Sykursýki

Sykursýki er efnaskiptasjúkdómur sem einkennist af of háum blóðsykri sem stafar annaðhvort af of litlu magni insúlíns í blóði eða af óeðlilegri virkni insúlíns. Sykur er aðalbrennsluefni líkamans, en til þess að frumur líkamans geti nýtt sér hann sem orku er nauðsynlegt að hafa nægilegt magn insúlíns í blóðinu sem briskirtillinn framleiðir.

Til eru tvö afbrigði af sykursýki. Annarsvegar týpa 1 sem er insúlínháð sykursýki en það afbrigði er algengara hjá börnum og ungu fólki.   Hinsvegar er það týpa 2 sem er insúlínóháð sykursýki og er algengari hjá eldra fólki.

Týpa 1 orsakast vegna þess að svokallaðar betafrumur í briskirtli hætta að framleiða insúlín. Meðferðin er regluleg insúlín gjöf annaðhvort með sprautum, insúlín pennum eða dælum.

Týpa 2 orsakast þegar líkaminn framleiðir ekki nægilega mikið af insúlíni eða þegar hann hefur misst getu sína til að nýta það insúlín sem framleitt er. Þessi sjúkdómur er að mestu áunnið heilsufarsvandamál sem fyrirfinnst í flestum tilfellum í eldra fólki, en er þó farinn að finnast hjá yngri kynslóðum með hækkandi tíðni offitu í heiminum.

Einkenni sykursýki                                             

  • þorsti
  • tíð þvaglát
  • þreyta
  • lystarleysi og þyngdartap
  • kláði umhverfis kynfæri
  • sýkingar í húð og slímhúðum.

 

Týpa 1 kemur fram á nokkrum vikum en þróun týpu 2 á sér yfirleitt lengri aðdraganda (allt upp í 10 ár) og einstaklingurinn getur verið einkennalaus eða einkennalítill mjög lengi. Á þeim tíma geta komið varanlegar skemmdir á ýmsum líffærum s.s. æða og taugakerfi og augnbotnum, því er mikilvægt að fara í reglubundnar skoðanir.

Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem eru í sérstakri hættu á að fá sykursýki af tegund 2 geta dregið verulega úr líkum á því með því að huga að mataræði og lífsstíl. Grundvallaratriði er að borða reglulega, kaupa ferska matvöru, borða trefjaríka fæðu sem er laus við mettaða fitu og innheldur lítið magn af hvítum sykri. Það er mjög mikilvægt að hreyfa sig. Í kviðfitu myndast efni sem dregur úr virkni insúlíns. Með því að grennast minnkar viðnámið gegn insúlíni sem gerir það að verkum að insúlínið sem þegar er til staðar nýtist betur til að lækka blóðsykurinn. Líkamsrækt minnkar ekki einungis líkur á sykursýki heldur dregur hreyfing m.a. úr líkum á hjartasjúkdómum og háþrýstingi. Markviss hreyfing á hverjum degi skilar bestum árangri.

Báðar tegundir sykursýki eru ættgengar. Þó eru meiri líkur til þess að skyldmenni einstaklings með týpu 2 fái einnig sykursýki heldur en skyldmenni einstaklings með týpu 1.

Höfundar greinar