Við eyðum töluverðum tíma á hverjum degi í að hugsa um mat, ákveða hvað skuli snæða og svo auðvitað að borða matinn sjálfan. Þetta eru lífsnauðsynlegir hlutir, sumir njóta þess að spekulera í mat og drykk, aðrir vilja helst klára þetta sem fyrst svo þeir geti farið að gera eitthvað annað mikilvægara. Vissulega getur farið mikill tími í þessar pælingar, sérstaklega ef maður lætur hugmyndaflugið og lystina ráða för. Það getur orðið ákveðin nautn að hlakka til og fá bragð í munninn af mat sem maður á eftir að elda, velta vöngum yfir hráefninu, öllum möguleikum samsetninga og meðlætis. Endalaus sæla kynnu sumir að segja, aðrir myndu kalla það tímaþjóf. Sumir eru svo það heppnir að geta sest að borðinu og einhver annar hefur tekið þetta að sér fyrir þá. Auðvitað geta allir eldað, það er spurning um að sýna því áhuga í það minnsta að hafa áhuga á því hvað maður setur ofan í sig. Sérstaklega ef horft er til heilsu og lífsstíls almennt þá fer þetta að skipta verulegu máli.
Bragðskynið og truflanir
Það eru til ýmsar rannsóknir um það hversu miklum tíma við eyðum í þessar hugsanir, en svo virðist sem það sé allt frá hálftíma og upp í 2 klst á dag sem er býsna mikið ef það er talið saman. Þá er hér verið að tala um þá sem eru ekki með neina sjúklega tengingu við mat og matarinntöku samanber átraskanir eða kaloríuteljara. Bragðlaukarnir á tungunni og nefið auk augnanna eru þau skynfæri sem við notum mest til að ákveða hvaða mat okkur líkar við, það er einstaklingsabundið og hver og einn nemur bragð á ákveðinn máta og líklega enginn alveg eins. Það má segja þó það séu ákveðnar tegundir sem við þekkjum samanber súrt, sætt, beiskt, salt og svo umami sem kemur frá Japan og þýðir bragðmikið.
Flestir hafa þúsundir bragðlauka sem spila saman, en aðrir hafa mun fleiri og hafa þannig eiginleika sem geta gagnast þeim verulega í matargerð, vínsmökkun og svo framvegis. Allt getur þetta bilað og í grunninn mætti segja að hlutverk bragðskyns sé að geta greint á milli skemmds matar og heilsuspillandi sem er býsna mikilvægt. Ýmislegt getur haft neikvæð áhrif á bragðskyn, ber þar fyrst að nefna reykingar, en líka tóbaksnotkun í nefi og munni getur haft skemmandi áhrif. Tannskemmdir, léleg tannhirða og bólgur eru alræmdar ástæður truflana. Sýkingar í munnholi, eyrum og kinnholum, ofnæmiskvef, aukaverkanir af lyfjanotkun, áverkar bæði í munni en einnig á taugum og heila geta breytt bragðskyni. Það getur verið flókið að átta sig á stundum og þá geta truflanirnar verið tímabundnar eða varanlegar.
Þjálfun og matarvenjur
Það er líka hægt að æfa bragðlaukana, venja þá við, jafnvel breyta því sem var vont í eitthvað gómsætt með tímanum. Frægasta dæmið eru líklega ólífur og máltækið að maður eigi eftir að þroskast líki manni þær ekki frá upphafi. En þjálfun með þessum hætti felst í því að vera óhræddur við að smakka og taka afstöðu til bragðsins, lyktarinnar og áferðarinnar sem þú finnur. Sem betur fer erum við ekki öll eins og því er matur jafn fjölbreytt og vinsælt viðfangsefni og raun ber vitni.
Lykilatriðið er að njóta þess að borða, gefa sér tíma og vera meðvitaður um það hvað maður lætur ofan í sig, það sem er gott getur nefnilega líka verið hollt. Ef þú horfir á mat eingöngu sem eldsneyti, treður honum í hausinn á þér og skeytir engu um það hvernig hann er samsettur eða búinn til, þá ertu að vanvirða líkama þinn og það sem þér var gefið. Þú ferð einnig á mis við þau jákvæðu áhrif á líkama og sálarlíf sem góður matur og drykkur getur gefið. Ekki gera málamiðlanir, maturinn skiptir máli!
Höfundur greinar
Teitur Guðmundsson, læknir
Allar færslur höfundar