B2-vítamín

B2-vítamín er nafnið sem notað er yfir vatnsleysanlega efnið ríbóflavín sem áður var kallað laktóflavín. Flavus þýðir gulur á latínu og vítamínið er sem sagt gult. Öll B-vítamín eru tekin upp í þeim hluta smáþarmanna sem liggur næst maganum (á latínu jejunum).

Hvernig nýtir líkaminn B2-vítamín?

B2-vítamín er mikilvæg uppistaða í tveimur mismunandi kóensímum sem nefnast FAD og FMN en þau bindast heilmörgum ensímkerfum sem eru frumum líkamans nauðsynleg þegar umbreyta þarf orku. Vítamínið er því mikilvægt við orkubúskapinn, einkum próteinbúskapinn en líka í fitu og kolvetnabúskapnum. Það styður við eðlilegan vöxt og brennslu og eflir orkuna og styrkir ónæmiskerfið. B2-vítamín er líka mikilvægt fyrir vöxt, húð, neglur, hár, varir, tungu og sjón. B2 er líka mjög gott til að draga úr einkennum doða, kvíða, stressi og ofþreytu.

Í hvaða mat er B2-vítamín?

Mest er af B2-vítamíni í lifur og nýrum en aðaluppspretta þess er samt í mjólkurvörum (t.d. ostur, mjólk og jógúrt), aðeins minna í kjöti og kornvörum (grófu korni), ýmsu grænmeti (sojabaunir, grænt gænmeti, möndlur, hnetur og sveppir), ávöxtum, eggjum og fiski. Ljós og áfengi brjóta vítamínið niður (og því betra að geyma mjólk í fernum en flöskum). B2-vítamínið er að mestu leyti í sama mat og B1-vítamín.

Hvað má taka mikið af B2-vítamíni?

Ráðlagðir dagskammtar* fyrir B2-vítamín á Íslandi árið 2013 skv. Landlæknisembættinu: 

Börn 6-11 mán 0,5 mg
Börn 12-23 mán 0,6 mg
Börn 2-5 ára 0,7 mg
Börn 6-9 ára 1,1 mg
Börn (kk) 10-13 ára 1,3 mg

Unglingar (kk) 14-17 ára 1,7 mg
Karlar 18-30 ára 1,6 mg
Karlar 31-60 ára 1,5 mg
Karlar 61-74 ára 1,4 mg
Karlar ≥75ára 1,3 mg
Börn (kk) 10-13 ára 1,2 mg

Unglingar (kvk) 14-17 ára 1,4 mg
Konur 18-30 ára 1,3 mg
Konur 31-60 ára 1,2 mg
Konur 61-74 ára 1,2 mg
Konur ≥ 75 ára 1,2 mg
Konur á meðgöngu 1,6 mg
Konur með barn á brjósti 1,7 mg

* Ráðlagðir dagskammtar (RDS) er það magn nauðsynlegra vítamína og steinefna sem talið er fullnægja þörfum alls þorra heilbrigðs fólks. Þarfir fólks fyrir næringarefni eru mjög breytilegar og því geta RDS ekki alltaf sagt  til um einstaklingsbundnar þarfir. 

Búskapurinn eykst í veikindum, við íþróttaiðkanir og ýmislegt annað. Það fer eftir orkubrennslu líkamans hve mikið þarf af B2-vítamíni á dag.

Hvernig lýsir B2-vítamínskortur sér?

Áfengissjúklingum og fólki sem býr við einhæft mataræði, er einkum hætt við B2-vítamínskorti. Einkennin koma í ljós þegar daglegur skammtur nær ekki 0,6 mg.

Minniháttar skortur
getur valdið magnleysi og þreytu.

Meiriháttar skortur
Við meiriháttar vítamínskort geta komið sár í munnvikin og á varir eins og við sýkingu (angularstomatitis), sýking í tungu með litabreytingum í slímhimnu munnholsins (glossitis) og húðin orðið flekkótt og fitustorkin. Þar sem B2-vítamín er nauðsynlegt til að B-vítamínin virki, B6 (pýridoxín) og B3 (níasín), eiga þessi tvö vítamín sennilega sök á þeim einkennum sem ríbóflavínskortur veldur. Það er fátítt að skortur verði á einu einstöku B-vítamíni. Þess vegna er gefin blanda af öllum B-vítamínum ef skortur verður.

Hvað eykur hættuna á B2-vítamínskorti?

  • Elli samfara einhæfum eða naumum mat.
  • Langvarandi, óskipulegir megrunarkúrar.
  • Áfengissýki.

Langtímanotkun ýmissa lyfja getur einnig aukið hættuna á B2-vítamínskorti.

  • Klórprómazín við geðveiki.
  • Chloramfenicól og tetracýklín við sýkingum.
  • Búsúlfan/doxorubicin við krabbameini.

Hvernig er ráðin bót á B2-vítamínskorti?

Meðferðin er fólgin í 5-40 milligrömmum af ríbóflavíni á dag í hálfan mánuð. Vitamin B2 hefur líka verið notað til að koma veg fyrir mígreni og er þá tekið 400 mg daglega, en það gæti tekið alveg 3 mánuði að fá fram fulla virkni.

Hvað ber að varast?

Ef tekin eru taugalyf í formi Klórprómazín skilst B2-vítamínið tvöfalt fljótar úr líkamunum með þvaginu.

Hvernig lýsir of mikið B2-vítamín sér?

Það er ekki hægt að taka upp svo mikið af B2-vítamíni um þarmana að það valdi eitrun. Þar að auki er vítamínið vatnsleysanlegt svo að það sem umfram er skilst út með þvaginu.

Greinin birtist fyrst árið 1999 en var uppfærð 20.apríl 2020

Höfundur greinar