Jólafastan

Nú er aðventan gengin í garð, eða öðru nafni jólafastan. Þetta var kallað jólafasta vegna þess að í kaþólskri trú fastaði fólk þessar 4 vikur fyrir jól, þá oftast á rauðu kjöti. Fólk neitaði sér um ýmislegt sem þótti sjálfsagt frá upphafi jólaföstunnar þangað til hátíðin gekk í garð. Það var til að minna sig á þakklætið, og að geta fengið að borða. Um leið minnti fólk sig á að það að gefa er sælla en að þiggja.

Fasta

Umræðan um hefur föstur aukist og  það mætti svosem segja að það sé búið að vera í „tísku“ í nokkur ár. En hvað er átt við með að fasta? Þetta svokallaða „föstuástand“ er komið á í líkamanum um 8 klst. eftir síðustu máltíð. Þá hefur líkaminn lokið við meltinguna og upptökuna á næringarefnum úr máltíðinni. Margar útgáfur hafa komið fram um föstuform:

  • 5:2 mataræði. Þá er gert ráð fyrir að borða skv hitaeiningafjölda sem hentar hverjum og einum miðað við kyn, hæð og þyngd t.d. 5 daga vikunnar. Hina 2 dagana er borðað aðeins ¼ af þeim hitaeiningum sem innbyrðar eru hina daga. Þannig að ef við myndum gefa okkur að kona eigi að innbyrða 2000 hitaeiningar, en karlar 2400 á venjulegum degi, en á þessum 2 dögum þar sem fasta er ætti konan að innbyrða 500 hitaeiningar og karlar 600 hitaeiningar.
  • 16:8 eða 17:7. Þá er ramminn sem þú borðar 7-8 klst og ramminn sem þú fastar 16-17klst. Engin regla er svosem á hvenær yfir daginn það er sem þú fastar/borðar, en algengast er þó að fasta frá kvöldmat að hádegismat daginn eftir.
  • Svo eru til ýmsar aðrar týpur af föstum, t.d x margar klst á mánuði, 1 dag í viku, fasta annan hvern dag (1 dagur borðar og svo 1 dagur fastar), o.s.frv. Líka föstur á trúarlegum forsendum. Það geta verið margar útfærslur.

Mikilvægt er þó að geta þess að þó svo að fastað sé, þá er ekki alltaf verið að tala að fasta bæði á mat og drykk eins og er stundum í trúarlegum föstum. Það er í lagi að drekka vatn, svart kaffi, hreint te og aðra sykurlausa/hitaeiningalausa drykki.

Ekki sama og svelti

Ég ætla að ítrekað það að það er mikill munur á því að sleppa því að borða einn og einn dag og því að fasta í langan tíma þannig að það fari að ganga á líkamann. Sum lyf má til dæmis alls ekki taka á fastandi maga. Það er mikilvægt að tala við sinn lækni áður en ákveðið er að fasta. Það er til þess að útiloka undirliggjandi vandamál sem gætu versnað við föstuástand. Ef einstaklingur upplifir mikla þreytu eða magnleysi ætti það ekki að fasta. Sama á við ef einstaklingar stunda mikla líkamsrækt, eru undir miklu álagi í vinnu eða persónulegu lífi. Þeir ættu ekki að fasta á meðan því stendur. Almenn skynsemi dugar oft best!

Stöldrum við og njótum

Í kristinni trú er talað um að jólafastan eða aðventan eigi að vera íhugunartími um hvernig við högum okkar lífi. Að staldra við og að aðstoða aðra sem eru í neyð á einhvern hátt. Í nútíma samfélagi er jólafastan eða aðventan ekki beint tíminn sem flestir staldra við og hugsa út í hvernig hver og einn hagar sínu lífi. Tíminn fer í að skrifa jólakort, kaupa jólagjafir, jólahreingerningin, ný jólaföt á alla fjölskylduna. Svo kemur jólasveinninn 13 dögum fyrir jól og setur í skóinn fyrir káta krakka. Þá á eftir að kaupa jólatré, baka nokkrar sortir af jólasmákökum og svo þarf að huga að jólamatnum og jólaskreytingum. Í þessu amstri hleypur tíminn svolítið frá okkur og stressið fer að krauma undir yfirborðinu sem ætti mögulega frekar að vera öfugt – að njóta tímans með fjölskyldunni og slaka á. En það er þó oftast gert þegar hátíðin er loksins gengin í garð.

Það er mikilvægt fyrir okkur að muna að í öllu amstrinu í aðventunni eða jólaföstunni að huga að því að njóta þess að gera allt sem þarf að gera og gera það með fjölskyldumeðlimum. Þá ertu að minnsta kosti að eyða tíma með fjölskyldunni. Og hafa það í huga hvað skiptir mestu máli, fyrir hvern er þessi tími? Af hverju er þessi asi, getum við ekki staldrað aðeins við og andað djúpt og endurhugsað hlutina? Hugsum líka um jörðina okkar á þessum tíma – og reynum sleppa því að kaupa óþarfa!

Höfundur greinar