Heilsufarslegur ávinningur af aukinni neyslu grænmetis og ávaxta á Íslandi
Undanfarin ár hafa birst margar rannsóknir sem sýna að rífleg neysla grænmetis og ávaxta virðist minnka líkur á mörgum alvarlegum sjúkdómum, þar á meðal mörgum tegundum krabbameina, hjarta- og æðasjúkdómum og offitu. Víðast hvar á Vesturlöndum, þar á meðal Íslandi, hefur verið brugðist við þessum upplýsingum með því að hvetja fólk til að borða meira af þessum matvörum. Það magn, sem nánast hvarvetna er mælt með í þessu skyni, er 500-600 grömm af grænmeti og ávöxtum á dag fyrir fullorðna og börn yfir tíu ára aldri. Víða um heim, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, hefur hvatningin verið undir kjörorðinu Veljum 5 á dag! og er þá átt við að æskilegt sé að borða a.m.k. fimm skammta af grænmeti og ávöxtum á dag. Hér á Íslandi hafa Krabbameinsfélagið, Hjartavernd og Manneldisráð sameinast um þessa hvatningu og birt auglýsingar og kynningarefni til að vekja athygli almennings á kostum þessara matvara.
Hlutur grænmetis og ávaxta er óvenju rýr í fæði Íslendinga og því gefst verulegt svigrúm til að auka neysluna og hafa þar með jákvæð áhrif á heilsufar þjóðarinnar. Samkvæmt síðustu landskönnun á mataræði sem gerð var árið 1990 borðuðu Íslendingar á aldrinum 15-80 ára að meðaltali 71g af grænmeti, 137g af kartöflum og 67g af ávöxtum á dag, samtals 275g á dag (1). Neysla 10-15 ára barna er mun minni, þau borða að jafnaði 31g af grænmeti á dag sem samsvarar um hálfum tómati eða einum þriðja úr gulrót á dag (2). Samkvæmt fæðuframboðstölum hefur nokkur aukning orðið á grænmeti og ávöxtum frá því könnunin var gerð en neysla kartaflna hefur minnkað (3). Grænmeti hefur aukist um 13-22% síðastliðinn áratug (eftir því hvort miðað er við tölur Bændasamtaka eða dreifingaraðila grænmetis um innlenda framleiðslu), ávextir hafa aukist um 17%, en neysla kartaflna hefur minnkað um 9%. Þrátt fyrir þessar breytingar er ljóst að neyslan þarf að aukast um rúm 70% til að markmiðinu um 500g á dag verði náð.
Varla er raunhæft að ætla að svo mikil breyting verði á mataræði þjóðarinnar á örfáum árum. Hins vegar sýna dæmi frá Finnlandi og víðar að grænmetisneysla getur margfaldast á tiltölulega skömmum tíma, ef markvissum aðgerðum er beitt. Þar í landi var neysla svipuð og á Íslandi árið 1970, um 20kg á mann á ári samkvæmt fæðuframboðstölum. Tíu árum síðar hafði neysla Finna tvöfaldast og hefur nú þrefaldast miðað við árið 1970 (3). Hér á landi hefur neyslan u.þ.b. tvöfaldast á þessu þrjátíu ára tímabili.
En hver er áætlaður ávinningur af aukinni grænmetisneyslu?
Áhrif á krabbameinsáhættu
Fram til þessa hafa verið birtar yfir tvö hundruð faraldsfræðilegar rannsóknir sem sýna lækkun á krabbameinsáhættu meðal þeirra sem borða mikið af grænmeti og ávöxtum (4-11). Fyrir flestar tegundir krabbameina er áhættan u.þ.b. helmingi minni í þeim hópi sem borðar mest af grænmeti og ávöxtum borið saman við hópinn sem borðar minnst. Er þá þátttakendum skipt í þrjá til fimm hópa eftir grænmetis- og ávaxtaneyslu og efsti hópurinn borinn saman við þann neðsta. Fyrir lungnakrabbamein er áhættan rúmlega helmingi minni meðal þeirra sem borða mest af grænmeti og ávöxtum í öllum þeim rannsóknum, 24 að tölu, sem birtar hafa verið um þetta efni, og svipaða sögu er að segja af magakrabbameini þar sem 17 af 18 rannsóknum sýna um helmings minnkun áhættu. Flestar faraldsfræðilegar rannsóknir á mataræði og krabbameini í ristli, munni og vélinda sýna einnig lækkun áhættu, frá 15-45%. Sambandið er hins vegar veikara og óljósara þegar um er að ræða krabbamein í brjóstum, legi og blöðruhálskirtli, þ.e. hormónatengd krabbamein. Í ljósi þess hve erfitt er að fá áreiðanlegar upplýsingar um mataræði fólks, eru þessar niðurstöður óvenju samhljóma og sannfærandi. Rannsóknir á líffræðilegri virkni efna og efnasambanda í grænmeti og ávöxtum styðja auk þess tilgátuna og útskýra að nokkru leyti áhrif þeirra á krabbameinsáhættu, þótt öll kurl séu ekki komin til grafar í því efni. Það mun reynast torsótt, ef ekki óyfirstíganlegt, að sanna með óyggjandi hætti að neysla grænmetis og ávaxta komi í veg fyrir eða seinki tilkomu krabbameina. Hins vegar eru vísbendingarnar nú þegar það sterkar að ekki verður undan því vikist að taka afstöðu til þeirra og ákveða á hvern hátt skuli brugðist við þeim. Nýlega kom út viðamikil skýrsla á vegum American Institute for Cancer Research og World Cancer Research Fund: Food, Nutrition and the Prevention of Cancer: A Global Perspective (6). Þar er komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að koma í veg fyrir 30-40% allra krabbameina með bættu fæði. Aukin neysla grænmetis og ávaxta ein og sér er þar talin geta komð í veg fyrir 20% krabbameina. Með því að taka mið af áhættuútreikningum í ofangreindri skýrslu er hægt að áætla fjölda krabbameinstilfella sem aukin neysla grænmetis og ávaxta gæti forðað hér á landi ár hvert. Í slíkum útreikningum er rétt að gera ráð fyrir stigvaxandi neyslu, t.d. 10% aukningu á ári, þar til neyslan hefur rúmlega tvöfaldast árið 2009. Einnig þarf að taka með í reikninginn að áhrifa breytts mataræðis á krabbamein gætir fyrst nokkrum árum eftir mataræðisbreytinguna, og þau koma ekki fram af fullum krafti fyrr en eftir tíu til tuttugu ár. Því mun í raun taka tvo áratugi að sjá endanlega áhrif slíkra breytinga í þjóðfélaginu, það er tíu árum eftir að aukningu lýkur. Hér er því verið að fjárfesta til framtíðar, það er ekki síst heilsa yngri kynslóðarinnar og barna okkar sem hér er í húfi.
Hjarta- og æðasjúkdómar
Hjarta-og æðasjúkdómar eru sjálfsagt þau mannanna mein sem hvað mest hafa verið rannsökuð með tilliti til áhrifa mataræðis í tilurð sjúkdómsins. Þær rannsóknir hafa meðal annars leitt í ljós að hlutfall og samsetning fitu í fæði hefur mikil áhrif á sjúkdómsáhættuna og þá sérstaklega fyrir æðakölkun. Grænmeti og ávextir voru lengi vel ekki rannsökuð í sama mæli og fitan, en undanfarin ár hafa nokkrar rannsóknir sýnt áhrif þessara matvara til verndar gegn æðakölkun. Rannsókn á sautján Evrópuþjóðum sýndi t.d. sterkt samband milli neyslu grænmetis og lágri dánartíðni af völdum æðakölkunarsjúkdóma í þessum löndum (12). Rannsóknir á jurtaneytendum sýna einnig að þeir fá síður kransæðasjúkdóm og lífslíkur þeirra eru meiri en þeirra sem borða kjöt (13). Fjölmennar ferilrannsóknir hafa sömuleiðis sýnt hagstæð áhrif grænmetis og ávaxta, í bandarískri rannsókn á 1001 karli af írskum uppruna reyndust t.d. 40% færri dauðsföll af völdum hjartasjúkdóma í þeim hópi sem borðaði mest af grænmeti og trefjaefnum (14). Flestar rannsóknir hafa þó sýnt minni lækkun á sjúkdóms- eða dánartíðni, oftast á bilinu 15-30% (15), og nokkrar rannsóknir sýna engin áhrif grænmeti og ávaxta á sjúkdómsáhættu. Þegar á heildina er litið og tillit tekið til þeirra rannsókna sem sýna engin áhrif má því búast við að tíðni hjarta- og æðasjúkdóma lækki á bilinu 7-20% við aukna grænmetis og ávaxtaneyslu (9).
