Um hátíðarnar verða því miður ýmis slys sem hægt væri að koma í veg fyrir. Spenna, streita, þreyta og áfengi eru algengasti orsakavaldurinn og því um að gera að kynna sér vel hvað hægt sé að gera til að verjast slysum af þessu tagi og geta átt gleðileg jól.
Lærðu skyndihjálp. Hjartaáföll, brunar, og slys við eldamennsku s.s. skurðir eru algeng. Á jólunum er gjarnan margt um manninn í veislum og boðum og í öllum látunum geta slysin orðið. Með því að kunna skyndihjálp getur þú bjargað lífi þinna nánustu.
Eldhúsið: sjóðandi vatn og beittir hnífar gera eldhúsið að einum hættulegasta staðnum í húsinu. Mikil vinna og natni er lögð í að elda jólamatinn hjá mögum og því mikilvægt að gæta að börnunum, sleppa áfenginu á meðan eldað er og þurrka strax af gólfinu ef eitthvað sullast niður svo enginn detti.
Stigar: með því að gæta vel að lýsingu og passa að ekkert dót og drasl sé í stiganum er hægt að draga úr líkum á að einhver detti og meiði sig
Pakkarnir: margir nota skæri eða hníf til að skera á pakkaböndin og í flýtinum er ekki óalgengt að fólk skeri eða stingi sig eða jafnvel aðra í ógáti. Eins þarf oft að nota skrúfjárn við að setja saman nýja fína dótið eða setja í rafhlöður og hægt er að slasa sig á því. Til er dæmi um að fóik hafi hrasað um snúrur og aðskotahluti á gólfi. Þess vegna er best að flýta sér hægt og muna að njóta stundarinnar. Best er að hafa ílát tilbúið undir umbúðir og setja í það jafnóðum. Tilvalið er að gerast umhverfisvæn í leiðinni og muna eftir að flokka ruslið sem til fellur og endurnýta það sem hægt er, til dæmis gjafapappírinn
Jólatré: notaðu stöðugan jólatrésfót svo tréð detti síður um koll með tilheyrandi glerbrotum og usla. Gæta þarf að því að greninálarnar geta stungist í augu og valdið skaða.
Jólaseríur: gættu að því að rafmangssnúran sé heil og serían í lagi áður en hún er sett upp. Notaðu trausta stiga til að forðast fall ef það á að hengja seríuna hátt upp. Nota þarf rétt tengi og gæta þarf vel af útilýsingu vegna hættu á að rafmagn leiði út eða íkvekju.
Skreytingar: þar er oftast um að ræða gler sem brotnar og veldur skaða eða fólk slasast við að sækja jólaskrautið til dæmis upp á háaloft eða við að setja það upp. Jólaskrautið heillar líka smáfólkið en oft er um að ræða smáhluti sem geta festst í koki þeirra eða slasað þau á annan hátt.
Kerti: Brunar í heimahúsum eru mun algengari í desember en á öðrum árstímum. Því er um að gera að umgangast kerti og eld með varúð og það er góð regla að sá sem kveikir á kerti ber ábyrgð á því að slökkt sé á því. Teljós eru lúmskt hættuleg því það kemur mikill hiti frá þeim sem getur brætt sig í gengum ýmislegt séu þau ekki höfð í viðeigandi íláti. Kertaskreytingar eru sérlega eldfimar og er það því miður margreynt að eldur frá þeim breiðist hratt út og afleiðingarnar oft á tíðum skelfilegar.
Jurtir: Jólarós er vinsælt blóm á þessum tíma en hún er eitruð eins og fleiri jurtir sem menn tengja jólunum, þar má nefna til dæmis mistiltein. Haldið jurtunum þar sem börn ná ekki til og kynnið ykkur vel hvort jurtir sem þið verslið eða eigið séu hugsanlega eitraðar.
Streita: Desember er mikill streitumánuður og keyra margir sig út, sofa of lítið, drekka meira á fengi auk þess að keppast við að versla gjafir og annað sem þarf til jólanna. Þetta reynist sumum um megn og því er mikilvægt að gefa sér tíma fyrir sjálfan sig, ástunda slökun og læra að segja nei.
Meltingartruflanir og matareitrun: Það er ekkert grín að fá matareitrun og það á sjálfum jólunum en því miður nokkuð algengt. Lesið vel á umbúðir matvæla og gætið að geymslu þeirra og meðhöndlun. Flestir bæta nokkrum kílóum á sig um jólin og meltingartruflanir eru ekki óalgengar en þeim fylgir mikil vanlíðan sem sem er ekki eftirsóknarverð í langþráðu fríi. Gætum því að mataræðinu og munum að allt er best í hófi.
Áfengi: neysla áfengis getur verið bæði heilsuspillandi og slysavaldur. Þeir sem eru undir áhrifum áfengis verða kærulausari og því líklegri til að vanmeta aðstæður. Einnig þarf að gæta að því að börn komist ekki í áfengi til dæmis með því að drekka áfengisleyfar úr glösum sem standa á borðum. Síðast en ekki síst “eftir einn ei aki neinn”
Heimildir nhs.uk , Landlæknir Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Rauði kross Íslands
Höfundur greinar
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar