“Vinn þú verk þitt, Arjúna! og í samvitund vertu við hið guðdómlega. Hafna öllu, er heftir þig. Vertu samur og jafn í meðlæti og mótlæti. Jafnvægi sálar er og jóga kallað.³ Hávamál Indíalands (Bhagavad Gíta), 2 kviða, vers 48
Jóga er allsherjarkerfi sem miðar að samruna líkama, hugar og sálar. Innan kerfisins eru margar greinar sem allar hafa sama markmið. Leiðin sem mest er kennd í vestrænu samfélagi byggist á líkamsæfingum, öndunaræfingum og slökun. Hún kallast hatha jóga. Markmið hatha jóga er að koma á jafnvægi og halda óhindruðu flæði (t.d. blóð- og taugaorkuflæði) um helstu kerfi líkamans.
Hvað gerir regluleg jógaástundun fyrir mig?
Jógaástundun gerir allt frá því að losa um spennu í líkamanum, koma jafnvægi á hormónaflæði, auka blóðflæði, næra húðina, næra hársvörðinn, nudda innyflin, losa um eitur- og úrgangsefni sem hafa safnast upp víða í líkamanum (t.d. djúpt í vöðvavefjum og liðum), koma jafnvægi á meltingu og losun, hafa góð áhrif á innkirtlakerfi og heiladingul og margt fleira.
Jógaástundun hjálpar okkur að halda eðlilegu orkuflæði um líkamann með því að halda honum slökum og teygjanlegum. Í því ástandi getur líkaminn getur auðveldlega læknað sig sjálfur. Regluleg hatha jógaástundun getur bætt líkamlega líðan, aukið einbeitingu, örvað meltingu, styrkt og liðkað líkamann, róað hugann, dýpkað svefninn, mýkt liðina og margt fleira. Flestir sem ástunda jóga reglulega fara aldrei meira en 5 kílóum upp eða niður fyrir kjörþyngd.
Margar gerðir jóga
Hatha jóga samanstendur af 84 grunnstöðum og mörg þúsund útfærslum á þeim. Vegna þessarar gífurlegu fjölbreytni hafa sprottið upp margar áherslur innan hatha jóga, flestar á síðustu öld. Sem dæmi má nefna: Kripalu-, Bikram-, Iyengar-, Sivananda-, Power- og Ashtangajóga. Jafnvel þótt þessar stefnur virðist ólíkar við fyrstu sýn er um að ræða mismunandi útfærslur á líkamsstöðum sem byggjast á sama grunni. Útfærslurnar eru síðan kenndar við menn eða aðferðafræði. Sjáendurnir sem fæddu af sér jógafræðin kusu að vera nafnlausir um leið og þeir kenndu margar mismunandi leiðir að sama markinu. Ég kenni hatha jóga í allri sinni fjölbreytni með það í huga að mismunandi nálgun er af hinu góða ef ástundunin á að endast manni alla ævi. Hatha jóga má stunda frá unga aldri fram á efri ár.
Líkamsstöður
Sanskrítarorðið asana merkir kyrrstaða og er notað yfir líkamsæfingar í hatha jóga. Óróleiki í líkamanum býr til eirðarleysi í huganum. Þegar líkaminn er agaður til að halda ákveðinni líkamsstöðu í lengri tíma skapast jafnvægi og ró færist yfir líkmann. Þá færist einnig ró yfir hugann.
Við í hinum vestræna heimi höfum vanist því að líkamsstöðurnar séu kallaðar jóga jafnvel þótt þær séu aðeins lítill hluti af heildarkerfinu. Til þess að valda ekki frekari ruglingi mun ég áfram nota orðið jóga og tala um jógaástundun þegar ég minnist á líkamsstöðurnar.
Í jóga er byrjað á því að aga líkamann. Hinir fornu sjáendur skildu að það er auðveldara að ná valdi á hinu fasta formi en ósýnilegum huganum. Með því að einbeita sér að líkamanum fyrst verður auðveldara að ná valdi á huganum, róa hann og kyrra.
Allir geta fundið jógastöður við sitt hæfi. Jafnt byrjendur sem lengra komnir, jafnt ungir sem aldnir geta gert stöður í mismunandi útfærslum og í samræmi við eigin hreyfigetu.
Ef þú lærir að hlusta á skilaboð líkamans og fylgja þeim bætir þú heilsu þína og eykur hamingju. Íhugaðu hvaða breytingar þú getur gert á lífsmunstri þínu til þess að draga úr óþægindum. Þarftu að hvíla þig meira eða borða minna? Þarftu að verja meiri tíma með fjölskyldunni? Sefur þú nóg? Brosir þú framan í lífið?
Þrátt fyrir að hatha jóga hafi ákveðinn líkamlegan ávinning í för með sér ætti aldrei að nota ákveðnar stöður sem lækningartæki. Regluleg jógaástundun hefur fyrirbyggjandi áhrif og stöðurnar ætti ávallt að nota sem hluta af heildrænu kerfi sem miðar að því að viðhalda heilbrigði.
Forðastu að dæma þig fyrir stirðleika og gerðu þér strax grein fyrir því að þetta er ekki keppni, hvorki við sjálfan þig né aðra. Upplifðu líkamann eins og hann er, gerðu eins og þú getur og láttu þar við sitja. Heilsan verður betri og hugurinn þroskast og þróast við ástundun.
Höfundur greinar
Guðjón Bergmann
Allar færslur höfundar