Verslunarmannahelgi

Verslunarmannahelgin er handan við hornið  og má búast við að ungir sem aldnir flykkist út um allar koppagrundir að gera skemmtilega hluti.

En þó að við ætlum að hafa gaman er engin ástæða til þess að stefna lífi og limum eða heilsunni almennt í hættu. Það eru nokkur heilsutengd atriði sem við ættum að hafa á bak við eyrað til þess að helgin verði sem ánægjulegust.

Þó að verðurspáin líti vel út borgar sig að taka góðan skjólfatnað með því það er kalt þegar sólin sest og veðurspá er jú spá en ekki staðreynd. Það er lítil gleði fólgin í því að vera kaldur og blautur í útilegu.

Slysin gera ekki boð á undan sér og það er gott að vera við öllu búinn, sérstaklega ef verið er að fara langt frá mannabyggðum. Að hafa sjúkrakassa og lítið slökkvitæki í bílnum er góð hugmynd og svo er um að gera að hlaða niður skyndihjálparappinu í snjallsímann

Gætum þess að borða af skynsemi og fá nægan svefn. Að sjálfsögðu er gaman að sitja við varðeld með góðum vinum og vaka frameftir á fallegu ágústkvöldi en við megum ekki gleyma að við þurfum að hvíla okkur. Eins er óþarfi að belgja sig út af öllum mögulegu og mishollu góðgæti á einu kvöldi og fá svo í magann og vera í bullandi vanlíðan daginn eftir og geta ekki haldið áfram að njóta. Klósettaðstaða í útilegu er yfirleitt ekki upp á marga fiska heldur og lítið gaman að vera með niðurgang í þannig aðstæðum.

Best er að neyta áfengis í hófi og muna að of mikilli neyslu fylgja oftast timburmenn sem geta eyðilagt næsta dag. Hægt er að fyrirbyggja það að einhverju leyti með því að borða vel og drekka mikið vatn áður en gengið er til náða og jafnvel taka tvær verkjatöflur fyrir svefninn.. Hófleg neysla er þó alltaf best.

Þessari helgi fylgir gjarnan rómantík og margir finna án efa ástina nú sem endranær. Samt sem áður er skynsamlegt að setja öryggið á oddinn og tryggja næganlegar birgðir af smokkum því kynsjúkdómar eru ekkert grín og afleiðingar þeirra geta verið alvarlegar.

Númer eitt er að draga djúpt andann og muna að njóta í stað þess að vera með pirring þó svo að einhverstaðar myndist biðraðir, bíllinn bili eða dagskráin standist ekki væntingar. Að sýna öðrum kurteisi og brosa gefur yfirleitt mun betri árangur og heilsan nýtur góðs af þar sem við lækkum streitustigið umtalsvert. Gleymum ekki að markmiðið er að hafa gaman og skapa góðar minningar.

Höfundur greinar