Þjóna líkamshár einhverjum tilgangi?

Mannslíkaminn hefur þróast í mörg hundruð þúsund ár og er því mjög vel aðlagaður að þeim aðstæðum og skilyrðum sem hann þarf að búa við.

Það eru meira en 5 milljón hársekkja á líkamanum okkar og líkamshár þekja nánast allann líkama okkar nema varir, lófa og iljar. Hárvöxtur er misjafn eftir svæðum og vex meira á höfði, undir höndum og á kynfærasvæði, þetta getur samt verið breytilegt eftir þjóðerni.

Talið er að tilgangurinn með hári á höfðinu sé að halda á okkur hita og vernda okkur fyrir UV geislum. Töluvert hitatap eða um 30% af líkamshita, getur orðið um hvirfilinn og hárið dregur auðvitað úr því. Kannski má þó segja að núorðið þjóni höfuðhár litlum tilgangi öðrum en fagurfræðilegum þar sem húfur og önnur höfuðföt geta komið að sama gagni og hár þegar kalt er. Litlu hárin á líkama okkar hafa það hlutverk að viðhalda réttum líkamshita. Þegar kalt er úti eru litlir vöðvar í kringum hársekkina sem valda því að hárin rísa og með því reyna þau að fanga hitann sem næst líkamanum. Hársekkirnir hafa líka það hlutverk að viðhalda raka húðarinnar og nýta þá hárin til að seyta frá sér einhverskonar fitu sem ver líkamann fyrir bakteríum og þurrki. Hárin eru tengd skyntaugum, nema snertingu og þrýsting og eru í raun mun næmari fyrir breytingum í umhverfinu heldur en húðin sjálf.

Hár í nefi, eyrum og kringum augu eru til að vernda þessi svæði fyrir ryki og öðrum aðskotahlutum. Sú kenning sem notið hefur hvað mestrar hylli um hár í handakrikum og við kynfæri er að hár á þessum svæðum safni í sig svitalykt sem hafi á árdögum manneskjunnar þótt kynferðislega aðlaðandi. Samkvæmt þessu hefur hár í handakrikum með öllu glatað tilgangi sínum, að minnsta kosti á okkar menningarsvæði, þar sem fólk leggur gjarnan mikið á sig til að losna við þessa lykt. Hár á kynfærum eru á sama hátt að vernda kynfæri fyrir óæskilegum aðskotahlutum. Háreyðing og rakstur hefur aukist til muna, slíkar aðgerðir geta endað í sýkingum sé ekki varlega farið.

Þó svo að okkur finnist líkamshár stundum tilgangslaus að þá eru þau ekki algjörlega að ástæðulausu og hafa flest þann tilgang að vernda líkamann.

Höfundur greinar