Hvaða efni úr grænmeti og ávöxtum vernda gegn æðakölkun?
Líffræðilegar rannsóknir á næringarefnum og öðrum efnisþáttum úr grænmeti og ávöxtum hafa leitt í ljós að mörg efni sem þar er að finna geta minnkað líkur á æðakölkun. Þar má nefna B-vítamínið fólasín sem getur lækkað mikilvægan áhættuþátt hjartasjúkdóma, sem er hómósysteín í blóði (16), andoxunarefni á borð við E-vítamín, C-vítamín og flavonoíð, sem koma í veg fyrir skemmdir á LDL fitupróteini, en oxun LDL telst afdrifaríkt stig í þróun sjúkdómsins (17), en einnig eru estrogenlík efni í sumum jurtum sem geta haft verndandi áhrif.
Offita
Offita verður æ algengari á Vesturlöndum, meðal annars hér á landi (17). Að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar er hér á ferðinni einn mesti og alvarlegasti heilsuvandi nýrrar aldar, enda fylgja offitu margir alvarlegir sjúkdómar, m.a. fullorðins sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómar (18). Rannsóknir hafa sýnt að samsetning fæðunnar getur haft áhrif á líkamsþyngd. Sé sterkja aukin á kostnað fitu í fæði stuðlar það gjarnan að lækkun líkamsþyngdar og kemur í veg fyrir offitu. Ástæðan er talin sú að hver hitaeining úr kolvetnum metti betur en sami hitaeiningafjöldi úr fitu. Fita er meira en tvöfalt orkuríkari en kolvetni, hins vegar eykur fiturík máltíð ekki brennslu eða orkunotkun á sama hátt og kolvetna- eða próteinrík máltíð. Þvert á móti stuðlar fitan að fitusöfnun í fituvefjum. Fiturík fæða hvetur því til ofneyslu og eykur líkur á offitu.
Grænmeti og ávextir innihalda kolvetni en litla eða jafnvel enga fitu og oft tiltölulega fáar hitaeiningar. Því getur rífleg neysla grænmetis og ávaxta verið liður í baráttu gegn offitu og stuðlað að eðlilegri líkamsþyngd.
Klofinn hryggur og heilaleysa
Rannsóknir hafa sýnt að hægt er að minnka líkur á fósturgalla á miðtaugakerfi, klofnum hrygg og heilaleysu, ef móðirin tekur B-vítamínið fólasín fyrir meðgöngu og á fyrstu mánuðum meðgöngunnar, meðan miðtaugakerfi er í mótun (20). Grænmeti og ávextir eru þær fæðutegundir sem hafa að geyma hvað mest af fólasíni. Lifur og innmatur innhalda þó enn meira af fólasíni, en neysla þessara matvara er ekki talin æskileg á meðgöngu vegna mikils A-vítamíns sem getur skaðað fóstrið. Víða eru konur hvattar til að taka fólasíntöflur fyrir meðgöngu en slík aðgerð getur aldrei komið öllum til góða. Aukin almenn neysla á grænmeti og ávöxtum í samræmi við ráðleggingar getur veitt þau 400 míkrógrömm af fólasíni sem minnka líkur á fósturgöllum í miðtaugakerfi.
Markmið og aðgerðir
Manneldisráð telur mikilvægt að hvetja til aukinnar neyslu á grænmeti og ávöxtum á Íslandi. Ráðið mælir með samtals 500 grömmum á dag af grænmeti, kartöflum og ávöxtum fyrir fullorðna og börn frá 10 ára, en 400 grömmum fyrir börn frá 6-10 ára. Slík aukning & aacute; neyslu krefst ákveðinna og markvissra aðgerða. Þar getur komið til fræðsla, auglýsingar og áróður, en einnig verðlagsaðgerðir og aðgerðir sem hafa áhrif á framboð og aðgengi.
