Vefjagigt, hvað er nú það?

Vefjagigt (e. fibromyalgia syndrome) er langvinnur sjúkdómur sem samanstendur af fjölmörgum einkennum frá hinum ýmsu líffærakerfum. Talið er að allt að 12 þúsund Íslendingar sé haldnir sjúkdómnum á hverjum tíma. Árið 1993 var vefjagigt formlega skilgreind sem heilkenni af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (the World Health Organisation, WHO). Á undanförnum árum hafa verið gerðar ótal rannsóknir á vefjagigt sem hafa leitt í ljós truflun í starfsemi margra líffærakerfa m.a í tauga- og hormónakerfi líkamans, ósjálfráða taugakerfinu og truflun á framleiðslu ýmissa hormóna.

Efnisyfirlit

Einkenni

Aðaleinkenni vefjagigtar eru langvarandi útbreiddir stoðkerfisverkir, almennur stirðleiki, þreyta, skert úthald og svefntruflanir sem eru svo taldar orsakaþáttur fyrir mörgum einkennum vefjagigtar. Verkirnir sveiflast í styrkleika og því hversu lengi þeir vara. Einkenni geta verið mörg og einnig einkenni annarra sjúkdóma og því mikilvægt að leita læknis til að fá úr því skorið hvort að um vefjagigt sé að ræða.

Fleiri einkenni vefjagigtar

 • Lestrar-, tal- og minniserfiðleikar
 • Einbeitingarskortur
 • Svíðandi tilfinning í húðinni
 • Náladofi og dofatilfinning í fingrum, tám og í kringum munn
 • Eyrnasuð
 • Órólegur ristill
 • Kvíði og/eða depurð.
 • Blóðsykursfall
 • Tíðatruflanir (sársaukafullar, óreglulegar og/eða miklar blæðingar)
 • Ofurnæm þvagblaðra
 • Einkenni frá hjarta
 • Spennu höfuðverkur
 • Streita og óróleiki í líkama
 • Hálsbólgueinkenni
 • Kuldanæmi, dauðir fingur (e. Raynaud´s phenomenon)
 • Bjúgur
 • Svimi/jafnvægisleysi
 • Augn- og munnþurrkur

Vefjagigt getur þróast á löngum tíma og viðkomandi gerir sér litla grein fyrir í fyrstu að eitthvað óeðlilegt sé í gangi. Verkir sem hlaupa til dag frá degi, stirðleiki og yfirþyrmandi þreyta af og til eru oft byrjunareinkennin. Einkennin eru mjög mismunandi milli einstaklinga, bæði af fjölda og hversu slæm þau eru. Vefjagigt getur verið mildur sjúkdómur þar sem viðkomandi heldur nær fullri vinnugetu og lifir eðlilegu lífi, þrátt fyrir þreytu og verki, en hann getur líka verið mjög illvígur og rænt einstaklinginn allri orku þannig að hann er vart fær um annað en að sofa og matast. Þar sem ekki sjást nein ummerki um sjúkdóminn, hvorki á einstaklingnum, né í almennum læknisrannsóknum þá hafa þessir einstaklingar oft á tíðum mætt litlum skilningi.

Orsakir

Líklega eru orsakaþættir vefjagigtar margir og það virðist sem að margir ólíkir þættir geti hrint af stað ferli sem að lokum veldur vefjagigtarheilkenni. Ekki er vitað um neinn ákveðinn orsakaþátt sem getur skýrt allar myndir vefjagigtar, en margar mismunandi kenningar eru á lofti. Það sem er einkennandi fyrir vefjagigt er ofurnæmi í líkamanum fyrir allskyns áreitum sem talið er vera vegna truflunar í starfsemi miðtaugakerfisins. 

Líklegir orsakaþættir

 • Erfðir
 • Líkamleg/andleg áföll
 • Sýkingar
 • Ofálag
 • Aðrir sjúkdómar
 • Svefntruflanir
 • Langvinn streita

Algengi

Niðurstöður rannsókna á algengi vefjagigtar víða um veröld eru mismunandi. Vefjagigt er mun algengari meðal ættingja vefjagigtarsjúklinga samanborið við algengi í þýði. Talið er að ákveðinn veikleiki erfist, þannig að einstaklingar sem beri þennan erfðaþátt hafi minni vörn fyrir hvers konar álagi og ýmsum umhverfisþáttum. Talið hefur verið að vefjagigt hrjái 2-13% fólks á hverjum tíma en líklega er það of há tala því yfirlitsgrein frá árinu 2006 reiknar með að algengi vefjagigtar sé á bilinu 0,66% – 4,4%.

Vefjagigt finnst hjá báðum kynjum, en er algengari hjá konum en körlum og er hlutfallið um 3-4 konur á móti einum karli. Sjúkdómurinn er þekktur í öllum aldurshópum og er algengastur hjá konum á miðjum aldri, en börn, unglingar og aldraðir geta líka fengið vefjagigt. Vefjagigt greinist í öllum þjóðfélagshópum, en er þó algengari meðal fátækra þjóðfélagshópa og þeirra sem eru illa staddir félagslega. Hún er m.a. nokkuð algeng meðal Amish fólks eða hjá um 7% fullorðinna. Þetta er forvitnileg niðurstaða þar sem vefjagigt hefur af sumum verið tengd við nútíma lífstíl, álag og streitu  sem Amish fólk sneiðir hjá.

