.

Ólíkt því þegar þú varst barn, þá eru foreldrar þínir líklega ekki að fylgjast lengur með því hvernig þú sefur, hvað þú borðar og hvernig þér líður.

Ef þú fylgist ekki með eigin heilsu og vellíðan, hver ætlar þá að gera það?

Settu rafhlöðurnar í hleðslur áður en þær eru orðnar tómar!

——

Frekara lesefni

Working hours and productivity – https://doi.org/10.1016/j.labeco.2017.03.006

The productivity of work – discussion paper http://ftp.iza.org/dp8129.pdf

The impact of reduced worktime on sleep and perceived stress – A group randomized intervention study using diary data DOI: 10.5271/sjweh.3610

Höfundur greinar