Sífellt er verið að tala um hreyfingu og mataræði en minna rætt um svefninn. Staðreyndin er samt sem áður sú að þetta hangir allt saman saman og jafnvel má fullyrða að svefninn sé mikilvægastur af þessu þrennu. Þó eru þetta allt gríðarlega mikilvægir þættir til þess að viðhalda góðri heilsu. Ef við erum svöng sofum vil ekki eins vel. Ef við ekki hreyfum okkur verðum við ekki þreytt. Og ef við ekki sofum þá lendum við í vandræðum.
Margir líta á það sem merki um dugnað að þurfa lítinn svefn á meðan meiri svefn er tengdur við leti og slóðaskap. Staðreyndin er hins vegar sú að ef við sofum of lítið göngum við á orkuforðann okkar og við verðum ekki eins vel í stakk búin til þess að takast á við verkefni daglegs lífs auk þess sem ónæmiskerfið okkar veiklast .
Svefnþörf er mismunandi eftir aldri og minnkar með árunum en það algert lykilatriði að ná þessum tímum. Almennt er talað um að fullorðnir þurfi 7 til 8 klukkustundir á sólarhring til þess að líkaminn nái að endurnýja sig og sinna þeim verkefnum sem eiga sér stað á meðan við sofum.
Rannsóknir sýna að langvarandi svefnleysi eykur líkur á ýmsum alvarlegum sjúkdómum eins og sykursýki og hækkuðum blóðþrýstingi auk þess sem slysahætta eykst verulega þegar athyglin er skert.
Svokölluð líkamsklukka stjórnast að miklu leyti af reglubundnum dægursveiflum á líkamsstarfssemi og birtubreytingum í umhverfi okkar. Góðar og reglubundnar svefnvenjur eru því lykilatriði þegar kemur að því að tryggja góðan nætursvefn.
Góð ráð
- Sofðu eins mikið og nauðsynlegt er til þess að þér líði vel næsta dag, ekki minna og ekki meira.
- Reglulegur fótaferðatími og reglulegur háttatími styrkir líkamsklukkuna og leiðir til betri svefns.
- Hreyfðu þig daglega, það leiðir til betri svefns
- Borðaðu reglulega yfir daginn og af skynsemi.
- Takmarkaðu neyslu á koffeini s.s. kaffi, te og kóladrykki.
- Gæta þarf að því að margir orkudrykkir innihalda örvandi efni sem hafa áhrif á svefn.
- Áfengi er í eðli sínu sljóvgandi það truflar svefninn og gæði hans verða minni.
- Tóbak inniheldur örvandi efni og ætti að forðast það í lengstu lög, amk rétt fyrir svefn. Sama á við um rafréttur með nikotíni.
- Tryggja þarf ró í næsta umhverfi áður en farið er að sofa. Ekki taka áhyggjurnar með í rúmið.
- Forðist tölvuskjái og ekki taka snjallsímann með í rúmið.
- Gott rúm bætir svefninn og í herberginu ætti að vera hæfilegur hiti, myrkur og kyrrð.
- Svefnlyf geta hjálpað í stuttan tíma en notkun þeirra til lengri tíma er árangurslaus og jafnvel skaðleg.
Höfundur greinar
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar