Fjölmargir Íslendingar taka E-vítamín daglega og fylgja þar fordæmi margra annarra þjóða. Tilgangurinn er að draga úr tíðni ýmissa alvarlegra sjúkdóma, þ.á.m. krabbameina, kransæðasjúkdóma og heilablóðfalla. E-vítamín er fituleysanlegt vítamín og er í hópi svonefndra sindurvara eða andoxunarefna. Talið hefur verið að með því að hindra oxun kólesteróls megi draga úr tíðni segamyndunar í kransæðum.
Eykur kyngetuna?
E-vítmín hefur einnig verið talið draga úr myndun krabbameins með því að auka myndun svonefndra stakeinda en í miklu magni geta þær átt hluta að illkynja frumubreytingum í líkamanum.
Auk þess hafa verið uppi ábendingar um að notkun E-vítamíns geti einnig aukið frjósemi og kyngetu og jafnvel hamlað ótímabærri öldrun. Svipaðir eiginleikar hafa einnig verið taldir fylgja C-vítamíni og betakarótíni. Ekki er að furða að margir hafi þyrpst í verslanir til að kaupa sér E-vítamín.
En hvað er þá hæft í þessu? Eru góðar upplýsingar um gagnsemi E-vítamíns í þessu skyni? Nýlegar rannsóknir benda til að svo sé ekki. Í rannsókn sem birtist fyrir fimm árum og gerð var á tæplega 10 þúsund manns yfir 55 ára aldri með æðakölkun eða sykursýki kom í ljós að E-vítamíntaka hafði engin áhrif á tíðni kransæðasjúkdóma hjá hópnum. Var fólkinu fylgt eftir að þessu leyti í tæp fimm ár. Frekari rannsóknir á hluta af sama hóp í sjö ár leiddi einnig í ljós að vítamín E hafði heldur ekki áhrif á tíðni krabbameins, dánartölu af völdum krabbameins eða á kransæðastíflu og heilablóðfall. Hins vegar reyndust þeir sem tóku E-vítamín fá oftar hjartabilun en þeir sem ekki tóku vítamínið.
E-vítamín og ellihrörnun í augnbotni
E-vítamín og ellihrörnun í augnbotni Rannsókn sem birtist fyrir nokkrum vikum leiddi síðan í ljós að fólk sem tók E-vítamín og hafði fengið krabbamein áður var líklegra til að fá annað krabbamein en þeir sem ekki tóku E-vítamín og virtist því notkun á andoxunarvítamíni auka líkur á að fá krabbamein í annað sinn. Loks birtist snemma á þessu ári samantekt úr 19 klínískum rannsóknum sem tóku til rúmlega 135 þúsund manns. Allar lutu að notkun E-vítamíns og í ljós kom að dánartala þeirra sem tóku háan skammt E-vítamíns (>400 alþjóðl. ein. á dag) var hærri en búast mátti við og var þar horft til allra dánarorsaka. Hins vegar eru vísbendingar um, m.a. í rannsókn frá 2001, að hár skammtur E-vítamíns sem tekinn er með zinktöflum geti dregið úr tíðni ellihrörnunar í augnbotni. Ljóslega verður að vega þær niðurstöður í ljósi þess sem síðar hefur komið í ljós.
Hvað er E-vítamín?
E-vítamín er samheiti fyrir tvo flokka efna, tókóferól og tókótrienól. E-vítamín er fituleysið andoxunarefni sem kemur í veg fyrir skaða vegna peroxunar fjölómettaðra fitusýra í frumuhimnum. Magn E-vítamíns er gefið upp í alfa-tókóferól jafngildum (?-TJ) eða alþjóðaeiningum (ae). Eitt milligram af alfa-tókóferóli telst vera 1 ?-TJ eða 1,49 ae. Þörfin fyrir E-vítamín eykst því meira sem er af fjölómettuðum fitusýrum og járni í fæði en járn hvatar peroxun fitusýra. Greinilegur skortur á E-vítamín er þó afar fátíður. Íslenskar ráðleggingar fyrir E-vítamín miðast við ríflega neyslu af fjölómettuðum fitusýrum og eru 8 mg ?-TJ fyrir konur og 10 mg fyrir karla.
E-vítamín í fæðu er nægilegt
E-vítamín í fæðu er nægilegt Þess vegna bendir ýmislegt til að vonir um að E-vítamín og önnur andoxunarefni á borð við C-vítamín og betakarótín geti verið heilsubót hafa því dvínað mikið og í stuttu máli eru ekki haldbær rök úr stórum klínískum rannsóknum fyrir að mæla með að almenningur án klínískra merkja um E-vítamínskort taki E-vítamín umfram það sem fæst úr venjulegri fæðu.
Hvaða fæða inniheldur E-vítamín?
- Mest er af E-vítamíni í sólblómaolíu, maísolíu og rapsolíu.
- Einnig er mikið í möndlum, heslihnetum, jarðhnetum, sólblómafræjum og hveitikími.
- Smjörlíki og lýsi er oft E-vítamínbætt.
- Avókadó, rauð papríka, apríkósur, eggjarauður og rækjur innihalda töluvert af E-vítamíni en í kjöti eða mjólkurmat er lítið E-vítamín.
Greinin birtist á vef Landlæknis og birtist hér með góðfúslegu leyfi
Höfundur greinar
Sigurður Guðmundsson landlæknir
Allar færslur höfundar