Dökkt súkkulaði er hlaðið næringarefnum og efnasamböndum sem geta haft jákvæð áhrif á heilsuna. Súkkulaði er búið til úr fræjum kakótrés og er talið innihalda hvað mest af andoxunarefnum. Gríska heitið á kakótré er Theobroma cacao en theobroma má útleggja sem „fæða guðanna“.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að dökkt súkkulaði geti bætt heilsu og dregið úr líkum á hjarta og æða sjúkdómum. Það inniheldur meðal annars trefjar, járn, magnesium, kopar, mangan og fleiri næringarefni sem eru okkur nauðsynleg auk þess að innihalda nokkrar tegundir af öflugum andoxunarefnum í meira magni en önnur fæða.
Þessi lífrænu sambönd í súkkulaði geta bætt blóðflæði í æðum og valdið vægri en tölfræðilega marktækri lækkun á blóðþrýstingi. Það má helst rekja til andoxunarefnisins fenóls sem er að finna í ýmsum fæðuflokkum en margir kannast við umræðuna um þetta efni í rauðvíni og hjartabætandi áhrif þess þar. Reyndar er það þannig að súkkulaði inniheldur meira af fenóli en rauðvín og þannig mætti færa rök fyrir því að ráðleggja fólki að borða dökkt súkkulaði frekar en að ráðleggja hóflega rauðvínsdrykkju.
Dökkt súkkulaði er einnig talið hafa jákvæð áhrif á kólesteról og insúlínframleiðslu sem hefur áhrif á blóðsykur og blóðsykurstjórnun. Rannsóknir hafa sýnt fram á talsverða lækkun á áhættuþáttum hjartasjúkdóma hjá þeim sem borða hvað mest af dökku súkkulaði.
Ahrif fenóls á blóðflæði hefur einnig jákvæð áhrif á húðina og verndandi áhrif gegn geislum sólar. Þessi áhrif geta einnig aukið blóðflæði til heilans og þannig bætt starfssemi hans. Þar bætast ofan á örvandi efni í súkkulaði svo sem koffín og theobromine.
Þrátt fyrir þetta er ekki ástæða til þess að belgja sig út af súkkulaði. Það er mjög orkuríkt og yfir 30% af innihaldi þess er fita, og þar af helmingurinn mettuð fita. Eins er ekki sama hvaða súkkulaði er valið. Þess vegna þarf að velja þarf gæðasúkkulaði og það þarf að vera dökkt eða 70% kakóinnihald eða meira. Því dekkra súkkulaði því minna er sykurinnihaldið líka.
Fáðu þér einn eða tvo mola eftir kvöldmat og njóttu þeirra vel því dökkt súkkulaði er ein af þeim fæðutegundum sem bæði bragðast vel og hafa jákvæð áhrif áheilsuna
Höfundur greinar
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Allar færslur höfundar