Framboð í skólum
Fæðuvenjur dagsins í dag móta heilsufar þjóðarinnar í framtíðinni. Þegar horft er til framtíðar er eðlilegt að leggja áherslu á bætt mataræði barna og unglinga. Skólar eru þar kjörinn vettvangur. Því leggur Manneldisráð til að grænmeti og ávöxtum verði dreift í skólum á svipaðan hátt og nú tíðkast með mjólk og drykkjarvörur. Börn geti keypt ávaxta- eða grænmetismiða rétt eins og mjólkurmiða, og fengið annað hvort ávöxt eða hrátt grænmeti daglega í nestistímum. Í Noregi hefur slíku fyrirkomulagi nýlega verið komið á og gefist vel.
Mötuneyti ríkisstarfsmanna og dvalarstofnana
Flestum starfsmönnum ríkisstofnana stendur til boða að fá niðurgreidda máltíð á vinnutíma. Maturinn sem þar í borði er misjafn að samsetningu, enda eru engar samræmdar reglur um hvað þar skuli vera í boði. Samkvæmt könnun Manneldisráðs á mataræði frá 1990 var fæði þeirra sem borðuðu heita máltíð að staðaldri í mötuneyti, mun fituríkara en þeirra sem borðuðu heita matinn heima. Víða má því bæta hollustu fæðisins í mötuneytum, og á þetta að öllum líkindum við um mötuneyti ríkisstofnana ekki síður en á öðrum vinnustöðum. Ábendingar eða viðmiðunarreglur um samsetningu fæðis í mötuneytum ríkisstofnana væri leið til að bæta framboð á hollu og góðu fæði fyrir starfsfólk og gæti meðal annars aukið hlut grænmetis í fæðinu. Ekki er síður brýnt að setja reglur eða viðmiðanir varðandi fæði á dagvistar- eða dvalarstofnunum, hvort heldur er fyrir börn, aldraða eða sjúka.
Verðlag
Verðlag hefur áhrif á neyslu matvara og sýna markaðsrannsóknir að 20% verðlagslækkun leiðir að jafnaði til 10% söluaukningar (11). Verðlag á íslensku grænmeti er hátt, jafnvel svo að fólk veigrar sér við að kaupa vöruna. Vafalítið á hátt verðlag drýgstan þátt í lítilli neyslu hérlendis. Verndunaraðgerðir stjórnvalda viðhalda háu verðlagi og hvetja ekki til samkeppni. Það er mat Manneldisráðs að án verðlækkunar sé illmögulegt að hvetja til aukinnar neyslu, nema þá eingöngu yfir vetrarmánuði þegar íslenskt grænmeti er ekki á boðstólum. Áróður ríkisstofnunar á borð við Manneldisráð um mikilvægi þessarar vöru fyrir hollustu og heilsu þjóðarinnar verður óneitanlega holur og kraftlítill ef ekkert er aðhafst af hálfu ríkisvaldins til að verð til neytenda geti lækkað. Meðan aðrar hefðbundnari landbúnaðarvörur á Íslandi eru niðurgreiddar af ríki, er enginn stuðningur veittur við grænmetisframleiðslu. Þvert á móti stuðlar ríkisvaldið að háu grænmetisverði með því fyrirkomulagi sem nú er við lýði.
Kynning, áróður og fræðsla
Í stefnu og starfsáætlun Manneldisráðs fyrir árin 1999-2001 kemur fram að forgangsverkefni ráðsins er að hvetja til aukinnar neyslu grænmetis og ávaxta undir vígorðinu Veljum 5 á dag! Samvinna hefur verið um þessa hvatningu frá árinu 1995 milli Hjartaverndar, Krabbameinsfélagsins og Manneldisráðs. Einnig hafa dreifingaraðilar grænmetis tekið þátt í verkefninu og er mikilvægt að auka þá samvinnu en fjárskortur hefur orðið til þess að hvatningin hefur orðið nokkuð máttvana. Skólar, heilsugæsla og aðrar heilbrigðisstofnanir, eru nauðsynlegur vettvangur fyrir fræðslu um hollustu, auk fjölmiðla. Fræðsla ein og sér er þó ekki líkleg til að skila skjótum árangri, hins vegar er hún nauðsynlegur þáttur í hvers kyns aðgerðum sem beinast að því að auka grænmetisneyslu þjóðarinnar.
