Geðrækt er þýðing á því sem á ensku er nefnt „mental health promotion“ og er þá átt við allt það sem gert er til að hlúa að geðheilsunni.
Þar sem geðrækt er frekar nýtt hugtak getur verið gott að útskýra það með tilvísun í líkamsrækt.
Allir vita hvað líkamsrækt er og þekkja mikilvægi þess að rækta líkamann til að draga úr líkamlegum kvillum. Þetta er þó langt frá því að vera tvennt aðskilið.
Það að rækta líkamann hefur bein áhrif á andlega líðan og því er fimmta geðorðið hvatning um að hreyfa sig daglega.
Flestir kannast við þá vellíðan sem fylgir því að taka á líkamlega. Í kjölfar slíkra átaka flæða hormón um líkamann sem veita okkur vellíðan sem er eftirsóknaverð og heilbrigð.
Fimmta geðorðið
Staðreyndin er sú að regluleg hreyfing veitir ekki einungis vellíðan rétt eftir að henni er lokið heldur stuðlar hún að betri líðan í framtíðinni.
Þeir sem hreyfa sig reglulega alla ævi eru hamingjusamari í ellinni.
Sýnt hefur verið fram á samband milli þess hve mikið fólk hreyfir sig og hve vel því líður á efri árum.
Þeir sem hreyfa sig minna hafa meiri tilhneigingu til að vera þunglyndir á efri árum en hinir sem hreyfa sig reglulega.
Möguleikarnir eru margir
Það eru örugglega mismunandi ástæður sem fólk gefur upp fyrir því að hreyfa sig ekki reglulega.
Fæstar þeirra eru gildar og góðar og því eins gott að losa okkur við þær sem fyrst.
Þessi reglulega hreyfing þarf ekki að vera mikil, en til þess að við njótum hennar þurfum við að finna eitthvað sem hentar okkur.
Eitthvað sem við höfum gaman af.
Sumir tengja reglulega hreyfingu við félagsskap við aðra og nota tækifærið til að hitta skemmtilega vini um leið og þeir hreyfa sig.
Öðrum finnst gott að eiga tíma með sjálfum sér um leið og þeir hreyfa sig.
Möguleikarnir til að hreyfa sig reglulega eru margir.
Einhverjum hentar vel að fara í líkamsræktarstöðvar. Öðrum hentar betur að fara út að ganga, í sund, á hestbak, í jóga eða hvað sem er.
Hvað við veljum að gera er aukaatriði.
Aðalatriðið er að finna eitthvað sem hentar manni sjálfum og byrja sem fyrst að stunda reglulega hreyfingu og rækta þannig bæði líkamlega og andlega heilsu.
Greinin var áður birt árið 2017 en hefur verið uppfærð og yfirfarin af Guðrúnu Gyðu Hauksdóttur, hjúkrunarfræðingi
Höfundur greinar
Doktor.is
Allar færslur höfundar