Það er ljóst að vetur konungur er farinn að banka á dyrnar, birtuskilyrði eru minni og það er ákveðinn andi í loftinu. Hann segir manni, jæja þá er að undirbúa sig vel fyrir veturinn. Þetta er yfirleitt skemmtilegur tími og það er mikið að gera. Verkefni í skóla og atvinnulífi fullum gangi og má líkja þessu við törn fram að jólum þar sem við tökum kærkomna hvíld frá amstri dagsins til að eiga inni orku fram á vorið.
Það er þó ákveðinn hópur fólks sem glímir við lyndisraskanir sem tengjast sérstaklega þessum tíma. Þeir finna þá fyrir minni orku, pirringi, samstarfsörðugleikum, áhugaleysi, svefntruflun, einbeitingarskorti, breytingum á matarlyst og þar með þyngd auk vanlíðan. Það eru líka þeir sem þjást af skammdegisþunglyndi sem hellist yfir þá með haustinu og fer jafnvel versnandi fram að vori þegar dag tekur að lengja á ný. Oftsinnis er þetta fólk sem er ekki í neinum vanda með líðan sína á öðrum tímum ársins. Það skilur hvorki upp eða niður í því hvers vegna í ósköpunum er verið að gera þeim lífið leitt á þessum „lengsta“ tíma ársins. Þá eru einnig til einstaklingar sem finna fyrir samskonar einkennum að vori eða sumri, það er þó mun sjaldgæfara.
Ástæður
Ástæðurnar geta verið margvíslegar, sumir tala um lífklukkuna sem í kjölfar breyttra birtuskilyrða ruglist, framleiðsla á Melatonin hormóni fari úr skorðum og einnig magn Serotonins sem er mikilvægasta boðefni sem við þekkjum í tengslum við þunglyndi og depurð. Flest lyf sem notuð eru í dag sem meðhöndlun vegna þunglyndis hafa einmitt áhrif á magn þessa boðefnis. Svo virðist sem minnkuð birta og sólarljós geti haft áhrif á framleiðslu þess í líkamanum. Konur eru í meiri hættu en karlar að fá skammdegisþunglyndi, þá er yngra fólki hættara við því auk þess sem erfðir spila inn sem endranær. Búseta hefur áhrif enda er sagt að því norðar eða sunnar sem maður býr við miðbaug því meiri líkur séu á slíkum lyndisröskunum.
Vandamál einstaklinga sem glíma við þennan sjúkdóm eru svipuð þeim sem glíma við almennt þunglyndi, þeir draga sig í hlé og verða félagsfælnir. Þeir eiga í vandræðum með vinnu og/eða skóla, neyta frekar vímuefna og áfengis og finna fyrir sjálfsvígslöngun. Mikilvægt er því að grípa til varna og greina vandann, ekki síður en að meðhöndla hann þá með öllum þeim tiltæku ráðum sem til eru.
Greining
Greiningin fer fram í viðtali við lækni, skoðun ætti að útiloka aðrar tegundir sjúkdóma. Ýmsir þeirra geta líkt eftir einkennum og má þar nefna vanstarfssemi skjaldkirtils, járnskortur og ýmislegt fleira. Notaðir eru staðlaðir spurningalistar til að greina en einnig til að fylgjast með árangri meðferðar sem getur verið af ýmsum toga. Almennt er talið að það sé mikilvægast fyrir einstaklinga að þekkja sína greiningu enda geta þeir með þeim hætti brugðist við betur en ella og jafnvel fyrirbyggjandi. Þar sem vandamálið kemur iðulega upp reglubundið eða á hverju ári ætti það að vera tiltölulega auðsótt að þekkja einkennin og vinna með fyrirbyggjandi hætti gegn því að þau versni.
Meðferð
Meðferðin er margvísleg, í mörgum tilvikum er notast við ljósameðferð. Til eru ljósgjafar sem hægt er að stilla upp á vinnustað og jafnvel heima fyrir sem líkja eftir dagsljósinu og geta með þeim hætti „blekkt“ kerfið til að halda að það sé önnur árstíð. Þetta er fyrsta tegund meðferðar sem reyna ætti. Mjög oft er beitt sálfræðimeðferð og hefur hugræn atferlismeðfeð, eða HAM, nýst ágætlega sem og samtalsmeðferð. Mikilvægt er að draga úr streitu og áreiti sem hefur neikvæð áhrif, passa hreyfinguna og mataræði samanber almennar ráðleggingar þar um. Sérstaklega er mikilvægt að fara út í dagsbirtu og stunda líkamsrækt. Sund í hádeginu væri til dæmis alveg kjörin hreyfing fyrir flesta og á þeim tíma sem mestar líkur eru á sólarljósi.
Nokkrar tegundir af fæðubótarefnum hafa verið nefndar sem geta haft jákvæð áhrif, Omega 3 og Melatonin uppbót getur skipt máli og þá er einnig þekkt að slökun líkt og í yoga, hugleiðslu, nuddi og slíku er áhrifarík leið til að draga úr streitu. Lyf ættu að vera síðasta val, en reynist þau nauðsynleg þá ætti ekki að forðast þau. Samandregið er þetta vandi sem margir glíma við og eru margar leiðir að því takmarki að geta notið vetrarmánaðanna.
Höfundur greinar
Teitur Guðmundsson, læknir
Allar færslur höfundar