Tíðni á Íslandi

Aðeins ein rannsókn hefur verið gerð til að meta algengi langvinnra útbreiddra verkja og vefjagigtar á Íslandi. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýndu að algengi langvinnra útbreiddra verkja reyndist vera 26,9% hjá konum og 12,9% hjá körlum en  algengi vefjagigtar  var 9,8% hjá konum og 1,3% hjá körlum. Heildarsvörun rannsóknarinnar var einungis um 53% sem takmarkar að hægt sé að álykta frekar um niðurstöðurnar. Samkvæmt þessum rannsóknarniðurstöðum þá gætu yfir 20 þúsund einstaklingar, á aldrinum 18-79 ára, verið haldnir vefjagigt hér á landi.

Greining

Ekki er hægt að greina eða staðfesta að um vefjagigt sé að ræða með hefðbundnum blóðrannsóknum. Í byrjun er þó nauðsynlegt að gera ýmsar rannsóknir til að útiloka aðra sjúkdóma sem hafa svipuð einkenni og vefjagigt. Sú aðferð sem mest er notuð til að staðfesta að um vefjagigt sé að ræða er greiningaraðferð sem félag bandarískra gigtlækna gaf út 1990 (the American College of Rhemotology). Sú greiningar skilmerki  byggja á að sjúklingur sé að öllum líkindum með vefjagigt ef hann: Hefur haft útbreidda verki í minnst 3 mánuði og sé aumur í minnst 11 af þeim 18 kvikupunktum( sjá mynd efst á síðu).

Verkir eru taldir útbreiddir þegar eftirfarandi er uppfyllt:

Verkir bæði í hægri og vinstri líkamshluta, verkir bæði ofan og neðan mittis. Að auki verkir tengdir hryggsúlu þ.e. í hálsi, framan á brjósti, brjóstbaki eða mjóbaki. Mjóbaksverkir eru taldir til verkja neðan mittis. Einnig gæti hjálpað til við greiningu að halda dagbók yfir líðan og einkenni frá degi til dags í nokkrar vikur.

Fleiri greiningarskilmerki sem þurfa að vera til staðar og hafa varað í a.m.k 3 mánuði

 • Saga um útbreidda verki
 • Viðvarandi þreyta
 • Stirðleiki
 • Svefntruflanir

Ef einstakling grunar sig vera með vefjagigt er mikilvægt að leita til síns heimilislæknis eða gigtarlæknis og fá úr því skorið hvort um sé að ræða vefjagigt eða eitthvað annað. Læknar geta skrifað upp á tilvísun í vefjagigtarmiðstöðina, Þraut þar sem einstaklingar geta fengið þverfaglegt mat og fræðslu gigtarlæknis, sálfræðings og sjúkraþjálfa.

Meðferð

Í meðferð við vefjagigt þarf oft að leita til ýmissa fagaðila og fá heildrænt mat frá lækni, sjúkraþjálfa og/eða sálfræðingi. Þrátt fyrir að þekkingu á vefjagigt hafi fleygt mikið fram þá er ekki til nein meðferð sem hefur áhrif á öll einkenni hennar. Til að sem bestur árangur náist þarf einstaklingur að afla sér þekkingar á sjúkdómnum og verða sérfræðingur í sínum eigin sjúkdómi. Finna meðferðaraðila sem hafa þekkingu á vefjagigt og vera virkur í meðferðinni. Mikilvægt er að hver og einn finni sinn eigin lífstíl sem að bætir líðan og ástand. Einstaklingsbundið er hvaða meðferðar er þörf, en eftirfarandi meðferðir eru oft notaðar til að meðhöndla vefjagigtar einkenni:

 • Lyfjameðferð: verkjalyf og/eða svefnbætandi lyf
 • Fræðsla um einkenni vefjagigtar, hreyfingu og svefn
 • Sjúkraþjálfun
 • Hófleg líkamsþjálfun
 • Sálfræðimeðferð t.d hugræn atferlismeðferð (HAM)
 • Breytt mataræði
 • Slökun og streitustjórnun
 • Nudd
 • Nálastungur
 • Bætiefnameðferð

Það getur hjálpað að halda dagbók og skrá daglega virkni, einkenni og það hvort og/eða hvernig matur veldur versnun á einkennum. Margir með vefjagigt þola illa drykki sem innihalda koffein, hvítan sykur, hröð kolvetni, mjólkurvörur, aukaefni og áfengi. Þreyta er yfirleitt mjög viðvarandi og því nauðsynlegt að ná góðum nætursvefni, hlusta á líkamann og hvíla sig eftir þörfum. Rannsóknir sýna að hófleg hreyfing getur dregið úr verkjum vegna vefjagigtar, styrkt ónæmiskerfið, bætt svefn og minnkað streitu.

Mikilvægt er að hafa í huga að það tekur þolinmæði og virkni til að draga úr einkennum vefjagigtar en með réttri meðferð og meðferðarheldni getur einstaklingur með vefjagigt aukið lífsgæði sín.

Heimildir

http://vefjagigt.is/

http://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/fibromyalgia/in-depth/fibromyalgia-symptoms/art-20045401

Clauw, D.J., Crofford, L.J. (2003). Chronic widespread pain in fibromyalgia: What we know, and what we need to know. Best Practice & Research Clinical Rheumatology,17(4), 685-701.

Höfundur greinar