Ber eru náttúrulegur hollustugjafi og því full ástæða til að hvetja fólk til að tína ber og nýta sér þau, bæði til að borða beint og í matargerð. Ekki skaðar að með því að fjölskyldan fer saman í berjatínsluferð þá skapast skemmtilegar samverustundir og það er um að gera að leyfa börnunum að tína berin upp í sig eins og þau lystir – börn á Íslandi borða almennt of lítið af ávöxtum.
Vítamínauðug og hitaeiningasnauð
En hvað er svona hollt og gott við berin? Jú, þau eru auðug af vítamínum, steinefnum, trefjaefnum og öðrum hollustuefnum. Sérstaklega eru þau rík af C-vítamíni og talsvert er af E-vítamíni í aðalbláberjum og bláberjum. Bæði þessi vítamín eru andoxunarefni en þau hindra myndun skaðlegra sindurefna í frumum líkamans. Þessi sindurefni eru talin tengjast hrörnun og því að ákveðnir sjúkdómar þróast í líkamanum, s.s. krabbamein, æðakölkun og ský á auga.
Rannsóknir hafa sýnt að bláber hafa sérstaklega mikla andoxunarvirkni en auk áðurnefndra vítamína er litarefnið anthocyanin, sem gerir þau blá, virkt andoxunarefni en það er talin vera ástæðan fyrir þessari sérstöðu bláberjanna. Töluvert er af járni í krækiberjum en rannsóknir sýna að mörg börn og konur á Íslandi fá ekki nægjanlegt magn járns úr fæðunni. Krækiber og aðalbláber eru einnig trefjarík en trefjaefni eru nauðsynleg fyrir eðlilega meltingu. Margir eru að huga að þyngdinni og þeir geta glaðst yfir því að óhætt er að borða töluvert af berjum, því í 100 g, sem er um einn og hálfur desilítri, eru ekki nema á bilinu 27-60 hitaeiningar, minnst í krækiberjum en mest í bláberjum. Sama magn af bláberjum veitir 38 mg af C-vítamíni sem eru tæplega 2/3 hlutar af ráðlögðum dagskammti og fimmta part af ráðlögðum dagskammti af E-vítamíni.
Varðveitum hollustuna og minningarnar
Þó gott sé að tína berin beint upp í sig þá fara nú flestir í berjamó til að tína nægilegt magn af berjum til að taka með heim og nýta í matargerð, strax eða yfir vetrarmánuðina. Nýtínd ber eru bragðmeiri ef þau eru borðuð við stofuhita heldur en ef þau eru köld. Til að varðveita hollustuefnin sem best eru berin fryst og þess gætt að merja þau ekki. Best er að frysta þau lagskipt í boxi og helst ekki mjög mikið magn í hverju. Eins er gott að stilla magninu í hóf ef berin eru fryst í poka. Þetta er til að þau frjósi sem jafnast og verði fyrir sem minnstu hnjaski. Svo eru sultur og saft úr berjum alltaf jafnvinsælar og minna okkur á sumarylinn og ferðina í berjamó í kuldanum og skammdeginu.
Grein þessi birtist fyrst á vef Landlæknis og er birt hér með góðfúslegu leyfi þeirra
.
Höfundur greinar
Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnisstjóri á Lýðheilsustöð
Allar færslur höfundar