Heimildir
1. Steingrímsdóttir L, Þorgeirsdóttir H, Ægisdóttir S. Könnun á mataræði Íslendinga 1990. 1. Helstu niðurstöður. Rannsóknir Manneldisráðs Íslands III, Reykjavík 1991.
2. Steingrímsdóttir L, Þorgeirsdóttir H, Ægisdóttir S. Hvað borðar íslensk æska? Könnun á mataræði ungs skólafólks 1992-1993. Rannsóknir Manneldisráðs Íslands IV, Reykjavík 1993.
3. Nordic Statistical Yearbook 1998. Nord 1998:1,Copenhagen 1998.
4. Steinmetz KA, Potter JD. Vegetables, fruit and cancer. I. Epidemiology. Cancer Causes and Control 1991; 2: 325-357.
5. Block G, Patterson B, Subar A. Fruit, vegetables and cancer prevention: a review of epidemiological evidence. Nutr Cancer 1992; 18: 1-29.
6. Jansen MCJF, van´t Veer P, Kok FJ. Fruit and vegetables in chronic disease prevention. Landouwuniversiteit Wageningen 1995.
7. Food nutrition and the prevention of cancer: a global perspective, World Cancer Research Fund/American Insitute for Cancer Research, Washington 1997.
8. Steinmetz KA, Potter JD. Vegetables, fruit and cancer prevention: a review. J Am Diet Assoc 1995; 96: 1027-1039.
9. Frugt og grøntsager Anbefalinger for indtagelse. Red: Trolle E, Fagt S, Ovesen L. Ministeriet for Fødevarer, Landbrug og Fiskeri. Veterinær- og Fødevaredirektoratet. Publikation nr. 24, 1998.
10. Fruit and Vegetables in Chronic Disease Prevention. Ed. Klerk M, Jansen MCJF, van´t Veer P, Kok FJ. Division of Human Nutrition and Epidemiology, Wageningen Agricultural University, Wageningen 1998.
11. Kostnad-nytte vurderinger av tiltak for å øke forbruket av frukt og grønnsaker, for å redusere forekomsten av kreft. Statens ernæringsråd. Rapport nr. 4, 1998.
12. Bellizzi MC, Franklin MF, Duthie GG, James WPT. Vitamin E and coronary heart disease: the European paradox. Eur J Clin Nutr 1994; 48: 822-831.
13. Thorogood M. The epidemiology of vegetarianism and health. Nutr Res Rev 1995; 8: 179-192.
14. Kush LH o fl. Diet and 20-year mo rtality from coronary heart disease: The Ireland-Boston Diet Heart Study. N Engl J Med 1985; 312: 811-818.
15. Ness AR, Powles JW. Fruit and vegetables and cardiovascular disease: a review. Int J Epidemiol, 1997; 26: 1-13.
16. Ubbink JB, Becker PJ, Vermaak WJ. Will an increased dietary folate intake reduce the incidence of cardiovascular disease? Nutr Rev 1996, 54; 213-216.
17. Hertog MGL, Feskens EJM, Kromhout C. Antioxidant flavonols and coronary heart disease risk. Lancet 1997; 349-699.
18. Þorgeirsdóttir H. Per capita supply of food in Iceland 1956-1995 and changes in the prevalence of overweight and obvesity in men and women aged 45-64 in Reykjavík 1975-1994.
19. World Health Organization (WHO), 1998. OBESITY, Preventing and managing the global epidemic. Report of the WHO Consultation on Obesity, Geneva 3-5 June 1997. Geneva: World Health Organization.
20. MRC Vitamin Study Research Group: Prevention of neural tube defects: results of the MRC vitamin study. Lancet
Höfundur greinar
Laufey Steingrímsdóttir
Allar færslur höfundar